8.9 C
Selfoss

Göngum lengra og bætum velferðarkerfi samfélagsins

Sveitarfélagið Árborg er ört vaxandi sveitarfélag enda vel staðsett og býður upp á fjölbreytta möguleika til búsetu. Því er mikilvægt að við búum vel að íbúum okkar og setjum málefni barnafjölskyldna, aldraðra og öryrkja í forgang. Hér eru falleg græn svæði sem bæta lífsgæði bæjarbúa, þá höfum við höfum fjöruna, úthafið og fuglafriðlandið svo ekki sé minnst á Ölfusána og umhverfi hennar svo fátt eitt sé talið

Mikil fjölgun íbúa í sveitarfélaginu kallar á að hugað sé enn betur og stöðugt að innviðum samfélagsins sem eru því miður brostnir, en það eru vaxtaverkir þess sem hröð fólksfjölgun veldur. Þess vegna er svo mikilvægt að missa ekki sjónar á því að forgangsraða rétt og hlúa að þessum málaflokkum.

  • Mikilvægt er að að fjölga leikskólaplássum jafnt og þétt og útrýma biðlistum, þannig að við lok fæðingarorlofs geti foreldrar gengið að leikskólaplássi vísu.
  • Jafnframt er stefna VG að lækka leikskólagjöld í þrepum og að endingu verði leikskólar í Árborg gjaldfrjálst skólastig, líkt og grunnskólastigið.
  • Við viljum að í Árborg séu skólarnir reknir af sveitarfélaginu og að skólastarf haldi áfram að vaxa og dafna. Því  þarf að auka fjármagn til skólanna, fjölga fagfólki og sérfræðingum til að styðja við það góða starf sem þar fer fram.
  • Það er afar mikilvægt að byggja fullbúið framtíðarhúsnæði skólans á Eyrarbakka, klára íþróttaaðstöðu í þorpunum við ströndina og byggja upp frístundaraðstöðu á Stokkseyri.
  • Auk þess að hraða byggingu Stekkjaskóla og hefja sem fyrst framkvæmdir við nýjan grunnskóla á Selfossi.
  • Nauðsynlegt er að öll börn geti stundað tómstundir og íþróttir óháð búsetu og efnahag.
  • Að auka fjölbreytni í tómstundum þannig að öll börn finni sér tómstundir við hæfi.
  • VG leggur mjög mikla áherslu á jafnrétti og vill  því að öll börn sitji efnahagslega við sama borð, meðal annars með gjaldfrjálsum skólamáltíðum og hærri frístundastyrk.
  • Mikilvægt er að auka búsetu- og atvinnuúrræði fyrir fólk með fötlun, bjóða upp á fjölbreyttari lausnir, setja aukið fjármagn í þann málaflokk og virkja NPA þjónustuna frekar.
  • Aðgengismál þurfa að vera í forgangi, bæta þarf hjólastólaaðgengi og sjá til þess að það sé alls staðar í lagi.
  • Við viljum að eldri borgarar hafi möguleika á að búa heima eins lengi og þeir kjósa og til þess þarf að efla heimaþjónustu sem þarf að vera á forsendum þeirra sem hana þiggja.

GÖNGUM LENGRA í Árborg í því að bæta velferðarkerfi samfélagsins okkar og setjum velferð barna, aldraðra og öryrkja í forgang. Kjósum Vinstri græn.

Sædís Ósk Harðardóttir skipar 4. sæti og
Dagmara Maria Zolich skipar 12. sæti á lista Vinstri grænna. 

Nýjar fréttir