1.2 C
Selfoss

Árborg – Höfuðstaður Suðurlands

Vinsælast

Heildstæð stefnumótun og framtíð Árborgar sem höfuðstaðs Suðurlands

Kjörorð Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs „göngum lengra“ endurspeglar að við sem erum í framboði fyrir VG viljum tryggja að öll framþróun í sveitarfálaginu verði jákvæð og stefni í rétta átt.   Með þessum orðum erum við að horfa til framtíðar þar sem við viljum meðal annars:

  • tryggja félagsleg réttindi íbúa
  • að hagræn þróun byggist á aðhaldi í fjármálum
  • að tekjuöflun einkennist af réttlátri gjaldtöku
  • að innviðauppbygging verði í samræmi við íbúafjölgun
  • að hlúð verði að umhverfi og náttúru.

Til að ná árangri í þessum málaflokkum og öðrum sem viðkoma sveitarfélaginu þarf að hafa hafa skýra sýn á framtíðina. Skýr sýn og markviss stefna í stjórnun og innra skipulagi sveitarfélaga er mikilvægur liður í að ná árangri. Fyrir sveitarfálagið Árborg þarf að vinna heildstæða stefnumótun sem er lykilþáttur í að ná fram jákvæðri framþróun og til að leggja línur að framtíð sveitarfélagsins.  Við hjá Vinstri grænum erum tilbúin í þá vinnu. Við viljum huga að stóru myndinni og setja upp sviðsmyndir hvernig við viljum að Árborg líti út eftir 5 ár, eftir 25 ár og eftir 50 ár þ.e.a.s. þegar Árborg verður stór. Í Árborg eru fullt af tækifærum og það má gera gott samfélag enn betra.

Rýnum í litlu myndirnar

Í stefnumótunarvinnunni verðum við að horfa til allra helstu þátta samfélagsins sem skipta máli til að sveitarfélagið geti vaxið og dafnað. Til að sviðsmyndir framtíðar raungerist  þurfum við að rýna í litlu myndirnar og raða upp mósaík sem styður við jöfnuð, réttlæti, lífsgæði og sjálfbærni. Við viljum búa í samfélagi þar sem við getum sótt alla nauðsynlega þjónustu og við viljum búa í sveitarfélagi þar sem er öflug félagsþjónustu, skóli fyrir börnin okkar og öll þau lífsgæði sem tilheyra nútíma samfélagi. Við þurfum líka að geta sinnt skyldu okkar sem mikilvægur þjónustukjarni fyrir allt Suðurland. Í þessu samhengi þurfum við að horfa til framtíðar og leggja okkur fram við að skoða langtímalausnir en festast ekki í því að slökkva elda til að bjarga málunum. Við hlökkum til að vinna fyrir sveitarfélagið þar sem margt gott hefur verið gert og bjartir tímar framundan.

Við þurfum að sýna Árborg, höfuðstað Suðurlands, þá virðingu að hér verði umhverfi sem tryggir að nútíma samfélag geti vaxið og dafnað. Að Árborg verði eftirsóttur staður til að eiga heima á, til að reka fyrirtæki, til að ala upp börn, til að verða gamall og til að sækja heim.

Göngum lengra, horfum til framtíðar en lærum af fortíðinni.

 

Sigurður Torfi Sigurðsson og Guðbjörg Grímsdóttir
Skipa 1. og 2. sæti á lista Vinstri grænna í Árborg

Nýjar fréttir