-0.6 C
Selfoss

Krabbameinsfélag Árnessýslu þakka fyrir sig

Vinsælast

Eftir annasaman en fyrst og fremst einstakan Bleikan október, vill Krabbameinsfélag Árnessýslu senda innilegar þakkir til allra sem hafa á einn eða annan hátt, sýnt félaginu stuðning og samhug í orði og verki.

Ég held að mér sé óhætt að segja að nýliðinn Bleikur október hafi verið sá stærsti í sögu félagsins. Viðburðir, þátttaka samfélagsins í heild, fyrirtækja, verslana, stofnana og einstaklinga víðs vegar um svæðið okkar, hefur aldrei verið eins sterk og sýnileg og nú.

Bleiku slaufu límmiðar

Í byrjun september mánaðar varð sú hugmynd til að láta prenta gluggalímmiða í formi Bleiku slaufunnar, í þremur stærðum og selja í fjáröflunarskyni fyrir starfsemi félagsins. Hugmyndin var að styðja við og einfalda sem flestum að taka þátt í bleikum október og skreyta sitt svæði með bleiku slaufunni. Þessi hugmynd sannaði sig margfalt og það var einstakt að keyra um sýsluna okkar og sjá hvert fyrirtækið á fætur öðru, stofnanir og fjölda bíla skreytta með Bleiku slaufu límmiðanum.

Allir lögðu sitt af mörkum

Hárgreiðslustofan Lobbýið á Selfossi var með góðgerðardag laugardaginn 16.október og ríkti einstök gleði og samheldni í starfsmannahópnum sem gaf vinnu sína og innkomu dagsins óskipt til starfsemi félagsins. Það var einstakt að finna áhugann hjá bæði starfsfólkinu og viðskiptavinunum þennan dag til að láta gott af sér leiða og allir fundu leið til þess þennan dag.
Gallerí ListaSel lagði félaginu lið og sá um að halda utan um uppboð á málverki eftir listamanninn Tolla sem hann gaf félaginu. Sjafnarblóm styrkti félagið um ágóða af sölu af bleikum vörum sem seldust á bleika daginn þann 15.október.

Bæði Selfosskirkja og Þorlákskirkja voru með bleika messu þar sem félagið tók þátt og deildi upplýsingum og reynslu.

Bleiki dagurinn var haldinn hátíðlegur á allmörgum vinnustöðum og var gaman að fylgjast með gleðinni sem blandaðist inn í samhyggðina sem ávallt á sér stað þegar málefni krabbameinsgreindra eru annars vegar.

Gríðarlega margir lögðu félaginu lið á einn eða annan hátt og erum við einstaklega þakklát fyrir ykkur öll og ykkar stuðning.

Bleika Boðið

Var haldið föstudaginn 29.október og var það í þriðja sinn sem félagið heldur slíkt boð. Óhætt er að segja að Beika boðið sé búið að stimpla sig inn sem fastan viðburð á vegum félagsins og verður viðburðurinn stærri og glæislegri með hverju árinu. Hótel Selfoss hefur í síðustu tvö skipti gert félaginu kleift að halda boðið hjá sér og hefur veitt ríkulegan styrk til félagsins með því að leggja til húsnæði, starfsfólk og veitingar af bestu gerð, í samvinnu við sína heildsala. Tónlistarfólk og skemmtikraftar sem að boðinu koma leggja einnig til vinnu sína og tíma félaginu að kostnaðarlausu. Bleika boðið er í grunninn fjáröflunarviðburður sem gengur út á að selja happdrættismiða. Vinningarnir í happdrættinu koma frá öllum helstu veitingastöðum, hár-og snyrtistofum, listafólki, verslunum og fyrirtækjum á okkar svæði en einnig eru fjölmargir utan Árnessýslu sem leggja til vinninga. Í ár var sérstaklega áberandi hvað listafólk tók vel í að gefa vinninga og var efnt til uppboðs á nokkrum vinningum í Bleika boðinu.

Fjármagnið

Starfsemi Krabbameinsfélag Árnessýslu hefur tekið stakkskiptum síðasta árið og er nú orðið sýnlegra og öflugra en nokkru sinni fyrr. Félagið vinnur að því markmiði að færa þjónustuna í heimabyggð og hefur til þess verið að efla úrræði og aðgengi að félaginu með ýmsum hætti. Starfsemin er eingöngu fjármögnuð af félagssgjöldum, styrkjum og gjöfum frá fyrirtækjum, stofnunum, verslunum, einstaklingum og ýmsum félagasamtökum. Félagið hefur notið einstakrar góðvildar og fengið góðar móttökur hvar sem er í samfélaginu. Allt fjármagn sem safnast er notað til aðkeyptrar þjónustu, rekstur félagsaðstöðu, styrkja til félaga og uppbyggingu á úrræðum sem þörf er á í okkar samfélagi.

Við erum til staðar fyrir þig

Sífellt fleiri einstaklingar sem greinast með krabbamein, eru að sigrast á sjúkdómnum eða ná að lifa með honum í mörg ár. Samhliða læknisfræðilegri þjónustu eru krabbameinsgreindir og fjölskyldur þeirra í þörf fyrir sálrænan og félagslegan stuðning í jafningjahópi. Krabbameinsfélag Árnessýslu vill minna á að öll starfsemi félagsins er félögum að kostnaðarlausu og stendur öllum jafnt til boða. Verið er að veita einstaklings og hópaþjónustu auk reglulegra viðburða sem höfða geta til allra aldurshópa. Hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur á facebook.

Innilegar þakkir

Fyrir hönd Krabbameinsfélag Árnessýslu vil ég senda öllum sem hlut eiga að starfsemi félagsins á einn eða annan hátt, innilegar þakkir fyrir ykkar tíma, vinnu, fjármagn og stuðning. Félagið væri ekki til nema með þátttöku ykkar! Við hlökkum til áframhaldandi samvinnu og minnum á fasta opnunartíma í félagssaðstöðu okkar að Eyravegi 31 á Selfossi, mánudaga-miðvikudaga-föstudaga frá 11:00 til 15:00. Félagið er með síma 482 1022.

f.h. Krabbameinsfélag Árnessýslu

Svanhildur Ólafsdóttir formaður

Random Image

Nýjar fréttir