8.9 C
Selfoss
Home Fréttir Myndræn ljóð lita draumheiminn svo fallega

Myndræn ljóð lita draumheiminn svo fallega

0
Myndræn ljóð lita draumheiminn svo fallega
Davíð Art Sigurðsson

Davíð Art Sigurðsson, myndlistamaður, er fæddur í Reykjavík. Þar ólst hann upp til 12 ára aldurs, en síðan í Hafnarfirði á unglingsárunum. Hann er stúdent frá Flensborgarskóla, en lagði stund á framhaldsnám við háskóla í Bandaríkjunum. Frá árinu 2006 hefur hann búið á Stokkseyri og unnið að eigin myndlist. Hann er mikill áhugamaður um hlut barna í menningu og vinnur við ýmis fjölbreytt verkefni tengd myndlist með börnum og unglingum, í samstarfi við sveitarfélagið Árborg.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég var að ljúka við lestur nýjustu skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Snertingu. Textinn er einstaklega vel skrifaður og stíllinn fágaður, án þess að vera tilgerðarlegur. Sagan gerist á löngum tíma og er eins og margar góðar bækur um ástir og örlög. Sagan segir frá Kristófer sem hefur rekið vinsælan veitingastað í miðbæ Reykjavíkur um árabil, en hefur ákveðið að hætta starfsemi vegna veirunnar. Á sama tíma berst honum vinabeiðni á Facebook, sem kemur miklu róti á huga hans og tilfinningar. Þessi atburður færir hann aftur um 50 ár, til London og japönsku stúlkunnar sem var ástmey hans þar, en hvarf svo skyndilega úr lífi hans. Svo fer að hann leggur í langferð til Japan, að hitta ástina sína aftur eftir öll þessi ár. Hugmyndin er að láta reyna á að endurnýja kynnin og um leið að leita útskýringa á því hvað varð til þess að hún fór án þess að kveðja. Snerting er margslungin saga sem fléttar saman æviminningum Kristófers og skemmtilegum mannlýsingum, veitir innsýn í ólíka menningarheima og sögulegan fróðleik. Frásögnin er látlaus og myndræn, sögð af listfengi og rennur áfram á áhrifamikinn hátt en jafnframt rólega og átakalaust. Sagan hélt mér allan tímann og ég mæli hiklaust með henni.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég er mikið fyrir ljóðabækur og það er alltaf ein slík á náttborðinu. Núna er það Þórðarbókin sem samanstendur af fimm ljóðabókum eftir Þórð Helgason íslenskufræðing og kennara. Hafandi kynnst Þórði sem kennara og notið leiðsagnar hans, þá hef ég alveg sérstaklega gaman af þessum ljóðum. Ég leyfi mér að segja að þetta eru mannbætandi ljóð. Þau eru eins og skáldið í senn snjöll og leiftrandi, íhugul og fræðandi. Sögulegur fróðleikur höfðar líka til mín og sögulegar skáldsögur. Ennfremur bækur um listir og listamenn. Ég er líka aðdáandi góðra glæpasagna og mjög hrifinn af framlagi íslenskra höfunda á því sviði.

Var bókum haldið að þér í æsku?

Ég var snemma læs og alltaf lesandi sem barn. Bækur voru ævintýraheimur sem gáfu mér tækifæri til að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn og ferðast þangað sem hugurinn bar mig. Ég las ævintýri H.C. Andersen, Grimms-ævintýri og arabísku ævintýrin úr Þúsund og einni nótt. Ýmsir bókaflokkar voru í uppáhaldi eins og bækur Enid Blyton. Tarzan-bækurnar las ég líka og bækurnar um Lassý og um Gust. Ég gekk um alpana með Heiðu og lenti í fjölmörgum ævintýrum með bræðrunum Frank og Jóa, rétt eins og Línu Langsokk og fleiri vinum. Ég man sérstaklega eftir tveimur bókum sem ég hafði mikið dálæti á og eru greyptar í barnsminnið. Önnur heitir Litla uglan hennar Maríu en það er spennandi og bráðfyndin fjársjóðssaga af fjölskyldu sem erfir húseign sem leynir á sér. Hin bókin er uppáhalds barnabókin mín og heitir Bláskjár. Þar segir af ungum dreng sem ræningjar nema á brott og halda föngnum á íverustað sínum í skógi. Bláskjár má ekki fara út á daginn og fær ekki að sjá sólina. Sagan segir af dvöl hans hjá ræningjunum og hvernig honum lánast að lokum að komast aftur heim til fjölskyldu sinnar. Ég lifði mig svo inn í lesturinn á þessari góðu bók, að ég man að mig dreymdi oft æsispennandi drauma tengda henni, þar sem ég var virkur þátttakandi. Slíkar minningar lifa enn góðu lífi þegar ég les fyrir lítil eyru!

Einhverjir uppáhaldshöfundar?

Ég á marga uppáhaldshöfunda. Ég er hrifinn af verkum Vigdísar Grímsdóttur og bók hennar Kaldaljós er meðal minna eftirlætis skáldsagna. Ég er spenntur fyrir að lesa meira eftir Ólaf Jóhann Ólafsson, en hann höfðar sterkt til mín. Af glæpasagnahöfundum eru fjórir íslenskir í sérstöku uppáhaldi, þau Arnaldur Indriðason, Yrsa Sigurðardóttir, Ragnar Jónasson og Stefán Máni. Uppáhalds ljóðskáldin mín eru of mörg til að telja upp hér en þó verð ég að nefna Davíð Stefánsson frá Fagraskógi, Stein Steinarr, Jón úr Vör, Snorra Hjartarson og Gyrði Elíasson. Þetta eru allt slíkir andans snillingar að það eru hrein forréttindi að lesa ljóðin þeirra.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Frekar handahófskenndar. Ég hef alltaf gaman af að lesa þegar ég hef tíma til og tek gjarnan lestrartarnir. Það eru alltaf einhverjar bækur á náttborðinu og það höfðar sérstaklega til mín að lesa eitt og eitt ljóð fyrir svefninn. Myndræn ljóð lita draumheiminn svo fallega eins og ljóðabálkurinn Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Ég get ekki sagt að margar bækur hafi rænt mig svefni eftir að ég komst á fullorðinsár. Þó man ég eftir einni, Grafarþögn eftir Arnald Indriðason. Ég man að ég gat hreinlega ekki lagt hana frá mér ókláraða.

En að lokum Davíð, hvernig rithöfundur ertu sjálfur?

Það er margt sem mig langar til að skrifa. Líklegast munu ljóð verða ráðandi hjá mér, því ég hef mjög gaman af ljóðagerð. Árið 1998 var gefin út eftir mig ljóðabókin Þegar ljóð eru en hún inniheldur óbundin ljóð. Síðan þá hef ég verið að fást við meira af því sama en einnig ort hefðbundið, ásamt því að þýða ýmsa texta. Ég hef líka áhuga á smásagnagerð, ekki síst örsögum. Það gæti verið gaman að safna slíku efni í útgáfu, hvort sem væri með ljóðum eða sér.

 

_____________________________________________________

Lestrarhestur númer 119. Umsjón Jón Özur Snorrason.