Sveitarfélög á Íslandi komast ekki hjá því að horfast í augu við ógnir sem geta raskað daglegri starfsemi samfélagsins. Þó maður líti ekki lengra en 15 ár aftur í tímann, þá hefur Árborg þurft að takast á við jarðskjálfta, bankahrun, faraldur, húsbruna og sinuelda í byggð. Ekki er dregið í efa að hver einasti aðili í samfélaginu hafi brugðist strax við og gert sitt besta þegar á reyndi. Hins vegar sýnir reynslan að því betur sem íbúar, starfsmenn og bæjarfulltrúar eru búnir undir áföllin, því betur verður staðið að aðgerðunum og því minni verður röskunin, öllum til heilla.
Á yfirstandandi kjörtímabili var komið á fót innra skipulagi í Árborg vegna samfélagsröskunar. Þetta var gert í skrefum. Árið 2020 skipaði bæjarstjórn í Viðbragðsstjórn, sem í sitja bæjarstjóri, yfirmenn sviða og lykilstarfsfólk upplýsingamiðlunar, og starfar hún þegar á reynir. Þá stofnsetti bæjarstjórn Almannavarnaráð árið 2021 til að tryggja aðkomu bæjarstjórnar að stefnumótun, eftirliti og viðbragðsaðgerðum með skipulögðum hætti. Sá orðrómur fór á kreik að Árborg ætlaði með þessu að draga sig út úr samstarfi við Almannavarnanefnd Árnessýslu, en það var ekki rétt. Og nú á fundi sínum þann 27. apríl 2022 samþykkti bæjarstjórn skipulag sem tryggir góða stjórnsýsluhætti vegna samfélagsröskunar sem nær til allra starfsmanna. Framundan eru verkefni á sviði áhættugreiningar, forvarna, og viðbúnaðar vegna aðgerða. Með þessum aðgerðum er Árborg að vinna að 11. heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna.
Ég hef átt þann heiður að starfa með tveimur bæjarfulltrúum og bæjarstjóra í Almannavarnaráði Árborgar við að koma á þessu nýju skipulagi. Nú, þegar þetta vandaða skipulag er í höfn finn ég fyrir þakklæti til samráðsmanna minna og þeirra starfsmanna sem tóku þátt í að móta skipulagið. Gott skipulag er afurð góðs samstarfs þeirra sem eiga að starfa eftir því. Mikilvægt er að næsta bæjarstjórn Árborgar haldi áfram því góða starfi sem hafið er. Árborg er t.d. komin í þriggja ára samstarf við Háskóla Íslands um áhættugreiningu, o.fl., og fyrirhuguð er skrifborðsæfing næsta haust. Ég óska nýrri bæjarstjórn velfarnaðar og held áfram að bjóða fram krafta mína á þessu sviði.
Sólveig Þorvaldsdóttir verkfræðingur,
skipar 21.sæti hjá Framsókn í Árborg