0.6 C
Selfoss

Straumhvörf að verða í fráveitumálum í Svf. Árborg – fyrri hluti

Vinsælast

Ástand fráveitumála í Svf. Árborg hefur í langa tíð verið óviðunandi. Staðan hér er þó ekkert einsdæmi ef borið er saman við ástand fráveitumála almennt á landinu öllu. Ástandið er best á höfuðborgarsvæðinu en mjög slakt víða á landsbyggðinni.

Að því sögðu að ástand fráveitumála hér sé ekki og hafi ekki verið viðunandi fram til þessa, að þá er ekki þar með sagt að ekki hafi verið unnið að úrbótum í fráveitumálum sveitarfélagsins undanfarin ár eða áratugi. Úrbæturnar hafa bara ekki dugað til svo koma mætti fráveitunni í viðunandi horf og uppfylla reglugerðarkröfur um fráveitur og skólp. Hér á eftir verður rakin sagan og staða fráveitumála á Selfossi í örstuttu máli. Síðar mun birtast grein þar sem framtíðarlausnir í fráveitumálum annarra byggðakjarna sveitarfélagsins og einnig dreifbýlisins verða kynntar.

Fráveitan á Selfossi fyrir aldamót

Fyrstu heimildir sem undirritaður veit um að séu til um að Selfossbær hafi verið farinn að huga að hreinsun fráveitu í Ölfusá eru frá því herrans ári 1978 þegar Selfosshreppur varð að Selfosskaupstað. Þá og árið á eftir voru unnar skýrslur um hreinsun frárennslis í Ölfusá. Á þeim tíma var staða fráveitumála vægast sagt slæm. Einfalt fráveitukerfi í íbúagötum og fjölmargar útrásir voru í og við bakka árinnar. Sumar þeirra voru meira að segja vinsælir veiðistaðir barna- og unglinga s.s. útrásin við Fagurgerði. Það var þó ekki fyrren árið 1995 sem að undirbúningur hófst af alvöru við að útrýma öllum þessum útrásum og sameina í eina.

Í kjölfar þess að reglugerð um fráveitur og skólp nr. 789/1999 tók gildi að þá var farið að huga að framtíðarhugmyndum um lausn fráveitumála í heild sinni á Selfossi af meiri krafti en áður, enda þá komin krafa á að Selfossbær hreinsaði sitt  fráveituvatn. Það ár, hófst vinna við að tvöfalda fráveitukerfið á Selfossi í eldri og nýrri hverfum. Sama ár voru einnig hafnar framkvæmdir við fyrsta áfanga sniðræsisins, í Fosslandi. Lokaáfangi þeirrar miklu framkvæmdar var svo framkvæmd þrettán árum síðar, árið 2012 í Árveginum við Mjólkurbúið og þar með var búið að útrýma öllum gömlu útrásunum á syðri bakka Ölfusár við Selfoss utan einnar sem nýtt er sem neyðarútrás.

Árið 1999 hófust svo framkvæmdir við fyrsta áfanga verksins með lagningu sniðræsis í Fosslandi ásamt því að byrjað var að vinna eftir þeirri áætlun að hreinsistöð yrði staðsett í landi Haga við flugvöllinn með útrás í Ölfusá. 

Eftir aldamót

Árið 2004 hófst vinna við lagningu hins stóra sniðræsisins á Selfossi, Suðurbyggðarræsisins svokallaða. Það sniðræsi tekur við og mun taka við fráveituvatni allra hverfanna sem reist verða sunnan Suðurbyggðar að henni meðtaldri að Votmúlavegi. 

Árið 2006 unnu Línuhönnun og Verkfræðistofu Suðurlands skýrslu fyrir Svf. Árborg, þar sem farið var yfir möguleika í heildarlausn fráveitumála á Selfossi. Þar voru settir fram þrír möguleikar með mismunandi þrepum hreinsunar með útrás í Ölfusá. Árið 2008 hefjast svo tilraunir með hreinsun á skólpi frá Selfossi þar sem notast var við aflfræðilega hreinsun með grófsíu og skiljubúnaði í samvinnu við sænskan framleiðanda búnaðarins. 

Árið 2009 var unnin viðamikil skýrsla af Mannvit verkfræðistofu sem innihélt nokkra möguleika á hreinsun fráveitu og kostnaðarmat tillagna þar sem horft var til þéttbýliskjarnanna þriggja, Selfoss, Stokkseyrar og Eyrarbakka. Settar voru fram þrjár tillögur og lagt fram kostnaðarmat um mismikla hreinsun á Selfossi með útrás í Ölfusá ásamt sameiginlegri eins þreps hreinsistöð fyrir Stokkseyri og Eyrarbakka. Fjórða tillagan gékk út á að dæla öllu skólpi frá Selfossi að Eyrarbakka með eins kílómetra útrás í opið Atlantshafið. Kostnaðarmat tillagnanna fjögurra hljóp á mörgum milljörðum íslenskra króna, eða frá um þremur milljörðum til á sjötta milljarð á núvirði. Ódýrasta tillagan gerði þá eingöngu ráð fyrir eins þreps hreinsistöð fyrir Selfoss. Síðan að sú skýrsla kom fram að þá hafa orðið miklar tækniframfarir í hreinsun skólps og eru lausnirnar mun ódýrari í dag en voru þá.

