12.8 C
Selfoss

Ölfus skilar hátt í 300 milljónum í afgang af rekstri

Vinsælast

Sterk staða nýtt til frekari sóknar á forsendum þjónustu við íbúa

Á fundi sínum í gær samþykkti Bæjarstjórn Ölfus fjárhagsáætlun fyrir árið 2022. Áætlunin gerir ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu bæði samtæðu og A hluta, hjá samstæður upp á 283 milljónir og hjá A hluta upp á 143 milljónir.

Ráðgert er að rekstrartekjur samstæðu verði 3.677.545 þús. kr. og rekstrargjöld: 3.043.578 þús. kr.  Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld verði 132.611 þús. kr. og afskriftir 218.288 þús. kr.  Þannig verði rekstarniðurstaða, jákvæð sem nemur 283.067 þús. kr.

Sé litið til A hluta má sjá að ráðgert er að árið 2021 verði  rekstrartekjur 3.094.480 þús. kr. og rekstrargjöld: 2.767.630 þús. kr. Fjármunatekjur og fjármagnsgjöld verði: 82.348 þús kr.  og afskriftir 101.154 þús. Rekstrarniðurstaða verði því jákvæð sem nemur 143.348 þús. kr.

Ráðgert er að veltufé samstæðu frá rekstri verði 612 milljónir og að fjárfesting nemi 1.529 milljónum kr.  Þá er fyrirhugað að greiða langtímalán niður fyrir 211 milljónir en samhliða verði tekin ný lán að upphæð 740.000 milljónir króna. Stærsti hluti þeirrar lántöku er til framkvæmda við höfnina og þá innviðauppbyggingu sem óhjákvæmilega fylgir þeim mikla vexti sem er í Ölfusi. Meðal þeirra stærstu eru bygging á nýjum leikskóla, stækkun á þjónustumiðstöð aldraðra, frekari uppbygging tengd íþróttamannvirkju, gatnagerð, fráveita og fl.

Sé litið til reksturs málaflokka má ljóst vera að umtalsverð útgjaldaaukning er fyrirséð á næsta ári.  Mestu munar þar að velferðarmálefni vaxa verulega.  Þannig eykst kostnaður vegna félagsþjónustu um 54 milljónir frá seinustu fjárhagsáætlun,  fræðslu- og uppeldismál um 112 milljónir og æskulýðs- og íþróttamál um 27 milljónir.

Samhliða þessum mikilvægu þáttum er áfram allra leiða leitað til að létta álögur á bæjarbúa og styðja við bakið á þeim. Þar ber hæst að fasteignaskattur er lækkaður úr 0,33% í 0,31%.  Hefur álagningahlutfallið því lækkað um 18% á fjórum árum eða úr 0,38% árið 2018 í 0,31% 2022.

Þegar litið er til þriggja ára áætlunar kemur í ljós að staða Sveitarfélagsins Ölfuss er sterk.  Fyrirhugað er að rekstrarniðurstaða samstæðu verði 257 milljónir árið 2023, 262 milljónir árið 2024 og 316 milljónir árið 2025.  Þá gerir áætlunin ráð fyrir að rekstrarniðurstaða a-hluta verði 152 milljónir árið 2023, 153 milljónir árið 2023 og 191 milljón árið 2025.

Staða Sveitarfélagsins Ölfus er óumdeilanlega sterk. Íbúafjölgun á seinustu árum nálgast að vera 20%, eftirsókn eftir lóðum er mikil og umfang atvinnuuppbyggingar fordæmalaus. Munar þar mestu um ört vaxandi laxeldi, uppbyggingu hafnarinnar og almenna velmegun. Það sem enn er um vert er að íbúar í samfélaginu mælast nú þeir ánægðustu þegar byggðastofnun mælir viðhorf allra þéttbýlisstaða á landinu.

Nýjar fréttir