10 C
Selfoss

Málefni eldri borgara í Árborg.

Marianne Brandsson - Nielssen
Marianne Brandsson – Nielssen

Eldri borgurum sem hætta að vinna fer fjölgandi.  Í dag eru 65 ára og eldri um 15% þjóðarinnar og spár gera ráð fyrir að árið 2030 verði þeir nær 18%.  Sveitarfélagið Árborg á hrós skilið fyrir framgöngu í málefnum eldra fólks en það þarf að gera betur.  Í fyrrahaust hófst skipulögð heilsuefling fyrir 60+.  Í Selfosshöllina mættu 60 til 70 manns tvisvar í viku í styrktaræfingar hjá íþróttafræðingi. Þetta hefur slegið í gegn.  Þessar æfingar eru gríðarlega mikilvægar, styrkja stoðkerfi, auka jafnvægi og hafa jákvæð áhrif á andlega líðan.

Í byrjun maí næstkomandi verður boðið uppá heitan mat, á vægu verði, í Mörk til að borða á staðnum.  Í fyrstu er þetta í boði tvo virka daga í viku en stefnt að fjölga dögunum.  Hreyfing og næring skipta mjög miklu máli fyrir þennan aldurshóp og má ekki gefa neinn afslátt í þeim efnum.

Í dag eru 40 rými á hjúkrunarheimilum Fossheima og Ljósheima.  Í sumar verður tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili með 60 rýmum.  Ákveðið hefur verið að 40 skjólstæðingar sem hafa verið á Landspítala flytji í nýja húsið og dvelji þar tímabundið á meðan aukið verður við hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu.  Núna bíða 35 einstaklingar eftir plássi á þessum hjúkrunarheimilum þannig að það verður að halda í þau 40 rými sem tímabundið eru nýtt vegna eklu á höfuðborgarsvæðinu.  Þegar staðan lagast þarf að standa fast á því að þeim rýmum verði ekki fækkað t.d vegna annarar starfsemi á HSU.  Það eru pláss fyrir 31 einstakling í dagdvöl sem eru í Árbliki og Vinaminni.  Eftir dvöl þar bíða á milli 10 og 16 manns.  Ganga verður fast eftir samningi við Sjúkratryggingar Íslands um að fullnýta þá mikilvægu þjónustu sem Þar er í boði.

Brýnt er að ganga í að koma upp þjónustuíbúðum þar sem heimili og þjónusta er tengd saman og er millistig þess að búa heima eða á hjúkrunarheimili.  Með því getur eldra fólk verið í eigin íbúð og fengið daglegt innlit og þjónustu.  Sveitarfélagið verður að huga að fjölgun félagslegra- og almennra leiguíbúða fyrir aldraða.  Þar þarf að taka til hendinni fljótt því öldrun þjóðarinnar er hröð.

Öldungaráð verður að virkja að fullu svo eldra fólk hafi milliliðalausa leið til að koma málefnum sínum á framfæri við bæjarfulltrúa.

Marianne Ósk Brandsson – Nielsen
sérfræðingur í heimilislækningum
og er í 13. sæti á lista B lista Framsóknarflokks

Nýjar fréttir