8.9 C
Selfoss

Uppljómanir við eldhúsborðið hjá ömmu og afa

Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir
Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir

Lestrarhestur vikunnar er Ragnhildur Elísabet Sigfúsdóttir

Ragnhildur Elísabet er með BA próf í íslensku, kennari, safnvörður og meistaranemi í safnafræði við Háskóla Íslands. Hún starfar við Byggðasafn Árnesinga en eins og er vinnur hún á M/S Museet for Søfart í Helsingør og drekkur í sig ferska og kraftmikla vinda sem leika um veröld safna í Danmörku.    

Hvaða bækur ertu að lesa núna?

Nú er ég að lesa Langelstur að eilífu með yngri börnunum mínum en við höldum mikið upp á Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur, Njálu með unglingunum mínum, ég er hlusta á Hvað er svona merkilegt við það að vera biskupsfrú? eftir Hildi Hákonardóttur á leiðinni til vinnu og þess á milli er ég að lesa Hvað er sagnfræði? sem er safnrit fyrirlestra frá hádegisfundum Sagnfræðifélags Íslands 2006-2007 og tengist sá lestur náminu mínu.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég hef í raun gaman af alls konar bókum. Ég get lesið allt nema kannski mjög væmnar ástarsögur, þær höfða ekki til mín. Þá er ég ekki að tala um reyfara, mér finnst frábært að detta á bólakaf ofan í góðan reyfara – það jafnast örugglega á við hámhorf í sjónvarpi sem margir stunda grimmt í dag. Hins vegar er ekkert eins dásamlegt og marglaga, mikil, íslensk, örlítið tormelt skáldsaga með vísun til sögulegra atburða eða persóna. Sögur þar sem persónurnar eru eftirminnilegar, marghliða, fullkomlega ófullkomnar og kljást við það eitt að vera til.  

Varstu dugleg að lesa sem barn?

Ég las mikið sem barn og unglingur, hvers kyns barna- og ungmennabækur og jólin voru alltaf bókajól. Hins vegar lá ég í Öldinni okkar, var stöðugt að fletta Sunnlenskum byggðum, var sólgin í hvers kyns þjóðlegan fróðleik, drakk í mig þjóðsögur og ævintýri en helst höfðuðu til mín drauga- og álfasögur og frásagnir af einhverju dularfullu. Ég er alin upp við bækur og sögur upp um allt og alla veggi á mínu æskuheimili og á heimilum ömmu og afa. Það var lesið fyrir mig og sungið, mér voru sagðar sögur og ég fékk að segja frá. Ég á sterkar bernskuminningar og jafnvel uppljómanir tengdar eldhúsborði ömmu og afa, bæði móður og föður. Menningin við eldhúsborð föðurfjölskyldu minnar var dásamleg þar sem börn fengu orðið, mikið var farið með hvers kyns þulur og gátur, jafnvel spáð í bolla og yngri systur pabba gerðu mikið af því að spekúlera í tilverunni með okkur krökkunum á þann hátt að pára á blaðsnepla. Þegar maður hugsar til baka var þetta ekkert annað en heimspeki og nútvitund í sinni tærustu mynd. Við eldhúsborð móðurfjölskyldu minnar var ekkert síður dásamlegt en kannski örlítið kvikara og alþjóðlegra en það má segja að þar hafi alltaf verið gestir og oft erlendir, spennandi frásagnir fylgdu þessum gestum, heimurinn var undir og aftur fékk barnið að spreyta sig og finna til sín. Að finna til sín er sjálfsagt ein mikilvægasta tilfinning sem hægt er að upplifa sem barn, þá stækkar sjálfið.

Hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Ég reyni að vera stöðugt með bók á náttborðinu eins og það kallast. Næ því þó ekki alltaf og stundum verða til langar pásur og þá finn ég hvernig kvarnast úr andlegu hliðinni. Það er nefnilega þannig að þegar þú ert að lesa góða bók þá áttu skjól. Athvarf frá daglegu amstri og almennum leiðindum, skyldum og væntingum. Þú átt heiminn í sögunni út af fyrir þig og getur horfið til hans og hvílst.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Já og nei, kannski frekar eftirminnilegar bækur líkt og Sumarljós og svo kemur nóttin eftir Jón Kalman Stefánsson sem ég les helst einu sinni á ári. Ég held upp á Halldór Laxness og hef gert síðan ég var í íslenskunámi sem var í kringum síðustu aldamót. Salka Valka, Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkan eru sögur sem verða hluti af manni eftir að hafa lesið þær sem kennari með nemendum. Og ekki var leiðinlegt að kryfja Gerplu undir leiðsögn Bergljótar Soffíu Kristjánsdóttur. Híbýli vindanna er saga sem fer inn að kviku en samt um leið svo lipur og í raun stórskemmtileg þó sagan sé átakanleg. Ég er hrifin af skáldskap Gyrðis Elíassonar og er Bréfbátarigningin sérlega eftirminnileg. Sögurnar hennar Vilborgar Davíðsdóttur alveg frá Korku og að Askinum eru í miklu uppáhaldi og þar með höfundurinn. Ljósmóðirin eftir Eyrúnu Ingadóttur er dásamleg saga úr héraði og ég hef í hyggju að lesa söguna hennar um Sigríði frá Brattholti. Ég tengi sögur mikið við tímabil í lífi mínu og sæki stemningu þess sem var í gegnum sögur sem ég hef lesið. Sögurnar hennar Kristínar Marju Baldursdóttur hafa einhverra hluta vegna verið hjá mér löngu eftir að lestri er lokið og ég hugsa oft til þeirra. Aðventa Gunnars Gunnarssonar er perla sem verður fegurri með tímanum og hverju skiptinu sem maður kemur að henni. Merking eftir Fríðu Ísberg stóð upp úr af því sem ég las síðustu jól og ég bíð spennt eftir því sem kemur næst frá henni.

En hefur bók einhvern tímann rænt þig nætursvefni?

Margoft, mér finnst ég hafa dottið í lukkupottinn þegar slíkt gerist og fyllist þá tómleikatilfinningu þegar ég hef lokið lestrinum og spyr sjálfa mig hvort ég verði svo heppin að upplifa þetta aftur.

En að lokum Ragga, hvernig bækur myndir þú skrifa sjálf?

Ævintýri/sögur fyrir börn og ungmenni. Ef ég gæti smellt fingri og orðið farsæll rithöfundur þá vildi ég helsta búa yfir þeim hæfileika að geta skrifað sögur í líkingu við sögurnar hennar Astrid Lindgren. Þær eru töfrum líkastar! Þar er að finna allt litróf lífsins, ef allir í heiminum myndu lesa sögur Lindgren þá væri hann mun betri og fegurri staður!

Umsjón með Lestrarhestinum hefur Jón Özur Snorrason

Nýjar fréttir