4.5 C
Selfoss

Mér þykir vænt um eldhúshornið heima

Vinsælast

Það er lukka lífsins að fá tækifæri til að alast upp við breitt kynslóðabil við eldhúsbekkinn heima. Þar sem veðurfréttir eru sagðar úr garnalestri haustsins, eða réttarballinu. Þannig hefur Fanney Hrund Hilmarsdóttir sterka tengingu við sögurnar, lífið og tilveruna sem mótaði hana sem einstakling í bernsku. Fanney gefur nú út sína fyrstu bók, Fríríkið, sem bindur saman á nokkuð áhugaverðan hátt sögurnar úr eldhúskróknum og réttarheimspekilegar hugmyndir um það sem kallast fávísisfeldurinn. Litla stúlkan sem óx úr grasi í sveitinni, fór í lögfræði, því draumurinn um ritstörf var of fjarlægur, hefur snúið aftur í sveitina og gerst sjálfsþurftarbóndi. Lögfræðingurinn fann loks fjölina sína í að segja sögur í eldhúskrókum landsins. Hver vegur að heiman er vegurinn heim sagði einhversstaðar. Við fáum að skyggnast inn í bráðskemmtilega, gefandi bók sem skiptir máli í samtali nútímans.

Hefur þú alltaf verið fyrir það að segja sögur?

Ég var samviskusamur krakki með fullkomnunaráráttu sem vildi vera til fyrirmyndar. Óheppilega var ég líka mjög uppátækjasöm, forvitin og óþæg. Þetta var náttúrulega fáránleg hönnun á einstaklingi – svo ég fann mig snemma knúna til að skálda upp hliðarsjálfið Kolbrúnu í Skógsneslandi. Það var mjög frelsandi. Ég var til fyrirmyndar á meðan Kolbrún nýtti hvert tækifæri til að brjótast inn í bæ, stela buxunum mínum og renna sér niður hlöðuþakið svo þær rifnuðu. Ósvífni Kolbrúnar náði ákveðnum hápunkti þegar hún át batteríin úr vasareikni mömmu. Og braust svo inn í bæ aftur – tveimur dögum síðar – og skeit þeim í koppinn minn. Ætli ég hafi ekki gert mér grein fyrir að ég þyrfti nauðsynlega að læra lögfræði þar sem ég stóð yfir koppinum og færði rök fyrir sakleysi mínu.

Hvað er fávísisfeldurinn?

Fávísisfeldurinn er þeim töfrum gæddur að undir honum missir einstaklingurinn sjálfsvitundina. Hann hefur enga vitneskju um kyn sitt, aldur, stétt, stöðu eða nokkuð annað sem snýr að honum persónulega. Hann hefur aðeins þekkingu á virkni, þörfum og grunnuppbyggingu samfélagsins og sú þekking gerir honum kleift að leysa verkefnið; að semja grunnlög samfélagsins. Þeim sem liggja undir fávísisfeldinum er ekki aðeins ómögulegt að taka sjálfsmiðaða ákvörðun heldur eru þeir jafnframt neyddir til að ígrunda stöðu allra hugsanlegra samfélagsþegna. Því enginn veit hver þessara samfélagsþegna þeir eru raunverulega sjálfir – þegar komið er undan feldinum. 

Fávísisfeldurinn er uppfinning réttarheimspekingsins John Rawls. Hann hlaut nokkra gagnrýni fyrir að vera bara töfrafyrirbæri sem aldrei yrði nýttur við raunverulega lagagerð. Ég kynntist fávísisfeldinum á fjórða ári í lögfræði og trúði því einlæglega að hugmyndin fæli í sér einna réttlátasta grunn að reglum samfélagsins. Mig langaði að leita leiðar framhjá þessum ómöguleika, þ.e. finna honum einhvern farveg að samfélaginu. Ég taldi þá leið greiðari að ómótaðri hugum yngri kynslóða en grunaði að verkfærið væri ekki fyrirlestur um réttarheimspeki og lagakenningar. Og þannig spratt upp heill ævintýraheimur af fræi John Rawls um fávísisfeldinn.

Hvers vegna telur þú að þetta eigi erindi við börn?

