2.8 C
Selfoss

Breytingar á dreifingu Dagskrárinnar

Vinsælast

Um næstu mánaðarmót verða breytingar á dreifingu Dagskrárinnar. Þá verður blaðinu ekki lengur dreift inn á sunnlensk heimili. Blaðinu verður áfram dreift í verslanir og bensínstöðvar, þar sem það mun liggja frammi ásamt í blaðakassa í þéttbýliskjörnum þar sem það á við. Þá kemur blaðið eftir sem áður út í vefútgáfu vikulega sem áfram má nálgast fréttavefnum dfs.is. Dreifingarsvæðið er óbreytt og blaðið mun liggja frammi frá Þorlákshöfn austur á Kirkjubæjarklaustur ásamt í Uppsveitum.

Þessi ákvörðun mótast af því að Pósturinn hefur sett blaðinu þröngar skorður varðandi dreifingarmál, en meðal annarra þátta margfaldaðist gjaldskráin í verði milli ára, ásamt því að dreifing er ekki lengur í boði fyrir þéttbýlissvæði eins og Selfoss.

Enginn bilbugur á útgáfunni þrátt fyrir mótbárur

„Það er klárt að þessar breytingar hjá Póstsinum munu bitna á íbúum á Suðurlandi, og víðar um land, en aðrir héraðsfréttamiðlar eru í sömu sporum. Við munum þó eftir sem áður gefa blaðið út í prent- og vefútgáfu, koma því á alla helstu staði sem fólk sækir með hjálp ýmissa aðila. Þetta er engin nýlunda en blaðinu var áður dreift með þessum hætti svo að við þekkjum það vel. Hvað lesturinn varðar höfum við engar áhyggjur því fólk sækir bæði blaðið og vefinn eftir sem áður. Við finnum að eftir að Pósturinn hætti að dreifa á Selfossi jókst lestur vefútgáfunnar og blöðin hverfa úr blaðakössum og verslunum, en við bættum talsvert í fjölda eintaka þar. Þeir sem vilja hafa svo ávallt átt þess kost að fá blaðið sent heim gegn því að greiða sendingarkostnað Póstsins,“ segir Gunnar Páll Pálsson, ritstjóri Dagskrárinnar.

Mikilvægt að halda í héraðsmiðlana

„Við finnum það að blaðið og vefurinn skiptir gífurlega miklu máli fyrir Sunnlendinga og þökkum fyrir þann mikla lestur sem við njótum. Á síðum blaðsins fara fram skoðanaskipti um málefni líðandi stundar. Frá ýmsu er sagt sem annars yrði hvergi birt. Fréttir úr nærsamfélaginu, viðburðir, verslun, þjónusta og ekki síst atvinnuauglýsingar eru meðal þess sem má finna í hverju blaði. Það taka flestir undir það að fréttamennska í héraði er mikilvæg til þess að halda málefnum héraðsins á lofti og sýna frá og segja af því sem vel er gert. Það munum við eftir sem áður gera og standa vörð um,“ segir Gunnar að lokum.

Nýjar fréttir