11.7 C
Selfoss

Fjölmennt Bikarmót unglinga í hópfimleikum

Vinsælast

Bikarmót unglinga í hópfimleikum fór fram í fimleikahúsi Gerplu , Digranesi í Kópavogi þann 11-13 mars sl. Yfir 1000 fimleikabörn mættu til keppni full af gleði og eftirvæntingu. Selfoss sendi 6 lið á mótið í 5. flokki, kk yngri, 4. flokki og 3. flokki.

Í 5. flokki eru stúlkur á 9. aldursári og kepptu þær í tveimur liðum frá Selfossi. Þessi aldursflokkur er að stíga sín fyrstu skref á fimleikamóti og því mikil spenna að fara loksins á mót. Flokkurinn var fjölmennur en 16 lið voru skráð til keppni. Veitt eru verðlaun fyrir samanlögð stig eftir æfingar á gólfi, dýnu og trampolíni. Lið 2 lenti í 6. sæti eftir samanlögð 24.080 stig. Liðið stóð sig einkar vel á dýnu en var í 3. sæti á því áhaldi. Lið 1 lenti í 9. sæti með samanlögð 21.110 stig. Besta áhaldið þeirra voru æfingar á gólfi. Hér eru ungar og efnilegar stúlkur sem eiga framtíðina fyrir sér í fimleikum.

Í Kk yngri eru drengir á aldrinum 8-11 ára og sumir þeirra að stíga sín fyrstu skref á fimleikamóti. Virkilega gaman er að fylgjast með þessum flokki ungra drengja sem sýna æfingar sínar af mikilli snilli. Drengirnir sýndu góðar æfingar og uppskáru 3. sætið og bronsverðlaun um hálsinn. Þeir fengu samanlögð 29.295 stig

Í 4. flokki eru stúlkur á aldrinum 10-11 ára og var keppt í þremur liðum frá Selfossi. Flokkurinn var mjög fjölmennur en 24 lið voru skráð til keppni. Lið 1, stúlkur á eldra ári í flokknum, náði frábærum árangri og fékk örugg silfur verðlaun með samanlögð 39.325 stig á eftir liði Gerplu 1. Þær voru nokkuð jafnar á öllum áhöldunum sem skilaði þeim þessum frábæra árangri. Lið 2 hafnaði í 8. sæti með samanlögð 35.395 stig og sýndu þær frábærar gólfæfingar. Lið 3 hafnaði í 23. sæti með 20.330 stig en þeirra besta áhald voru gólfæfingar. Stúlkurnar í liði 2 og 3 eru á yngra ári og því virkilega gaman að fylgjast með þeim vaxa í íþróttinni.

Í 3. flokki eru stúlkur á aldrinum 11-12 ára. Selfoss var með eitt lið í þessari keppni en 17 lið voru skráð til keppni. Liðið hafnaði í 7. sæti eftir flottar æfingar á öllum áhöldum. Þessar stúlkur eru á yngra ári í þessum flokki og eiga því mikið inni fyrir komandi mót.

Við hjá fimleikadeild Selfoss erum afar stolt af iðkendum og þjálfurum okkar og óskum þeim öllum innilega til hamingju árangurinn og frábæra fimleikahelgi.

Fréttatilkynning frá Fimleikadeild Selfoss

 

Nýjar fréttir