6.1 C
Selfoss

Gunnar segir möguleg tengsl steinskips við Njálu

Vinsælast

Bátlaga steinn eða steinskip sem finna má í svokölluðu Dalahrauni hefur vakið athygli ferðafólks, og annarra, í sumar. Margar tilgátur eru um steinskipið en í grein Morgunblaðsins um málið lét Þórður í Skógum hafa eftir sér að fundurinn sé merkasti fornleifafundur hér á landi það sem af er 21. öldinni. Þarna sé komið svokallað Naglfar sem á ættir sínar að rekja í ásatrú fyrri alda. Fleiri hafa sínar tilgátur um málið, allt frá því að vera viti sem knúinn var af lýsi, landamerkjasteinn eða sem brynningarílát fyrir fé. Sú tilgáta er reyndar talin falla um sjálfa sig þar sem lækur rennur í nágrenninu. Við höfðum samband við Gunnar frá Heiðarbrún, sem velt hefur málefnum svæðisins fyrir sér í langan tíma og fengum hans álit í málinu, í samtali við Gunnar kom upp sá möguleiki að steinskipið tengdist Njálu.

Aldursgreining mikilvæg, en kannski ómöguleg

Aðspurður um hvað þarna hefði komið upp úr jörðinni segir Gunnar hæpið að fullyrða nokkuð um það. „Það er hæpið að fullyrða eitthvað um það fyrr en búið er að aldursgreina stein­þróna, ef það er þá hægt. Nú þurfa fornleifafræðingar að rannsaka svæðið í þeirri von að þarna finnist eitthvað sem tengist þessu. Öskulög í jarðlögum eru þekkt hvað aldur snertir og ef þau finnast hjá steinskipinu, þá gæti það gefið sterka vísbendingu um aldurinn.“ Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands segir að til standi að gera frekari rannsóknir, en efast um að hægt verði að tímasetja aðgerðina. Þá segir Gunnar að það þurfi að kanna betur hvort þarna finnist hleðslur eða aðrar tóftir sem tjalda hafi mátt yfir sem gefa vísbendingar um hvort þarna hafi verið einhverskonar híbýli.

Stórmerkur fundur sé steinninn frá landnáms- eða söguöld

Aðspurður um hvað Gunnari þyki áhugaverðast við fundinn segir Gunnar: „Sé það niðurstaða vísinda­manna, að steinn­inn sé það forn að hann geti verið frá landnáms- eða söguöld, þá er hér um stórmerkan fund að ræða. Mér er sagt að steinþróin sé úr blágrýti og miðað við þau verkfæri sem þá voru til, þá hefur mikill hugmóður legið að baki þeim verknaði að höggva bollann í steininn og það gjört í ákveðnum tilgangi.“

Galdra-Héðinn mögulega notað kerið

Gunnar er þekktur fyrir áhuga sinn og þekkingu á Njálu. Hann hefur gert tilraun til þess að komast að því með nokkuð áhugaverðum hætti hver sé höfundur Njálu í bók sinni Höfundur Njálu. Við getum því ekki sleppt því að spyrja Gunnar hvort ílátið hafi einhverja tengingu inn í Njálu. „Sé steinskipið frá fyrrnefndum tíma, þá hefur staðsetning þess talsverða tengingu við Njálu. Þegar verið var að troða inn á okkur þeirri arabatrú sem kölluð er kristni, laust fyrir árið 1000, þá leituðu menn hins forna átrúnaðar („Ásatrúarmenn“) til Galdra-Héðins bónda í Kerlingardal. „Hann fór upp á Arnarstakksheiði og efldi þar blót mikið,“ segir í Njálu. Varla fer karlinn að fremja heiðna stórathöfn, á öðrum stað en þeim þar sem hann mátti nota „hlautkerald,“ þ.e. ílát sem tekið gat við blóði fórnardýrs eða dýra, hvort sem það voru hestar, svín eða uxar. Fagradalsheiði, þar sem steinþróin er, og Arnarstakksheiði liggja saman og því kynni það að vera óljóst í huga Njáluhöfundar, á hvorri heiðinni efnt var til blótsins, segir Gunnar. Vangaveltur halda vafalítið eitthvað áfram, en von er til þess að við færumst nær sannleikanum þegar sérfræðingar hafa lagt sitt mat á fundinn og gert honum nokkur skil með vísindalegum hætti.

Nýjar fréttir