9.5 C
Selfoss

Margt af okkar besta íþróttafólki byrjaði í Guggusundi

Vinsælast

Það eru fáir sem kannast ekki við Guðbjörgu Hrefnu Bjarnadóttur, en hún fagnar þessa dagana 30 ára starfsafmæli sínu sem ungbarnasundkennari. Blaðamaður Dagskrárinnar leit við hjá henni í sundtíma um daginn og tók við hana smá spjall.

Guðbjörg er menntaður íþróttakennari og hefur starfað við sundkennslu og sundþjálfun í 40 ár. Hún er gift Þresti Ingvarssyni, húsasmíðameistara, og saman eiga þau 4 börn.

Hún byrjaði sem aðstoðarkona hjá Sigríði Sæland á sundnámskeiðum fyrir 6 ára börn árið 1981 og eru það því 40 ár síðan. Eftir það fór hún svo að þjálfa hjá sunddeild Umf. Selfoss, fyrst með yngri flokka og svo elstu krakkana. Það var svo árið 1986 í Noregi sem hún kynntist ungbarnasundi þar sem hún lærði íþróttafræði í norska íþróttaháskólanum. „Ég féll fyrir því um leið og ákvað samstundis að þetta ætlaði ég að gera með mínum börnum ef ég myndi eignast börn. Ég fór á námskeið þar úti til að fá réttindi til að kenna ungbarnasund og þar sem ég vann með skólanum í sundlaug skólans fékk ég gott tækifæri til að fylgjast með því sem fram fór þar.“ Eftir að skólanum lauk í Noregi fór hún aftur til Íslands og kenndi íþróttir við Vallaskóla á Selfossi. „Ég var alltaf með ungbarnasundið bak við eyrað og beið eftir því að eignast mitt fyrsta barn því ég vildi æfa mig fyrst á mínu eigin barni.“

Frumburðurinn hennar fyrsti nemandi

Örn, elsti sonur hennar, var hennar fyrsti nemandi, en þegar hann fæddist 1991 byrjaði hún að þjálfa hann í baði en fljótt fór hún að færa sig yfir í sundlaugina og fékk hún þá Sigmund Stefánsson, þáverandi forstöðumann sundhallarinnar, til að hækka hitastigið í innilauginni. „Hitastig laugarinnar skiftir nefnilega öllu máli þegar þú ert með svona lítil börn og finnst mér best að hafa vatnið í kringum 34°C. Ég fór mikið með Örn í sund sumarið 1991 og það spurðist fljótt út og það höfðu margir foreldrar samband við mig og spurðu hvort ég gæti ekki haldið námskeið svo þau gætu komið með sín börn til mín. Það varð úr að fyrsta námskeiðið í Guggsundi fór af stað seinnipartinn í október árið 1991, fyrir rétt rúmum 30 árum síðan!

„Til að byrja með voru þetta námskeið í ungbarnasundi en svo fór það þannig að þegar börnin héldu áfram í sundi og fóru að tala þá töluðu þau alltaf um að fara í Guggusund. Þannig að ég greip nafnið á lofti og sundskólinn minn heitir síðan Guggusund,“ segir Guðbjörg. Á þessum tíma var hún þjálfari hjá sundeild Umf. Selfoss og bauð hún deildinni að vera í samstarfi með þeim um námskeiðin og það samstarf hefur haldið síðan.

Elsti og yngsti nemandinn með Guðbjörgu. Mynd: Dagskráin/BRV
Elsti og yngsti nemandinn með Guðbjörgu. Mynd: Dagskráin/BRV

Mörg fylgja mér alveg fram að skólaaldri

Ungbarnasund var lítið þekkt á Íslandi fyrir 30 árum, en þó höfðu nokkrir á höfuðborgarsvæðinu byrjað með ungbarnasund nokkrum mánuðum áður en Guðbjörg hóf sín námskeið á Selfossi, meðal annars fyrrum skólafélagar Guðbjargar í Noregi.

Það gekk ótrúlega vel að koma ungbarnasundinu af stað á Selfossi að sögn Guðbjargar. „Fólkið hafði sjálft samband við mig og svo vildu þau halda áfram þegar námskeiðinu lauk og þá fór ég af stað með framhaldshópa og þannig hélt það svo áfram. Fyrstu árin bauð ég upp á námskeið fram að 4 ára aldri þar sem ég fékk ekki leyfi til að vera með eldri börn en svo breyttist það og í mörg ár hef ég fylgt börnunum eftir frá ca. 2 mánaða aldri og þar til þau byrja í skóla og sum þeirra halda meira segja áfram eftir að þau byrja í skóla þar sem þau vilja ekki hætta.“

Fólk „bjargaði“ oft stráknum

Á þessum 30 árum segir Guðbjörg að ungbarnasund eru orðið mun algengara og fólk vanra því að sjá ung börn sem eru dugleg í vatni. Börnin hennar voru t.d. orðin „synd“ í kringum tveggja og hálfs árs, en þá gátu þau synt um alla laugina kútalaus, kafað lengi og andað þegar þau vildi. „Þegar ég var með Örn í lauginni þá var honum oft „bjargað“ nokkrum sinnum í hverri laugarferð. Fólk var ekki vant pínulitlu barni sem varla gat labbað en synti um allan heita pottinn í kafi langar leiðir og stökk því á barnið og bjargaði því iðulega,“ segir Guðbjörg með bros á vör.

