9.5 C
Selfoss

Hvernig get ég minnkað ruslið mitt?

Vinsælast

Töluverð umræða skapast öðru hvoru á samfélagsmiðlum um sorphirðumál. Í Svf. Árborg eru 3 sorptunnur við heimilin fyrir heimilisúrgang sem eru losaðar á þriggja vikna fresti. Afar misjafnt er á milli heimila hversu mikið magn er í tunnunum þegar þær eru tæmdar. Á mínu heimili rúmast t.d. almenna sorpið að jafnaði í einni mjólkurfernu þegar það er losað.

Í núverandi sorphirðukerfi hafa öll heimili greitt nánast sama sorphirðugjald, með örlítilli undantekningu ef fólk  hefur skipt gráu tunnunni úr 240 l tunnu í 120 l tunnu. Í þessu kerfi eru í raun litlir hvatar til þess að draga úr því sorpmagni sem myndast á heimilum. Nú sjáum við hins vegar fram á breytingar í þessum efnum. Um næstu áramót verður innleidd ný löggjöf, þar sem gert er ráð fyrir að hvert og eitt heimili muni greiða sorphirðugjald eftir því magni sem frá heimilinu kemur. Þessi hugmyndafræði kallast „borgað þegar hent er“ (pay as you throw) og er markmið hennar að hvetja heimilin til þess að draga úr myndun úrgangs.

Sveitarfélögin munu við þessar breytingar innleiða nýjar leiðir til gjaldtöku fyrir sorphirðuna sem munu felast í viktun sorpsins með sérstökum búnaði á sorphirðubílum eða þannig að greitt sé eftir rúmmáli sorpsins.

Byrjum strax!

Þar sem ekki er langt í þessar breytingar þá er kjörið að byrja strax á því mikilvæga verkefni að draga sem mest úr því sorpi sem frá heimilinu kemur. En hvað get ég gert til þess að minnka ruslið mitt?

Besta leiðin til að minnka ruslið er að draga úr óþarfa neyslu. Mikilvægast er að muna það að allt sem ég dreg inn á heimili mitt þarf ég á einhverjum tímapunkti að losa mig við. Því er heillavænlegast að velja þá hluti sem keyptir eru af kostgæfni og velta því virkilega fyrir sér hversu mikil not ég hafi fyrir varninginn. Á ég eitthvað nú þegar sem ég get notað í staðinn? Gæti ég fengið hlutinn lánaðan eða leigðan einhvers staðar? Get ég gert við það sem ég á í stað þess að kaupa nýtt? Get ég fært blaðaáskriftina mína úr pappír yfir á rafrænt form?

Það gildir líka að vera vel meðvitaður þegar kemur að matarinnkaupum heimilisins. Góð skipulagning matarinnkaupa eins og t.d. að gera innkaupalista, fara ekki svangur í búðina og að gera matseðil fyrir 1-2 vikur í senn getur komið í veg fyrir matarsóun. Hugum líka að því í hvernig umbúðum matvælin eru sem við kaupum. Get ég t.d. valið sambærilega vöru í minni eða umhverfisvænni umbúðum? Margar verslanir bjóða orðið upp á að viðskiptavinir skilji eftir umbúðir í búðinni eins og t.d. kassa utan af spónamat og fleiru sem getur minnkað magnið sem við setjum í bláu tunnuna.

Það er líka mikilvægt að muna að glerílát, allur textíll (líka götóttir sokkar og nærbuxur!), lyfjaumbúðir, ljósaperur,  spilliefni, rafmagnstæki og fleira má alls ekki fara í sorptunnur við heimilin. Þessu ber öllu að skila í þar til gerðar móttökustöðvar.

Við berum öll ábyrgð þegar kemur að sorplosun. Með því að minnka sorpið við heimilin getum við dregið úr kostnaði við sorphirðu og spornað gegn áhrifum loftslagsbreytinga.

Arna Ír Gunnarsdóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Árborg og
stjórnarkona í Sorpstöð Suðurlands.

Nýjar fréttir