7.8 C
Selfoss

Dýrmætt að taka til sín allt það góða

Vinsælast

Guðni Sighvatsson er lestrarhestur vikunnar.

Guðni Sighvatsson ólst uppi á Lyngási í Holtum. Eftir skólagöngu á Laugalandi í Holtum lá leið hans í FSu og síðar í Íþróttafræði á Laugarvatni þar sem hann býr og starfar í grunnskólanum. Á Laugarvatni líður Guðna vel og hann segst vera „umvafin skóginum, fjallinu og vatninu og þar má jafnvel finna tímann líða örlítið hægar. Tímanum er varið í að sinna fjölskyldu og öllu fiðruðu sem flýgur.”

Hvaða bók ertu að lesa núna?
Núna eru nokkrar bækur sem ég er að lesa í augnablikinu en það fer svolítið eftir tilefninu hvaða bók er tekin upp. Á náttborðinu er Barn að eilífu eftir Sigmund Erni en samstarfsmaður mælti með henni og fannst mér efnið höfða til mín í ljósi þess að ég ólst upp með fatlaðri systur. Léttara efni er svo bókin Gone birding eftir Bill Oddie en hún fjallar á stórskemmtilegan hátt um þann hóp manna sem skoðar fugla af miklum áhuga. Eiginkona mín heldur í þann góða sið að gefa bók að kvöldi Þorláksmessu og Snarkið í stjörnunum eftir Jón Kalman er núna að renna í gegn. Einnig langar mig að nefna bókina Sólkerfið sem ég les fyrir son minn á kvöldin. Dóttir okkar gaf honum hana í jólagjöf og hann er með ákafan fróðleiksþorsta gagnvart alheiminum og Sævar Helgi Bragason hefur einstakt lag á að gera viðfangsefnið heillandi og skemmtilegt.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?
Áður fyrr voru það heldur glæpasögur og hef klárað minn skammt af Arnaldi og Yrsu. Í seinni tíma hafa þær hörfað fyrir bókum með ljóðrænni texta líkt og bækur Jóns Kalmans og ég hef jafnvel tekið upp ljóðabækur þar sem Tómas Guðmundsson er í uppáhaldi og svo hafði ég gaman af Eddu sem Harpa Rún Kristjánsdóttir skrifaði þar sem gamli og nýi tíminn er að mætast og lífinu lýst á svo fallegan hátt í gegnum samskipti og svo missi. Þetta er einmitt það sem er svo dýrmætt, að eiga stundir með stórfjölskyldunni og taka til sín allt það góða sem býr í forfeðrum og mæðrum okkar. Ég get þakkað þeim aukna áhuga þeim lukkutíma sem ég fékk er ég starfaði með Bjarna Þorkelssyni sem er auðugur af fróðleik um ljóð og gaf mikið af sér. 

Varstu alinn upp við lestur bóka?
Ég hafði mikið dálæti á barnabókum á mínum yngri árum þótt ég muni ekki eftir að það hafi verið lesið fyrir mig. Ég las mikið Enid Blyton, Bob Moran auk þess sem ég held að ég hafi lesið nánast allt eftir Ármann Kr. Einarsson og síðar mikið eftir Þorgrím Þráinsson eftir því sem ég komst á unglingsár. Sherlock Holmes var einnig í uppáhaldi og ég var heppinn að bókasafnið á Laugalandi var vel útbúið og einnig var mikið til heima. Það voru ófáar stundirnar sem maður hvarf inn í ævintýraheim og týndi stað og stund.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjunum?
Ég les mikið í skorpum. Á það til að lesa ekkert í 2-3 mánuði og taka svo nokkrar bækur í beit. Ég stofnaði lestarfélag Laugarvatns og nágrennis til þess að halda mér við efnið en er hræddur um að ég sé ekki að standa mig nógu vel þar og á eftir að takast á við Dalalíf hennar Guðrúnar frá Lundi, en það stendur til bóta. Þá höfum við tekið fyrir bók sem við lesum og förum svo í göngutúr þar sem bókin er rædd. Við höfum tengt sögu og stað þegar við göngum og nýttum tækifærið á Þingvöllum eftir að hafa lesið Hraunfólkið eftir Björn Th. Björnsson og svo Skálholtsbók Bjarna Harðar. Annars er það helst upp í sófa með góðan kaffibolla eða rétt fyrir svefninn sem mest er lesið.

Einhverjir uppáhalds höfundar?
Enginn einn frekar en annar. Jón Kalman sýnir svo vel hversu myndrænt og fallega er hægt að setja saman orð. Andri Snær er einnig áhugaverður og Tíminn og vatnið er meistaraverk. Ég er alltaf þakklátur að fá tækifæri til að lesa texta eftir nemendur í skapandi verkefnavinnu. Þau hafa einn dag á viku til að vinna í valfrjálsum verkefnum eftir áhugasviði og höfum við fengið að kynnast sögum og ljóðum sem eru alveg stórgóð. 

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?
Svo sannarlega þó það sé minna í seinni tíð. Oft var freistingin að taka einn kafla enn óyfirstíganleg og erfitt að leggja bók frá sér. Það er líka svo að á kvöldin er oft meira næði og ró og þá er meiri friður til að sökkva sér í viðfangsefnið með fullkominni einbeitingu. 

En að lokum Guðni, hvernig bækur myndir þú skrifa sem rithöfundur?
Ég hef haft gaman af því að skrifa örleikrit og dreymir alltaf um að gera söngleik með Stefáni Þorleifssyni félaga mínum. Annars hef ég sett saman texta og ljóð og ef fyrir mér ætti að liggja að skrifa bók langar mig að skrifa bók sem höfðar til ungra drengja. Erfitt er stundum að finna hentugar bækur fyrir þennan hóp og gaman væri að gera það og mér hefur vissulega dottið sú hugmynd í hug en aldrei komið henni til framkvæmda. 

Lestrarhesturinn er í ritstjórn Jóns Özurar Snorrasonar

Nýjar fréttir