7.1 C
Selfoss

Byggjum upp alvöru sambönd

Vinsælast

„Uggandi yfir ofbeldi ungmenna“, „Ungir krakkar sem eru að beita alvarlegu ofbeldi“

Þetta eru fyrirsagnir sem ég las í fjölmiðlum í síðustu viku. Ég verð að viðurkenna að ég varð miður mín. Ég hef haft áhyggjur af því hvað er að gerast í þjóðfélaginu okkar um nokkur skeið. Það er verið að „mata“ kynslóðina okkar af sjónvarpsefni og upplýsingum í gegnum samfélagsmiðla sem okkur hefur ekki órað fyrir. Sumt er frábært og annað er því miður mjög slæmt. Það sem einkennir suma þætti sem unglingar horfa á er að það er annaðhvort lítið um fullorðið fólk í þáttunum og ef þau birtast eru þau oftast leiðinleg, skrítin eða ofbeldisfull. 

Því miður vita sumir foreldrar ekki hvað börnin sín eru að gera á daginn eða kvöldin. Þau vita jafnvel ekki hvað þau eru að gera á bak við luktar dyr eða í sófanum við hlið þeirra þegar þau eru í símanum. Það er ekki auðvelt að vera inni í nýjust tækni, nýjustu öppunum eða þeirri samfélagsmiðlahegðun sem er „inn“ hverju sinni. 

Í texta einum eftir Bubba Morthens segir: 

Móðir, hvar er
barnið þitt,
svona seint um
kvöld.
móðir, hvar er
yndið þitt
þokan er svo
köld 

Það er gott fyrir okkur sem foreldra að hafa þennan texta í huga. Þetta tengist ekki bara því hvort barnið okkar sé heima eða ekki. Því þó svo barnið sé heima þá getur það svo sannarlega verið að fá upplýsingar sem eru ekki við hæfi. Það getur líka verið í samtölum sem eru niðurbrjótandi og hafa vond áhrif á það. Það er oft flókið að skilja eða átta sig á að allskonar áskoranir sem ganga t.d. á  Tik Tok geta haft áhrif á börnin okkar og gert það að verkum að þau ákveða að taka þátt. Getur verið að ofbeldi ungmenna hafi aukist t.d. vegna þessa? Að þau  hafi fengið ofbeldis áskoranir á Tik Tok? Samfélagþrýstingurinn er mikill og getur haft skemmandi áhrif.

Sálfræðingurinn og rithöfundurinn Gordon Neufeld segir að það sem er stærsta vandamálið sem við sem uppalendur eða kennarar stöndum frammi fyrir sé ekki það að það vanti menntað fólk eða þekkingu til að vinna með börnum. Það sem skortir er alvöru tenging. Alvöru sambönd. Börn læra af þeim sem þau tengjast og þeim sem þau mynda sambönd við. Þess vegna er svo mikilvægt að við sem komum að börnum hvort sem það er sem foreldri, ömmur og afar, kennarar, þjálfarar, ráðgjafar og svo mætti lengi telja að við lítum á börnin sem einstaklinga sem við getum myndað tengsl við. 

Hvenær gengur kennsla best? Þegar það er tenging. Hvenær gengur ráðgjöf best? Þegar það er tenging. 

Bæði börnin okkar og við sjálf lærum best þegar við teng-
jumst fólkinu sem er að kenna okkar. Við tökum upp talsmáta þeirra sem við tengjumst, erum tilbúin að leyfa þeim sem við tengjumst að hafa áhrif á líf okkar og tökum upp gildi þeirra sem við tengjumst. Þess vegna skiptir máli hverjum börnin okkar tengjast. 

Ég hvet okkur öll til að vera foreldrar sem fylgjumst með því sem er að gerast á bak við tjöldin í lífi barnanna okkar. Verum vakandi. Tengjumst fólkinu okkar í raunheimum og byggjum upp sambönd sem eru alvöru. 

Kærleikskveðja,
Gunna Stella 

Nýjar fréttir