Síðasta vor fæddist svo fyrsta barnabarn Guðbjargar og nú er hann farinn að koma á námskeið hjá ömmu sinni. Auk þess að fara á námskeið fer hann reglulega með henni í sund og eiga þau góðar stundir saman í lauginni.

Mynd: Dagskráin/BRV

Margt af okkar besta íþróttafólki byrjaði fyrstu árin í Guggusundi

„Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með börnunum sem hafa alist upp í Guggusundi í mörg ár. Þar sem ég hef fylgst með öðrum íþróttum á Selfossi í gegnum börnin mín og horft mikið á fimleika, fótbolta og handbolta þá finnst mér sérlega áhugavert að horfa á hvernig „sundbörnin” hreyfa sig á þurru landi. Ég sé mikinn mun á þeim börnum sem hafa verið mikið í vatninu, þau hafa betra jafnvægi, samhæfingu og úthald sem þau yfirfæra yfir á aðra hreyfingu,“ segir Guðbjörg, en samtkvæmt Guðbjörgu er þetta allt í samræmi við rannsóknir sem gerðar hafa verið á ungbarnasundi. Rannsóknir hafa líka sýnt að það sé best að hafa alhliða hreyfiþjálfun hjá börnum ekki að sérhæfa þau of snemma í einni íþrótt.

„Þar sem Selfoss er enn „lítill“ bær þá hef ég náð að fylgjast með mörgum af þeim sem hafa stundað Guggusund í öðrum íþróttum og það er bara þannig að mjög margt af okkar besta íþróttafólki hafa byrjað fyrstu árin í Guggusundi,“ segir Guðbjörg.

Það gleður Guðbjörgu mjög mikið þegar foreldrar koma með börnin sín reglulega í sund og skapa þannig venjur sem börnin halda sjálf í þegar þau eldast, „þannig að mín tilfinning er sú að þessi börn sem eru vön því að hreyfa sig velji því frekar að hreyfa sig þegar þau eldast.“ En það gerist oft að unglingar eða fólk á þrítugsaldri labba upp að henni og segjast muna eftir því þegar þau voru hjá henni í Guggusundi, og minnast þeirra tíma af mikilli gleði og óska þess að þau væri aftur orðin lítil.

„Þar er nefnilega þannig með börn og vatn að þeim líður öllum vel í vatninu. Þannig að samvera foreldris og barns er svo dýrmæt í lauginni.  Barnið fær óskifta athygli og það er ekkert utanaðkomandi sem truflar eins og t.d. símar.  Börnin geta verið þreytt og pirruð heima en þegar þau koma í laugina þá gleymist það.  Sálfræðingar hafa talað um að þessi hluti ungbarnasunds sé geysilega dýrmætur.“

Finnst þetta enn gaman eftir öll þessi ár

„Ég hef kynnst mörgum frábærum fjölskyldum þessi ár og þekki fólk um allt Suðurland sem hefur verið í Guggusundi. Fólk kemur á námskeið allstaðar að, frá ströndinni alveg að Kirkjubæjarklaustri og svo er alltaf eitthvað um fólk sem á tengsl á Selfoss og keyrir frá Reykjavík hingað í sund. En á þessum árum hafa margar fjölskyldur haldið áfram að koma þegar nýtt barn fæðist. Ein fjölskyldan kom með fimm börn og var hjá mér í ca. 25 ár, önnur þar sem eru þrjú lítil börn, 7 mánaða, 1 og hálfs árs og 3 ára eru með þau öll í einu í sundi, þó það sé erfitt að láta það ganga upp með svona mörg ung börn á sama tíma. Svo núna í nokkur ár hafa komið „barnabörn“ þ.e börn þeirra barna sem voru hjá mér í Guggusundi á fyrstu árunum.“

„Eftir öll þessi ár finnst mér enn alltaf jafn gaman að kenna Guggusund. Áherslan er á að öllum börnum líði vel í vatninu og að sjá þau eflast og blómstra með hverju verkefninu sem þau fá í sundinu, en það gefur mér mikið. Mér finnst líka mjög mikilvæg þessi samvera sem fjölskyldan fær í vatninu, þetta eru svo góðar stundir þegar maður hugsar til baka þegar mín börn voru lítil.“

Guðbjörg leggur áherslu á að foreldrar lesi börn sín, sum börn eru varkár og þurfa sinn tíma í aðlögun meðan önnur eru til í hvað sem er án nokkurrar hræðslu. Hún segir að ekki megi þvinga börnin í neitt en örva þau frekar í gegnum leik og þannig þroskast þau á jákvæðan hátt. Ein eftirminnileg sagan frá henni er þegar einn lítill 4 ára drengur féll ofaní Laugarvatn. Faðir drengsins spurði hann hvort hann hefði ekki verið hræddur þegar hann datt ofaní vatnið, drengurinn sagði: „Jú, fyrst var ég hræddur, en svo hugsaði ég að ég væri bara í Guggusundi og þá synti ég í land.“

Mynd: Dagskráin/BRV
Mynd: Dagskráin/BRV

Nýjar fréttir