-0.5 C
Selfoss

Veggjalistakonan Þóranna vekur athygli vegfarenda

Vinsælast

Veggjalist er ekki ný af nálinni og hefur fylgt manninum í þúsundir ára. Þó er þróun í því eins og öðru og listformið tekur á sig ýmsar myndir. Í Árborg hefur veggjalistakonan Þóranna Ýr Guðgeirsdóttir vakið athygli vegfarenda, fyrst fyrir veggjalist sína við GK bakarí og nú með nýjum myndum á Ölfusárbrú. Við hittum Þórönnu og spjölluðum um verkefnin, en fram undan er að mála stóra vegginn undir brúnni, en óhætt er að segja að hann sé fremur til óprýði eins og hann er nú.

Ákaflega stolt af þessari stúlku

Undirritaður og Þóranna Ýr höfðu mælt sér mót við brúna til að ræða um veggjalistina. Þá vildi svo vel til að þar var á ferð Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistakennari við FSu. „Ég er ákaflega stolt af þessari stelpu og hún er farin að blómstra í veggjalistinni,“ segir Ágústa. Þar með var fyrstu spurningunni jafnframt svarað en Þóranna Ýr komst á bragðið með veggjalistina þegar að hún tók áfanga við FSu í veggjalist og hefur ekki litið við síðan. „Ég byrjaði á námskeiði hjá Ágústu í veggjalistinni og málaði á vegginn hjá Iðu fyrst. Eftir það var ég komin með bakteríuna,“ segir Þóranna brosandi.

Eitt leiðir af öðru og verkunum fjölgar

Bakaradrengirnir í GK bakaríi eru frjóir í hugsun og láta sér detta ýmislegt í hug. Fyrsti opinberi veggur Þórönnu, sem ekki var skólaverkefni, var við bakaríið og þykir hann eins og áður sagði hafa heppnast vel. „Það var okkur sönn ánægja að skreyta þennan vegg með þessum hætti. Aðallega fyrir þær sakir að komast í samstarf við svona frábæran listamann sem hressir upp á umhverfið fyrir okkur hin. Enn meiri gleði fylgir svo því að hún fái tækifæri til að fegra umhverfið enn frekar.“ segir Guðmundur í samtali við Dagskrána. Bragi Bjarnason, deildarstjóri frístunda- og menningarsviðs Árborgar var ekki seinn á sér að grípa tækifærið sem liggur í Þórönnu. „Þetta er frábær listakona, hæfileikaríkur heimamaður sem við þurfum að nýta til góðra verka. Til dæmis eins og að hressa upp á hversdaginn með þessum hætti. Við ákváðum því að fara í samstarf við hana gagngert til þess að hressa upp á tilveruna.“

Myndirnar verða til úr nærumhverfinu

Á þessum vegg var búið að krota, eða tagga. Hann lítur mun betur út nú.

Aðspurð um viðbrögð við myndunum segir Þóranna að fólk sé afar ánægt með veggina og hvetji hana áfram. „Einu spurningarnar til mín snúa að því hvort að eitthvað sé á bak við listina. Það er ekki þannig hjá mér. Fólk verður bara að horfa og njóta myndarinnar og túlka fyrir sig,“ segir hún og hlær. Aðspurð um innihald myndanna segir Þóranna að innblásturinn sé úr nærumhverfinu. Blaðamanni finnst blasa við að spyrja hvernig maður fari að því að gera svona verkefni, mála fríhendis á veggi, þar sem ekki er hægt að stroka út. „Það er fyrst og fremst undirbúningurinn fyrir hvert verk sem skiptir máli. Þá þarf að vanda sig því það er, eins og þú segir ekki hægt að stroka út, eða erfiðara. Þetta er svo ákveðin tækni að skala upp myndir og passa hlutföll, en það lærði ég meðal annars hjá Ágústu í náminu. Fram undan er að mála stóra vegginn undir brúnni, sem er samkvæmt Þórönnu 27 fermetrar. „Þetta er klárlega áskorun. Nú er ég búin að hanna verkið og búin að setja þetta dálítið upp. Þetta verður skemmtilegt,“ segir hún að lokum, en við segjum ekki frá innihaldi verksins að sinni.

Nýjar fréttir