0.6 C
Selfoss

Grænar almenningssamgöngur

Jóhanna Ýr
Jóhanna Ýr

Eitt af stefnumálum Framsóknar í Hveragerði fyrir sveitarstjórnarkosningarnar þann 14. maí næstkomandi er að bæta samgöngur í bæjarfélaginu. Bærinn hefur stækkað ört á síðustu misserum, íbúum fjölgað og fjarlægðir á milli ystu svæða hafa lengst. Við viljum útvíkka starfsemi frístundastrætós fyrir alla Hveragerði. Til að auka þjónustu við íbúa er mikilvægt að fjölga ferðum og stoppistöðvum en á tímum Hamarshallar gekk strætóinn eingöngu á milli frístundaheimilis og hallarinnar. Þessu þarf að breyta. Íþróttamannvirki bæjarins munu halda áfram að byggjast upp á svæði Hamarshallarinnar sem og við íþróttahúsið við Skólamörk en með fjölgun ferða og stoppistöðva munu fleiri íbúar í Hveragerði geta nýtt sér strætóinn.

Í takt við samtþykkt bæjarstjórnar á bæjarstjórnarfundi þann 14. mars 2019 um að sett verði markmið í átt að kolefnishlutleysi Hveragerðisbæjar árið 2030 er skýrt í huga Framsóknar að besti kosturinn í þessari samgöngubútbót sé að strætóinn verði knúinn rafmagni, grænn strætó. Í bókun bæjarstjórnar frá sama fundi kemur fram að með markmiði sínu um kolefnishlutleysi árið 2030 skipi Hveragerði sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa ákveðið að axla samfélagslega ábyrgð og setja sér markmið um kolefnishlutleysi árið 2040.

Grænn strætó eykur þjónustu við íbúa, bætir samgöngur og er markmið í átt að kolefnishlutleysi. Ný framsókn í Hveragerði.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir,
bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Framsóknar í Hveragerði.

Nýjar fréttir