Frá árinu 2013 hefur undirbúningur staðið yfir að gerð hreinsistöðvar við Geitanes, gerðar hafa verið ýmsar rannsóknir og mælingar m.a. á rennsli árinnar, efnamengun og dreifingu hennar um Ölfusá auk þess sem rennslismælingar hafa verið gerðar í stofnlögn fráveitunnar. Árið 2014 var farið af stað með hönnun grófsíu hreinsistöðvar og síur keyptar. Sú hönnun miðaðist við mun minna rennsli en mælist nú í fráveitu bæjarins, sem hefur tvöfaldast frá árinu 2014 auk þess sem að í ljós kom eftir tíð samskipti við þar til bær yfirvöld að ekki dygði að vera með eins þreps hreinsistöð fyrir fráveitu Selfossbæjar og að fara þyrfti einnig með hreinsistöðina í umhverfismat þar sem að sterkar líkur væru á að fráveitan gæti skilað meira af sér en 50.000 pe. 

Nýja hreinsistöðin

Umhverfismatsferlinu, sem er langt og strangt ferli, lauk loks með samþykki Skipulagstofnunar í lok síðasta árs. Skipulagsstofnun lagði blessun sína yfir matsskýrsluna m.a. með þeim orðum að: „Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð hreinsun fráveitu á Selfossi sé ótvírætt framfaraskref fyrir þéttbýlið“. Í kjölfar þess er kærufresti matsins lauk, setti bæjarráð á stofn starfshóp í vor sem falið var það hlutverk að vinna að kröfulýsingu og forsögn fyrir nýja hreinsistöð við Geitanes. Nú hefur sú skýrsla ásamt fundargerðum starfshópsins litið dagsins ljós og í framhaldinu verður farið af stað með vinnu við fullnaðarhönnun hreinsistöðvar við Geitanes og framkvæmdin boðin út á nýju ári.

Hreinsistöðin mun verða hönnuð og byggð til að geta annað 20.000 íbúa byggð á Selfossi auk þeirrar atvinnustarfsemi sem fylgir, sunnan ár og kosta um 1,2 milljarð króna fullbúin. Stöðin verður með frekari hreinsun en tveggja þrepa, sem þýðir að fyrst er skólpið grófhreinsað í þrepasíum/+beltasíum (fyrsta þrep) og fínsíun með tromlusíum (annað þrep) og að lokum er vatnið geislað með UV-lömpum (hluti af þriðja þrepi). Með slíkri hreinsun mun fast lífrænt efni og önnur mengunarefni auk örplasts og svif-agna verða hreinsað úr fráveituvatninu og styrkur saurkólígerla verða innan umhverfismarka í Ölfusá. Það sem út af stendur og fer í næringarsnauða jökulánna eru frumefnin fosfór og nitur. Með framkvæmdinni mun ljúka þeim kafla í sögu fráveitu Selfoss sem lítur að hreinsun fráveituvatns í Ölfusá og hefur spannað að minnsta kosti í 43 ár.

Höfundur er byggingarverkfræðingur, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Svf. Árborg, varaformaður bæjarráðs og formaður eigna- og veitunefndar.

Tómas Ellert Tómasson

Bæjarfulltrúi, varaformaður bæjarráðs og formaður Eigna- og veitunefndar

Orðskýringar:

Einfalt fráveitukerfi: Skólp og regnvatn saman í einni fráveitulögn

Tvöfalt fráveitukerfi: Skólp og regnvatn aðskilið í tveimur fráveitulögnum

Grófhreinsun: Hreinsun fastra hluta úr fráveituvatni með rist, síu eða öðrum búnaði til að koma í veg fyrir sjónmengun.

Eins þreps hreinsun: Hreinsun skólps með aflfræðilegum og/eða efnafræðilegum aðferðum þar sem svifagnir eru botnfelldar eða önnur hreinsun þar sem BOD5-gildi skólps er lækkað um að minnsta kosti 20% áður en það er losað og heildarmagn svifagna í skólpi er lækkað um að minnsta kosti 50%.

Tveggja þrepa hreinsun: Frekari hreinsun skólps en eins þreps með aðferð sem oftast felur í sér líffræðilega hreinsun sem fylgt er eftir með botnfellingu eða öðru ferli. Rotþró með siturlögn eða sandsíu telst t.d. vera tveggja þrepa hreinsun.

Persónueining (pe.): Magn lífrænna efna, næringarsalta og annarra efna sem samsvarar því sem einn einstaklingur er að jafnaði talinn losa frá sér á sólarhring. Ein pe. af lífrænu efni er það magn lífrænna efna í skólpi sem getur brotnað niður líffræðilega með 60 g súrefnis á dag mælt með 5 sólarhringa lífefnafræðilegri súrefnisnotkun.

Nýjar fréttir