7.3 C
Selfoss

Dr. Ásgeir Jónsson með ávarp á degi Jóns Arasonar

Vinsælast

Menningardagskrá verður helguð herra Jóni Arasyni í Skálholti 7. nóvember og mun dr. Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, flytja þar ávarp. Ásgeir sendi nýverið frá sér merka bók Upprseisn Jóns Arasonarog hefur hann varpað nýju ljósi á samhengið í þessari átakasögu Íslands. Skálholtskórinn syngur og organisti er Jón Bjarnason. Sr. Kristján Björnsson leiðir stundina og les úr ljóðmælum herra Jóns Arasonar, sem lét lífið fyrir trú sína og ættjörð í Skálholti 7. nóvember 1550 einsog segir á steini hans. Eftir dagskrá í kirkjunni, sem hefst í dómkirkjunni kl. 16, verður gengið eftir nýrri Þorláksleið að minnisvarðanum um Jón Arason með blys til að leggja kertaljós að fótstallinum. Eftir stundina verður boðið uppá heitt súkkulaði á veitingastaðnum Hvönn í Skálholtsskóla sem er reyndar opinn allan daginn. Rafbílaeigendum er velkomið að tengja sig við hleðslustöðvar á bílastæði Skálholts á meðan athöfn stendur. Fólk er beðið að klæðast eftir veðri og það er velkomið að taka með sér útikerti til að tendra við steininn.

Fyrr um daginn messar vígslubiskup í Skálholtsdómkirkju kl. 11 og er það Allra heilagra messa. Þar verður þeirra minnst sem látist hafa frá síðustu Allra heilagra messu og er velkomið að koma með nöfn sem lesin verða við altarið í bæn messunnar. Einnig má senda nöfn látinna ástvina í pósti á biskup@skalholt.is til að lesa í kirkjunni hvort sem þau hvíla nær eða fjær.

Messan hefst kl. 11 sunnudaginn 7. nóvember og dagskráin hefst kl. 16 í kirkjunni sama dag. Til fróðleiks má geta þess að Kaþólska kirkjan á Íslandi messar í Skálholtsdómkirkju laugardaginn 6. nóvember kl. 11.30 að þessu sama tilefni og fer einnig með ljós að minnisvarðanum. Verða þar ljós við ljós tveggja kirkjudeilda en öll dagskráin á sunnudag er opin öllu fólki hvar sem það er í trúardeild enda er verið að minnast við atburði í menningu þjóðar.

Nýjar fréttir