-1.1 C
Selfoss

Það birtir á ný

Vinsælast

„Mamma, ég vildi óska þess að ég gæti farið aftur í tímann,“ sagði 6 ára sonur minn einn daginn. „Nú, af hverju?“ sagði ég. „Nú af því að þá gæti alltaf verið sumar og ég verið í stuttermabol og strigaskóm.“ Já, sonur minn er svo sannarlega sonur pabba síns. Hann elskar sól og sumaryl.

Ég held að mörg okkar kannist við þessa upplifun. Við gleðjumst yfir hækkandi sól. Við finnum lyktina af vorinu í loftinu. Það styttist í sumardaginn fyrsta.  Við gleðjumst yfir því að farið er að birta meir og það er auðveldara að skríða á fætur að morgni. Ég held að besta fjárfesting sem ég hafi gert eða kannski eigingjarnasta afmælisgjöf sem ég hef gefið (svona eftirá að hyggja) hafi verið sólarupprásarvekjaraklukka sem ég gaf manninum mínum í afmælisgjöf. Þessi klukka hefur verulega bætt morgnana hjá okkur hjónum. Vekjaraklukkan vekur okkur að morgni með hálftíma sólarupprás og fuglasöng og svæfir okkur að kvöldi með sólarlagi og engisprettuhljóði. Ég keypti klukkuna samt i alvöru bara fyrir hann en svo eftirá að hyggja þá græddi ég líka. Nú langar mig helst að það sé ein svona klukka í hverju herbergi í húsinu. Ég held að það sé þessari klukku að þakka að við höfum yfir höfuð vaknað á morgnana í vetur. Það er ótrúlegt hvað birtan og sólin gerir mikið fyrir andlega líðan. Ég vaknaði einn morguninn kl. 06:00 við það að fuglarnir voru farnir að syngja. Mér fannst það mjög skrítið þar sem ég vissi að þær færu yfirleitt ekki að syngja fyrr en kl. 6:30 í klukkunni. Þá áttaði ég mig á því að þetta var ekki gervifuglahljóð heldur fuglar sem voru í alvöru að syngja í garðinum mínum. Ég fylltist þakklæti og hugsaði með sjálfri mér. Yess… vorið er að koma.

Á eftir vetri kemur alltaf vor og svo sumar … þetta á við um árstíðirnar. Þetta á líka við um erfiðleika lífsins og áskoranir sem við tökumst á við. Lífið færir okkur allskonar áskoranir sem við þurfum að takast á við. Það geta verið andlega og líkamleg veikindi. Það geta verið erfiðleikar i samböndum. Við gætum hafa misst vinnuna eða lent í slysi. Mitt í þessum aðstæðum er kannski erfitt að trúa því þegar einhver segir við okkur: ,,Það birtir á ný,” en það er þó yfirleitt raunin. Það er mikilvægt að halda áfram. Stundum þurfum við bara að taka eitt skref í einu. Stundum getum við tekið mörg.  Það mikilvæga er að halda áfram. Vitandi það að með hverjum degi færumst við nær vorinu.

Ég vil því enda þennan pistil á erindi úr laginu með Hækkandi Sól eftir Lovísu Sigrúnu Elísabetardóttur.

Í dimmum vetri – hækkar sól,
bræðir hjartans klakabönd – svo hlý..
Í dimmum vetri – vorið væna,
vermir þitt vænghaf á ný..

Gangi þér vel að taka næsta skref.

Kærleikskveðja,
Gunna Stella

Ráðgjafi, heilsumarkþjálfi og kennari.
https://linktr.ee/gunnastella
Hlaðvarp: Einfaldara líf

Nýjar fréttir