3.4 C
Selfoss

Að byrja í björgunarsveit

Vinsælast

Ég var lengi búin að hugsa um hversu skemmtilegt það væri að byrja í björgunarsveit en fann mér alltaf góðar afsakanir fyrir því að kýla ekki á það. Ekki rétt tímasetning, of ung börn, krefjandi starf, stórt heimili, of gömul, ásamt helling af öðrum afsökunum.  

Haustið 2019 ákvað ég að loksins að rétti tíminn væri kominn þegar ég mætti á nýliðakynningu hjá Flugbjörgunar-sveitinni í Reykjavík þar sem ég var búsett í bænum á þeim tíma.  Þar tók við ótrúlega skemmtilegur vetur með fullt af námskeiðum og ferðahelgum, allt þar til að þið vitið hvað skall á í mars 2020 og allt starf lagðist niður tímabundið. 

Ég flutti í Hveragerði haustið 2020 og sótti strax um að fá að ganga í Hjálparsveit skáta Hveragerði, HSSH. Þar lauk ég minni þjálfun og fékk inngöngu í sveitina. Til þess að komast á útkallsskrá hjá björgunarsveitum þarf að klára ákveðin grunnnámskeið sem kallast í heild sinni Björgunarmaður 1. Þar á meðal eru námskeið eins og fyrsta hjálp, fjallamennska, rötun, ferðamennska og fleira, allt sem er nauðsynlegt til að vera útkallshæfur í okkar starfi. Það sem mér hefur fundist svo frábært við starfið hjá HSSH er hversu fjölbreyttur hópur er innan sveitarinnar þar sem hver ræður sínum hraða, menntun og sérhæfingu. Þegar ég hugsaði um fólk í björgunarsveitum hélt ég alltaf að það væri nauðsynlegt að allir væru svakalegar fjallageitur, en það er einmitt málið að allir geta fundið sér stað og verkefni við hæfi þar sem starfið er svo gríðarlega fjölbreytt. Ég hef ekki verið lengi í björgunarsveit en það má segja að ég hafi öðlast mikla reynslu á skömmum tíma og þá sér í lagi í þeim útköllum og vöktum sem við höfum staðið í Geldingadölum á gosstöðvunum.  

Í dag er ég að þjálfa leitarhundinn Kiru í bæði snjóflóða- og víðavangsleit, ég starfa með undanförum á svæði 3, er gjaldkeri og nýliðaþjálfari þessa starfsárs ásamt því að halda utan um mánudags æfingarnar okkar. Þær æfingar sem við erum með hafa ákveðið þema í hverjum mánuði sem við æfum saman og í lok mánaðar er svo útkallsæfing þar sem látið er reyna á þemað í raunverulegum aðstæðum. Einnig höfum við verið að fara í allskonar æfingaferðir upp á jökla og norður í land, það er því ekki bara vinna og púl að vera í björgunarsveit heldur mjög gefandi og skemmtilegt í góðum hóp.  

Ég er ótrúlega þakklát sjálfri mér að hafa tekið þessa ákvörðun og kynnst fullt af frábæru fólki, bætt þekkingu mína og verið til staðar þegar aðrir þurfa á því að halda. Ef þú hefur áhuga á að starfa með okkur þá skaltu ekki hikað við að hafa samband við okkur og kíkja í heimsókn.  

Arna Diljá,
gjaldkeri Hjálparsveit skáta í Hveragerði

Nýjar fréttir