8.4 C
Selfoss

Enn þrengir að

Vinsælast

Nú er gengið í garð þriðja æfinga- og keppnistímabil handboltans og annarra íþrótta undir misjafnlega ströngum skilmálum vegna heimsfaraldurs Covid. Íþróttahreyfingin hefur unnið þrekvirki með að halda sinni starfsemi að mestu leyti gangandi við erfiðar aðstæður og miklar takmarkanir. 

Hjá handknattleiksdeild Selfoss hefur verið lögð mikil vinna í að halda starfinu eins reglulegu og mögulegt er innan ramma takmarkana, sóttkvía og aðgerða sem hafa verið í gangi hjá okkur, ýmist á landsvísu eða staðbundið hér á Selfossi.  Að frátöldum tímabilum sem æfingar og keppnir voru bannaðar eða sérstakar smitbylgjur gengu yfir, hefur tekist að halda úti flestum æfingum en talsvert af leikjum og keppnum hafa verið felldar niður vegna sóttvarnaraðgerða. Iðkendur og foreldrar hafa sýnt þessu skilning en allir eru orðnir langþreyttir á ástandinu. Ástandið hefur komið misjafnlega niður en þjálfarar, starfsfólk og sjálfboðaliðar hafa lagt á sig ótrúlega mikla vinnu til að uppfylla sóttvarnarkröfur.   

Mikið og öflugt starf

Barna- og unglingastarf deildarinnar er í föstum skorðum og gengur vel innan þeirra takmarkana sem við þurfum að búa við. Vegna fjölda iðkenda erum við með 3 meistaraflokka karla í Íslandsmótum og gefum þannig yfir 40 einstaklingum tækifæri til að æfa og keppa á sínu getustigi í stað þess að hátt í helmingur þeirra hefði engin verkefni við hæfi.  Einnig höldum við úti meistaraflokki kvenna sem er vaxandi fyrirmynd iðkenda á svæðinu og nauðsynlegur hluti okkar starfs. 

Afleiðingar af sóttvarnarráðstöfunum eru margskonar. Fyrir handknattleikinn er staðan sú að núna, þriðja árið í röð, kemur ekki nema lítill hluti áhorfenda á leiki og mót, skiljanlega, því bæði eru í gildi strangar takmarkanir og fólk hrætt við að fara í fjölmenni.  Þannig megum við að hámarki taka á móti 33 áhorfendum í Sethöllina en 81 þegar við getum bætt við öðru sóttvarnarhólfi.  Þetta á við um alla leiki, barna, unglinga og meistaraflokka og útheimtir mikla vinnu, undirbúning, skráningar ofl. 

Tapaðar tekjur

Undanfarin ár hefur okkur tekist með mikilli vinnu sjálfboðaliða, miklum stuðningi einstaklinga og fyrirtækja að reka handkattleiksdeildina réttu megin við núllið, sem er nauðsynlegt til að starfið gangi upp.  Covid faraldurinn hefur hinsvegar haft þau áhrif að deildin situr uppi með verulegt tap sem ekki hefur verið bætt.  Ríkisvaldið kom inn á síðasta ári og fram eftir þessu með góðan stuðning við íþróttafélög.  Hann náði þó ekki nema til lítils hluta þess tjóns sem handknattleiksdeildin varð fyrir, sérstaklega af því að lokanir hittu á okkar helstu tekjuöflunartímabil tvö ár í röð. Fyrirheit um frekari stuðning hafa ekki skilað sér. Mikill stuðningur heimamanna hefur skilað okkur verulegum tekjum á síðari hluta keppnistímabila með góðri mætingu á heimaleiki, góðri þátttöku og stuðningi við margvíslegar fjáraflanir okkar á vormánuðum.  Síðustu tvö ár kom Covid í veg fyrir að þær skiluðu sér.

Tjón okkar liggur í fækkun áhorfenda á leiki, töpuðum fjáröflunum eins og happdrætti, stuðningsmannasamkomum, sölustarfsemi og lokahátíðum, auk þess sem nokkrir styrktaraðilar hafa neyðst til að minnka sinn stuðning vegna samdráttar.  Stærsta gistimót ársins með yfir 800 þátttakendum sem vanalega fer fram í apríl hefur verið ein af okkar stærstu einstöku fjáröflunum með góðum stuðningi fyrirtækja og einstaklinga. Þau mót hafa nú fallið niður í tvö ár með tilheyrandi tekjutapi.

Beint tekjutap deildarinnar vegna Covid þessi tvö ár er orðið mjög mikið og nú er svo komið að við þurfum aukinn stuðning til að komast í gegnum árið.  

Öflugir stuðningsmenn

Mesti styrkur deildarinnar og íþróttastarfsins hér á Selfossi og Suðurlandi öllu hefur verið samstaða og stuðningur heimamanna og fyrirtækja og öflugir stuðningsmenn.  Það sáum við best þegar karlaliðinu tókst að landa Íslandsmeistaratitlinum 2019 með frábærum stuðningi allra Sunnlendinga, sem við þökkum af heilum hug.  Nú þurfum við á ykkar stuðningi að halda til að halda áfram uppi öflugu starfi.   Í nóvember opnaðist sú leið að stuðningsmenn sem styrkja deildina um yfir 10 þús. kr. á ári fá að draga þá fjárhæð frá skattskyldum tekjum á skattaskýrslu og mun það gerast sjálfkrafa. Þá fá dyggir stuðningsmenn viðbótarávinning við stuðning sinn og við fögnum því mjög.  Við munum á næstunni finna leið til að nýta þessa nýju heimild. 

Við leitum til stuðningsmanna, almennings og fyrirtækja um að standa með okkur í gegnum þessa erfiðleika og vonumst eftir góðum viðbrögðum.

Þórir Haraldsson,
formaður handknattleiksdeildar Umf. Selfoss.

Nýjar fréttir