7.8 C
Selfoss

Fræðibækur eru mínar ær og kýr

Vinsælast

segir lestrarhesturinn Hildur Hákonardóttir

Hildur Hákonardóttir er fædd í Reykjavík árið 1938. Hún er því af þeirri kynslóð sem man eftir stríðsárunum og líklega af þeirri kynslóð sem hefur lifað í gegnum hvað mestar þjóðfélagsbreytingar. Hún fluttist átján ára til Bandaríkjanna og dvaldi þar á nokkuð afgerandi mótunarárum bæði sínum og landsins. Eftir heimkomuna lagði hún stund á myndvefnað og kenndi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og stýrði honum gegnum töluverðar breytingar á árunum 1975-78. Hún fluttist í Ölfusið á garðyrkjubýli 1980 og tók skömmu síðar við Byggða- og listasafni Árnessýslu og stýrði hvoru tveggja meðan þau söfn voru enn staðsett á Selfossi. Bílslys olli því að hún varð að hætta að starfa við vefinn og takast á við einfaldari hreyfingar og fór að skrifa þess í stað.

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Ég er stöðugt að glugga í bækur. Allt frá handbókum um ræktun yfir í allskonar mannkynssögur. En um daginn tók ég fram Gunnlaðarsögu Svövu Jakobsdóttur og er að endurlesa hana. Nýjasta bókin sem ég keypti eru Sjö goðsögur um Lúther. Það er erfið lesning en ég held að það sé mjög þarft að taka áhrif hans á trúarlíf okkar til endurskoðunar. Ekki síst þurfum við konurnar að kynna okkur hvernig og af hverju hinu kvenlega hefur smám saman verið útrýmt úr þeirri trúarstefnu sem við hann er kennd.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Fræðibækur eru mínar ær og kýr í bókaheiminum. Upplýsingarnar eru raunverulegri á pappírnum, þótt svo að fleira finnist á internetinu – en það er svo fljótandi. Það er annars konar veröld. Bækur sem ég á og eru svo mikið notaðar að þær eru við að detta eða dottnar úr bandinu eru gamla Iðnsagan sem gefin var út 1930 (búin að líma hana núna), Ævisaga Eggerts Ólafssonar (er hjá bókbindara), Íslensk list frá fyrri öldum, Handritin og fornsögurnar (myndahefti), Matur og drykkur Helgu Sigurðar og Matreiðslubók Jóninnu. Sama má segja um Samheitaorðabókina og Íslensku orðsifjabókina. Fallega myndskreyttar pappírskápurnar utanaf fyrstu útgáfu Íslandsklukku Kiljans eru dottnar af en hún kom út í þremur heftum óinnbundin og hinar hétu Eldur í Kaupmannahöfn og Hið ljósa man. Þegar ég fór að hugleiða það sá ég að allar þessar bækur höfðu tilheyrt öðrum á undan mér og því jafnvel gagnast fleiri en einni kynslóð. En bækur eru misjafnlega vel frágengnar. Það sér varla á þjóðsögum Jóns Árnasonar eftir margar áratuga not og meðan Íslendingasagnaútgáfan frá 1987 er strax farin að sýna á sér ellimörk.

Varstu alin upp við bóklestur?

Bókum var haldið að okkur systrum og við fórum snemma að lesa sjálfar. En þó voru myndir og jafnvel útlit bókanna ekki síður áhugamál mitt heldur en textinn. Myndskreytingar Barböru Árnason voru í uppáhaldi hjá mér en ég held að fyrsta bókin sem mér fannst vera mín eigin hafi verið Músin og Mylluhjólið – barnabók með útskornum götum þar sem mýsla skaust inn og út milli blaðsíðna. Bókaheimur bernskunnar náði yfir íslenskar þjóðsögur, Grimmsævintýri og sögur H. C. Andresens. Svolítið eldri ferðaðist ég með á baki gæsasteggs Selmu Lagerlöf yfir köfllótt akurlendi þéttbýlis og húkti á þilfari Ódysseifs þegar sýrenurnar voru að seyða hann til sín og leitaði með Nasareddin að húslyklunum í ljósinu frá götuluktinni og labbaði á eftir asna Esóps yfir steinhlaðnar brýrnar. Í gegnum þá tvo síðarnefndu höfunda kynnist ég Súfismanum án þess að vita það. En jafnframt sé ég nú að boðskapurinn í Kvöldvökum Hannesar biskups að velja skyldi uppbyggilegar dæmisögur um dýr og velgjörðir manna fyrir börn og taka slíkar sögur fram yfir grófar ýkjusögur af tröllum og furðuskepnum og manndrápsgrobb víkinganna hafði haft áhrif á bókmenntaheim minnar kynslóðar og framboð lesefnis.

En hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Mig langar enn að „detta í bók“ eins og það var kallað þegar söguþráðurinn verður svo grípandi að maður stelst inn í uppáhalds hægindastólinn sinn, gleymir uppþvottinum og öðrum verkefnum dagsins og leyfir sér að hverfa inn í söguna í bókstaflegri merkingu. En með aldrinum varð ég kræsnari með innihaldið og lagði til dæmis krimmana til hliðar því að ofbeldið höfðar ekki til mín – heldur var það ráðgátan en hún er erfiðari í meðförum fyrir höfundinn og góðar bækur af því tagi sjaldgæfar núna. Ég les mikið á ensku og stundum finnst mér gaman að þýða texta. Ekki vegna þess að ég sé natin við að finna íslensk orð, það er fyrir vísnasmiðina, heldur til að ná skilningi á hugsuninni og fræðast. Með aldrinum finn ég líka meiri samkennd með gamaldags „ættarsögum“ þar sem höfundar fjalla um kynskóðir sem taka við hver af annarri af því að ég sé þetta gerast í kringum mig.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Ellis Peters sem skrifaði nítján sakamálasögur um velska munkinn Cadfael sem hún staðsetti í tíma á tólftu öld voru mínar uppáhalds afþreyingarbækur. Það kemur einkum til af tvennu. Hún var flínk að flytja lesanda sinn inn í það umhverfi sem hún lýsir og gagnþekkir og vefur sagnfræðlegar upplýsingar svo snildarlega inn í atburðarásina ásamt því landfræðilega og pólitíkska umhverfi sem sögurnar byggja á. Endirinn hjá Ellis er þó alltaf fyrisjáanlegur – ástin og það góða sigrar. Af eldri íslenskum höfundum myndi ég tilnefna Jón Trausta svolítið af sömu ástæðum þótt hann sé töluvert raunsærri hvað örlög mannanna snertir.

Hefur bóklestur rænt þig svefni?

Það gerir saga með spennandi atburðarás en kvikmyndir og þættir hafa þó yfirtekið það hlutverk að verulegu leyti.

En að lokum Hildur: Hvernig rithöfundur ert þú sjálf?

Ég hef oft velt þessu fyrir mér: Af hverju er maður að skrifa. Ljóðformið er ekki mitt heldur fremur myndin. Ég hef skrifað bækur um jurtir, sögu þeirra og not, Kvennafrídaginn og biskupsfrúrnar í Skálholti.  Ég geri þetta til að grafa fram og varðveita fróðleik sem mér finnst gagnlegur og þess virði að honum sé haldið á lofti. Öðrum finnst auðveldara eða skemmtilegra að gera slíkt í skáldsöguformi eða með því að segja sína eigin sögu.

Ritstjórn Lestrarhestsins er í höndum Jóns Özurar Snorrasonar.

Nýjar fréttir