9.5 C
Selfoss

Lækka leigu hundruða leigjenda með nýju láni frá HMS

Vinsælast

Íbúðafélagið Bjarg hyggst lækka leigu stórs hóps leigjenda sinna frá og með 1. september næstkomandi. Lækkunin nemur allt að 35.000 kr. á mánuði og því er um verulega búbót að ræða fyrir þá sem leigja íbúð af Bjargi. Ástæða lækkunarinnar er hagstæð ný langtímafjármögnun á lánum félagsins hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) í kjölfar þess að niðurstaða náðist í ríkisstjórn um framtíðarfyrirkomulag lánveitinga stofnunarinnar á samfélagslegum forsendum til byggingar og kaupa á íbúðum.

Skrifað var undir viljayfirlýsingu um fjármögnunina í gær. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs leigufélags, og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS undirrituðu viljayfirlýsinguna.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það var virkilega ánægjulegt að ganga frá fjármögnun fyrir íbúðarfélagið Bjarg sem þýðir lægri leigu fyrir stóran hóp leigjenda félagsins. Ég hef lagt mikla áherslu á fjármögnun Bjargs til lengri tíma enda tryggir þetta miklu lægri leigu fyrir leigjendur félagsins. Leigan mun lækka verulega fyrir marga sem leigja íbúð af Bjargi, eða um allt að 420.000 kr. á ári. Ég er alvega ótrúlega stoltur af þessari aðgerð sem, ásamt hlutdeildarlánum, skiptir sköpum fyrir ungt og tekjulágt fólk.”

Nýjar fréttir