11.1 C
Selfoss

Sjöundi bekkurinn slær í gegn í vinnuskólanum í Árborg

Vinsælast

„Þegar ég var ungur þá…“ er setning sem gjarna heyrist þegar rætt er um unglinga sem sinna vinnuskólanum og af því látið að allt hafi nú verið betur gert eða unnið í den. Slíkar tröllasögur hafa verið að bak aftur brotnar í ár því unglingarnir í vinnuskólanum hafa staðið sig með eindæmum vel, og blaðinu borist frásagnir frá ánægðum íbúum oftar en einu sinni. Þá er sérstaklega tekið eftir því að sjöundi bekkurinn, hafi staðið sig með prýði nú síðsumars. Það var ákveðið á fundum stjórnenda sveitarfélagsins að ráða þau til vinnu í sumar, en mikil ánægja var með framtakið bæði hjá börnum og foreldrum. Blaðið sló á þráðinn til Guðmundu Bergsdóttur, staðgengils skólastjóra Vinnuskólans í Árborg og bar málið undir hana.

Áhugahvetjandi aðferðir skila góðu starfi

„Við notum með áhugahvetjandi aðferðir í vinnu með unglingum. Okkur finnst að það hafi skilað þeim árangri sem nú má sjá víða um bæinn. Verkefnin hafa þó fyrst og fremst beinst að hreinsun á grænum svæðum og malargöngustígum, en sveitarfélagið er með vélbúnað til að hreinsa gangstéttir og götur,“ segir Guðmunda. Aðspurð um sjöunda bekkinn segir hún að vissulega geti hún tekið undir þetta því þau hafi hreinlega verið til fyrirmyndar. Vinnusöm, mæta vel og skila drjúgu dagsverki.

Eitthvað fyrir alla krakka

Útilistaverk við Félagsmiðstöðina Zelsíuz. -gpp

Það er á Guðmundu að heyra að mikið sé lagt upp úr því að finna öllum farveg innan vinnuskólans. „Já, það er mikilvægt að geta mætt ólíkum þörfum. Þetta sumarið vorum við að prófa okkur áfram með skapandi sumarstörf og var einn hópur á hvoru tímabili sem að unnu að hinum ýmsu verkefnum. Máluð voru hin ýmsu listaverk bæði innandyra og utandyra í félagsmiðstöðinni Zelsíuz, en áhugasamir geta komið og skoðað útilistaverkið eftir krakkana sem er utan á húsinu. Þá voru framleidd hlaðvörp, tónlistaratriði og sketsaþáttur eru á meðal verkefna skapandi sumarstarfa.“ Það er augljóst mál að þó að skóflan og hakinn hafi verið málið þegar þeir eldri voru yngri þá hafi tæknin rutt sér til rúms og pláss og tækifæri til að skapa á öðrum sviðum, sem skiptir máli að kunna í nútíma samfélagi.

Jafningjafræðsla og vel undirbúnir flokkstjórar

Guðmunda vill jafnframt koma því á framfæri að flokkstjórar hafi staðið sig með prýði. Þá hafi verið mikið lagt upp úr því að þeir hafi notið stuðnings, fengið ítarlega fræðslu og þannig stuðlað að vellíðan nemendanna. „Þetta skilar sér í mörgum þáttum en við leggjum t.d. mikið upp úr hópaskiptingunni og að unglingunum líði vel í vinnunni. Mikið af nýjum vináttusamböndum hafa myndast meðal unglinga í vinnuskólanum,“ segir Guðmunda. Í vinnuskólanum læra börnin jafnt á lífið sem á vinnuna, enda margt sem þarf að spyrja um og ræða á þessum aldri. „Við fengum jafningjafræðslu Suðurlands í heimsókn á bæði tímabil vinnuskólans. Fræðslan hjá þeim fyrir 8. og 10. bekk fór fram í salnum í Grænumörk 5. Þar hittu þau hópana og fóru með þá í hópefli og ræddu við þau um málefni sem að brenna á unglingum líkt og kynlíf, vímuefni, tjáning á tilfinningum o.fl. Unglingarnir voru ekkert smá flottir og voru alveg með á nótunum. Í þessari viku er jafningjafræsðlan að hitta 7. Og 9.bekk í Zelsíuz,“ segir Guðmunda að lokum.

 

Nýjar fréttir