9.5 C
Selfoss

Sviðsetning á slysi á forvarnardegi

Vinsælast

Miðvikudaginn 6. október var haldinn Forvarnadagur fyrir nemendur og starfsfólk Menntaskólans að Laugarvatni. Sérstök áhersla var lögð á forvarnir í þágu umferðaröryggis en nemendur skólans eru 150 talsins á aldrinum 15 – 18 ára. Þeir eru því margir komnir með ökuréttindi eða eru í undirbúningi fyrir það. Umræðan einskorðaðist ekki við akstur bíla heldur var einnig komið inn á ýmis atriði er varða öryggi við t.d. akstur rafhlaupahjóla, reiðhjóla og meira að segja reiðmennsku.

Erindi voru flutt í sal skólans og spunnust áhugaverðar umræður milli fyrirlesara og nemenda sem gefinn var kostur á að spyrja spurninga. Þarna skapaðist mikilvæg nánd við nemendur milli lögreglu, fólks sem annast hefur rannsóknir á umferðarslysum og sérfræðinga Samgöngustofu sem fluttu erindi um þá hættu sem stafar af notkun snjalltækja meðan á akstri stendur. Það erindi leiðrétti þann misskilning margra að engin alvarleg slys hljótist af notkun slíkra tækja við akstur.

Að loknum erindum var farið með nemendur út fyrir skólann þar sem við þeim blasti bílflak sem í voru sex slasaðir einstaklingar. Innan skamms komu lögregla, sjúkraflutningamenn og slökkvilið í forgangsakstri á vettang og tóku til við að bjarga slösuðum. Klippa þurfti bílinn til að komast að einum farþeganna. Aftast í bílnum var sjötti einstaklingurinn í bíl sem gerður er fyrir aðeins fimm. Sá hafði kastast til enda ekkert sæti né öryggisbelti fyrir hann og reyndist hann látinn. Ítrekað skal að þetta var allt sviðsett og sýndu viðbragðsaðilar mikla fagmennsku svo ekki sé talað um leikarana sem léku þá sem voru slasaðir.

Nemendur og starfsfólk fór að loknum þessum degi margs vísari um hve miklar og alvarlegar afleiðingar geta orðið af notkun snjalltækja, áfengis- og vímuefnaneyslu, hraðaksturs, þreytu við akstur og margs annars.

Nýjar fréttir