2.3 C
Selfoss

Öflugt vetrarstarf hjá  Kvenfélagi Selfoss er að hefjast

Vinsælast

Þegar fyrstu haustlægðirnar ganga yfir hefst undirbúningur að vetrarstarfi Kvenfélags Selfoss. Þegar er hafin vinna við útgáfu á Dagbókinni Jóru, sem nú kemur út í 30 sinn. Eins og ævinlega leitum við til fyrirtækja og stofnana varðandi auglýsingar og styrktarlínur. Ágóða af útgáfunni er varið til styrktar menningar eða líknarmála í nærumhverfinu. Undanfarin ár höfum við styrkt Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Krabbameinsfélag  Árnessýslu, Klúbbinn Strók og Þjónustuúrræði fyrir börn í Árborg svo eitthvað sé nefnt. Dagbókin Jóra er ekki aðeins dagbók  með auglýsingum, hún inniheldur margvíslegan fróðleik svo sem mataruppskriftir, ljóð eftir Sunnlendinga, létt grín og fleira skemmtilegt.

Nú í september fara af stað spjall og handavinnukvöld, sem haldin eru í húsnæði félagsins, Selinu við Engjaveg,  annað hvert þriðjudagskvöld kl. 20.00. Hið fyrsta á þessu hausti var 7. september, en þá var brugðið út af vananum og Guðrún Bjarnadóttir í Hespuhúsinu sótt heim, en hún jurtalitar ull í öllum regnbogans litum, og segir svo skemmtilega frá.

Allir eru velkomnir á þessi handavinukvöld bæði félagskonur og gestir.

Félagsfundir eru annan þriðjudag í mánuði kl.20.00, sá fyrsti verður 12. október í Selinu en þar eru fundir að jafnaði haldnir, þó fundum við stöku sinnum annars staðar, og þá er það auglýst sérstaklega.

Fyrir utan hefðbundið starf gerum við okkur dagamun endrum og sinnum, margar öflugar nefndir starfa innan  vébanda félagsins, og þær sjá um að næra okkur félagskonur bæði andlega og líkamlega með ýmsum menningaruppákomum.  Í félaginu starfa skemmtilegar  konur á öllum aldri, og við erum ekki alltaf að baka, þó það sé vissulega ein leið til að afla fjár.

Í bígerð er að halda viðburð í október í menningarmánuði Árborgar, meira um það síðar.

Nýir félagar hjartanlega velkomnir í  gefandi og skemmtilegt starf  í Kvenfélag Selfoss.

 

Nýjar fréttir