Ég held að við stöndum á ákveðnum krossgötum sem alþjóðasamfélag og að á þeim krossgötum sé mikilvægt að þeir sem taki við taumunum hafi öflugan siðferðiskompás. Yngri kynslóðum nægir ekki að hugsa bara um eigin hag. Fjölskyldan hefur stækkað og nær orðið yfir heiminn allan. Yngri kynslóðir verða held ég að ná að setja sig í spor miklu fleiri og fjölbreyttari lífvera í heimi sem tekst á við loftslagsbreytingar og risavaxin hegðunarmótunarveldi sem hafa það eina markmið að hagnast á samskiptum okkar; samfélagsmiðla. 

Til þess þarf dýpri getu til að setja sig í spor annarra. Það þarf að hverfa undir fávísisfeldinn, tapa sjálfinu og sjálfhverfunni sem því fylgir. Ef ég get sáð einu litlu fræi í huga eins lítils mannapa – sem af sprettur eitthvað gott – þá er tilganginum náð.

Hver er tengingin úr sveitasamfélaginu inn í réttarheimspekilegar umræður?

Þegar upp er staðið snýst þetta um hvaða leikreglum við viljum fylgja sem samfélag. Þær þurfa að byggja á okkar sameiginlegu siðferðisvitund og hana þroskum við ekki hvert í sínu horni – heldur saman í einu. Í mínu uppeldi var setið í eldhúshorni, síðar sat ég í ýmsum hornum háskólans og svo á götuhornum víðs vegar um heiminn. Alls staðar þar sem forvitið og hugsandi fólk kemur saman bera réttarheimspekileg viðfangsefni á góma.

Mér þykir vænt um eldhúshornið heima þar sem kynslóðirnar komu saman. Tíu ára átti ég vini á áttræðisaldri og af þeim lærði ég margt. Það er fátt sem jafnast á við gott samtal á milli kynslóða og enn færra sem jafnast á við þá samstöðu sem ríkti í þessari litlu sveit. Þar mátti sjá fjölskylduformið stækka og teygja sig yfir heilt samfélag. Og það er tónninn í þessari fyrstu bók af fjórum – Fríríkinu. Ég mun svo víkka það enn frekar þegar líður á seríuna og enda á að fara hringinn til baka – enda á sjálfinu.

Hvernig líður þér með að sjá bókina loks tilbúna?

Útgefandi minn, Bókabeitan, og Blær Guðmundsdóttir, hönnuður, bjuggu bókinni svo falleg klæði að ég er bara svolítið upp með mér. Annars líður mér ekki beint eins og ég hafi samið þessa sögu. Persónur hennar hafa öðlast líf og mér líður miklu frekar eins og ég hafi fengið að miðla sögu þeirra. Þær dvelja hérna hjá mér og finna sér ýmislegt til dundurs – þess á milli sem þær reyna að koma böndum yfir skepnuna hana Kolbrúnu í Skógsneslandi sem aldrei er langt undan.

Þetta er fyrsti hluti af fjórum bókum. Ertu komin af stað með næstu?

Ég eyddi löngum tíma í að kortleggja ævintýraheiminn, lönd, þjóðir, siði, menningu, umhverfi, sögu, tungumál, töfrakerfi, átök, samfélagsleg vandamál o.s.frv. Ég þorði ekki að vaða af stað með pennann fyrr en ég hafði rakið mig í gegnum söguna frá A til Ö, skipulagt bækurnar allt frá fyrsta kafla til þess síðasta. Sagan hefur öll verið sögð innra með mér og nú tekur við nokkurra ára vinna við að miðla henni.

Í kjölfar þessarar undirbúningsvinnu skrifaði ég handrit sem síðar var ákveðið að yrðu tvær bækur. Þar með varð Fríríkið eins konar forleikur að þessum ævintýraheimi. Handritið að næstu bók, sem þá mun flokkast til hefðbundnari fantasíu, er til en framundan er vinna við breytingar og endurskrif m.t.t. þeirra breytingar sem Fríríkið tók í ferlinu. 

Á hverju eiga lesendur von þegar þeir lesa bókina?

Galsa og gauragangi – samkennd og samstöðu. Í Fríríkinu hennar Öllömmu er allt óvenjulegt venjulegt og leiðinlegt skemmtilegt. Sagan er marglaga og vonir mínar standa til að þeir sem lesi yfirborðið hafi gaman af á meðan aðrir skræli hana lag fyrir lag og finni þar eitthvað sem er þess virði að staldra við. Að þannig verði Fríríkið bók fyrir börn á öllum aldri.

-gpp

Nýjar fréttir