1.1 C
Selfoss

Straumhvörf að verða í fráveitumálum í Svf. Árborg – seinni hluti

Tómas Ellert Tómasson.
Tómas Ellert Tómasson.

Ástand fráveitumála í Svf. Árborg hefur í langa tíð verið óviðunandi. Staðan hér er þó ekkert einsdæmi ef borið er saman við ástand fráveitumála almennt á landinu öllu. Þó ástand fráveitumála sé ekki og hafi ekki verið viðunandi í sveitarfélaginu fram til þessa, að þá er ekki þar með sagt að ekki hafi verið unnið að úrbótum í fráveitumálum sveitarfélagsins undanfarin ár og áratugi.

Þann 22. desember sl. birtist fyrri hluti greinarinnar í Dagskránni þar sem rakin var saga og staða fráveitumála á Selfossi í fortíð, nútíð og til framtíðar. Hér á eftir verður farið yfir stöðu fráveitumála í öðrum byggðarkjörnum sveitarfélagsins og í dreifbýlinu þar sem framtíðarlausnir í fráveitumálum verða kynntar.

Fráveitan á Eyrarbakka og Stokkseyri

Fráveitukerfin á Eyrarbakka og Stokkseyri eru að mestum hluta blandkerfi, þ.e. skólp og regnvatn saman í einni lögn. Skólpið rennur á báðum stöðum óhreinsað út í sjó. Árið 2020 var Efla verkfræðistofa fengin til að gera úttekt á ástandi fráveitukerfanna og vinna aðgerðaráætlun fyrir Mannvirkja- og umhverfissvið ásamt með tillögum til úrbóta og kostnaðaráætlun aðgerða.

Á Eyrarbakka eru lagnirnar allt að 70 ára gamlar og rennur skólpið um 7 útrásir út í sjó. Fráveitukerfið á Stokkseyri er aðeins yngra eða allt að 60 ára gamalt og rennur um 4 útrásir út í sjó. Mestur hluti þessara lagna er kominn á tíma hvað lífaldur og almennt ástand varðar. Aðeins í nýjustu götunum á báðum stöðum þar sem er tvöfalt kerfi er hægt að segja að ástandið sé viðunandi. Í úttekt Eflu kemur fram að það sé orðið mjög aðkallandi að bæta ástand kerfisins og setja upp hreinsun á báðum stöðum. Nefndir voru nokkrir möguleikar í því sambandi. Kostnaðurinn getur ef farið er í dýrustu lausnirnar hlaupið á rúmlega fimm milljörðum króna samanlagt fyrir báða staði.

Þess ber þó að geta að ástand fráveitukerfanna á Eyrarbakka og Stokkseyri er mismunandi og því ekki endilega einn og sami möguleikinn sem hentar á báðum stöðum. Einnig getur blanda af möguleikum fyrir mismunandi svæði reynst hagkvæmust og auðveldust í framkvæmd. 

Frá því að úttektin var gerð hefur einnig verið unnið að því að skoða aðrar lausnir. Ein lausnin felst í því að notast við fleiri minni hreinsistöðvar sem hægt er tengja við núverandi fráveitukerfi þannig að skólpið fari fullhreinsað í kerfið og þaðan út í sjó. Það bendir ýmislegt til þess að sú leið sé hreinlega besti kosturinn og sá ódýrasti. Með vorinu er stefnan sú að setja upp minni lífrænar hreinsistöðvar upp á báðum stöðum til prófunar.

Fráveitan í dreifbýlinu

Staðan á fráveitumálum í dreifbýlinu er mjög mismunandi og ekki að fullu kunn þar sem að hingað til hefur það verið á ábyrgð húseigenda sjálfra að annast um þau kerfi og viðhalda. Vinna er nú farin af stað við að breyta fráveitusamþykkt sveitarfélagsins á þann hátt að til framtíðar muni sveitarfélagið sjálft sjá til þess að rotþrær og hreinsistöðvar í dreifbýlinu verði tæmdar með reglulegum hætti líkt og er venjan í flestum sveitarfélögum landsins. Með því fæst einnig virkara eftirlit með ástandi fráveitunnar í dreifbýlinu. Til framtíðar mun þróunin líklegast verða sú í dreifbýlinu að húseigendur muni færa sig smátt og smátt úr hinni hefðbundnu lausn Rotþró/siturlögn yfir í lífrænar hreinsistöðvar þar sem að mismunur á kostnaði lausnanna er nánast enginn í dag, einnig vegna þess að lífrænu hreinsistöðvarnar eru um margt einfaldari í framkvæmd og rekstri.

Staða fráveitukerfa í Svf. Árborg og framtíðarhorfur 

Lengi hefur verið unnið að því að koma fráveitukerfum sveitarfélagsins í viðunandi horf. Á Selfossi hefur verkefnið sem dæmi tekið rúm 40 ár og verið afar kostnaðarsamt í framkvæmd. Nú hyllir undir að ný byltingarkennd hreinsistöð á Selfossi fari í framkvæmd með vorinu eftir áralangan undirbúning. Hreinsistöð sem eftirvæntingarfull augu „fráveituheimsins“ á Íslandi beinast nú að. Áfram verður unnið að endurnýjun lagna í eldri hverfum byggðarkjarnanna og lagnakerfin þar aðskilin í regnvatns- og skólplagnir í stað blandaðs kerfis. 

Af framansögðu má sjá að straumhvörf eru að verða í fráveitumálum í Svf. Árborg og að það styttist í að sveitarfélagið verði í fremstu röð og til fyrirmyndar í fráveitulausnum á landsvísu.

Höfundur er Tómas Ellert Tómasson,
byggingarverk-fræðingur, bæjarfulltrúi M-listans í Svf. Árborg, formaður bæjarráðs og formaður eigna- og veitunefndar.

 

 

Nýjar fréttir