8.9 C
Selfoss

Af samgöngumálum í Bláskógabyggð

Vinsælast

Mikill hátíðardagur var í Bláskógabyggð í síðustu viku þegar Reykjavegurinn var vígður við hátíðlega athöfn. Um mikla samgöngubót er að ræða sem tengir sveitarfélagið og uppsveitirnar betur saman en vegurinn liggur á milli Laugarvatnsvegar og Biskupstungnabrautar. Endurbætur á veginum hafa í nokkra áratugi verið mikið baráttumál heimamanna og því er það sérstaklega ánægjulegt að þessum áfanga skuli loksins vera náð. Fyrir þessa samgöngubót ber að þakka.

Mikil og þung umferð er alla daga ársins um alla vegi í Bláskógabyggð. Mikil uppbygging er víðsvegar í sveitarfélaginu, sérstaklega í ferðaþjónustunni, ferðamönnum mun fjölga í náinni framtíð með auknu álagi á samgöngukerfið. Stóru ferðamannastaðirnir Þingvellir, Geysir og Gullfoss munu um ókomna framtíð laða til sín ferðamenn. Við þurfum að halda áfram að byggja upp og bæta samgöngukerfið. Við megum alls ekki slaka á, haldur verður að halda áfram að sinna viðhaldi og fara í nýframkvæmdir.

Mörg stór og brýn samgönguverkefni eru framundan í Bláskógabyggð og má þar m.a nefna færslu Biskupstungnabrautar suður fyrir Geysi, veginn um Eystri-Tunguna (Einholtsvegur) þarf að byggja upp og leggja á bundið slitlag og uppbygging Kjalvegar þarf að halda áfram. Öll þessi samgönguverkefni þarf að ráðast í sem fyrst. Færsla Biskupstugnabrautar suður fyrir Geysi og uppbygging Kjalvegar þarf að fara í umhverfismat, mikilvægt er að hefja það ferli sem allra fyrst því sú vinna er tímafrek.

 

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar.

 

Nýjar fréttir