-1.5 C
Selfoss

Af hverju fluttir þú í Nýju Árborg?

Tómas og Ari
Tómas og Ari

Frá árinu 2018 hefur íbúum í Svf. Árborg fjölgað úr 9.000 í 11.000 eða um 22%. Samkvæmt tölum Hagstofunnar eru aðfluttir á tímabilinu um 4.000 og brottfluttir 2000. Það þýðir að ríflega þriðjungur þess fólks sem að býr í sveitarfélaginu nú, bjó ekki hér fyrir árið 2018. Mögnuð staðreynd!

Hefur þú kæri nýbúi í Svf. Árborg velt því fyrir þér af hverju þú og þín fjölskylda völduð að flytja í sveitarfélagið? Getur það verið vegna þess að á undanförnum fjórum árum hefur núverandi bæjarstjórnarmeirihluti markvisst unnið að því gera sveitarfélagið fjölskylduvænt og það eftirsóttasta á landinu að búa í? Svo sem með byggingu Selfosshallarinnar, sex deilda leikskólans Goðheima og leik-, grunn-, og tónlistarskólans Stekkaskóla ásamt því að útbúa fjölskyldugarð við Gráhellu og vinna markvisst að því innan stjórnsýslunnar að sem allra besta þjónusta yrði veitt íbúunum.

Við látum verkin tala

Veistu hvernig staðan var þegar að núverandi bæjarstjórnarmeirihluti tók við um vorið 2018? Verkefnin sem biðu okkar, eftir átta ára valdatíð D-lista Sjálfstæðisflokksins, voru risavaxin. Fáir óska eftir því að slík staða banki aftur uppá, nema þá kannski helst fáir útvaldir. Úrlausnarefnin kröfðust skynsamlegra lausna og útheimti gríðarlega vinnu okkar sem störfuðu saman í meirihlutanum. Í stuttu máli sagt að þá var það alls ekki sjálfgefið að svo vel hafi heppnast til við uppbyggingar- og endurreisnarstarfið og raun ber vitni. Undanfarin fjögur ár hefur Svf. Árborg hreinlega tekið algerum stakkaskiptum. Og það allt gert á meðan að Covid-19 skók heimsbyggðina.

Við sem skipum framboðslista M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra munum halda áfram því endurreisnar- og uppbyggingarstarfi sem hófst árið 2018, og gerum það nú undir kjörorðinu „Nýja Árborg“. Við munum halda áfram á sömu braut og mörkuð var fyrir fjórum árum síðan.

Ert þú og fjölskylda þín ekki sammála okkur um að því verki beri að halda áfram og halda Svf. Árborg á þeim stalli að vera eftirsóknarverðasti búsetukostur landsins?

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og formaður bæjarráðs. Skipar 1. sæti á framboðslista M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Árborg

Ari Már Ólafsson, húsasmíðameistari og nefndarfulltrúi í skipulags- og byggingarnefnd. Skipar 2. sæti á framboðslista M-lista Miðflokksins og Sjálfstæðra í Árborg

Random Image

Nýjar fréttir