8.4 C
Selfoss

Velferðarþjónustan og samþætting þjónustu í þágu farsældar barna

Helga Lind Pálsdóttir
Helga Lind Pálsdóttir

Á árinu 2021 voru lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, gjarnan kölluð farsældarlögin, samþykkt á Alþingi. Markmið laganna er að tryggja að börn og foreldrar sem þurfa á stuðningi að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana og eru farsældarlögin afrakstur gríðarlega mikillar samstilltrar vinnu margra aðila og stofnana.

Farsældarlögin í framkvæmd

Farsældarlögin eru leiðarvísir fyrir starfsfólk innan velferðarþjónustunnar og aðra aðila sem vinna að hagsmunum barna og fjölskyldna um hvernig beri að veita samþættan og snemmtækan stuðning. Lögin setja skyldur og kveða á um samstarf á milli m.a. menntastofnana, heilbrigðiskerfisins og félagsþjónustu auk lögreglu og íþrótta- og æskulýðsstarfs. Samstarf þessara aðila getur haft grundvallarþýðingu fyrir þau börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á stuðningi að halda til að tryggja velferð og farsæld til framtíðar.

Farsældarlögin munu og hafa þegar kallað á aukið framlag starfsmanna á ýmsum sviðum innan þjónustustofnana sveitarfélagsins. Með innleiðingu farsældarlaganna kemur til útgjaldaaukningar hjá sveitarfélaginu hér í Árborg líkt og hjá öðrum sveitarfélögum á landinu. Í því samhengi er nauðsynlegt að hafa í huga að markmið farsældarlaganna er að fækka áföllum og erfiðum upplifunum sem börn geta orðið fyrir á uppvaxtarárunum og efla þannig seiglu þeirra til framtíðar. Ávinningurinn mun koma fram með tímanum og sparnaðurinn til langtíma mun vega meira en núverandi og komandi útgjaldaaukning. Lögin eru því fjárfesting til framtíðar.

Farsældarlögin í Árborg

Sveitarfélagið Árborg, með fjölskyldusvið Árborgar í fararbroddi, hefur þegar náð gríðarlega góðum árangri í innleiðingu farsældarlaganna. Góður árangur við innleiðinguna hjá Árborg hefur vakið eftirtekt annarra sveitarfélaga og hefur Árborg verið titlað frumkvöðlasveitarfélag við innleiðingu farsældarlaganna. Er þetta að þakka þeim gríðarlega öfluga og framsýna mannauði sem sveitarfélagið býr yfir.

Innleiðingu farsældarlaganna er ekki lokið en áætlað er að innleiðingaferlið standi yfir næstu þrjú til fimm árin. Velferðarþjónustan og fjölskyldusvið Árborgar munu þurfa á öflugu baklandi í bæjarstjórn að halda við áframhaldandi innleiðingarferli, enda eru verkefnin framundan fjölmörg og krefjandi. Það er trú okkar í D-listanum að með samstilltri vinnu, skilningi og samtali á milli mannauðsins í sveitarfélaginu og bæjarstjórnar, samtali sem byggist á þekkingu og reynslu, getum við tekið höndum saman um þróun þjónustu sem byggist á farsældarlögunum, þjónustu til framtíðar og til heilla fyrir börn og fjölskyldur í Árborg.

Við í D-listanum viljum vera sterk rödd velferðarþjónustunnar í Árborg okkar allra.

Helga Lind Pálsdóttir, félagsráðgjafi MA
6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg 

Xdarborg.is

Nýjar fréttir