Tónlistarhátíðin Englar og menn hefst á ný

0
30

Tónlistarhátíðin Englar og menn hefst að nýju eftir árshlé í Strandarkirkju í Selvogi nk. sunnudag með tónleikum kl. 14. Á fyrstu tónleikum sumarsins koma fram sunnlensku einsöngvararnir María Sól Ingólfsdóttir sópran og Gunnlaugur Bjarnason baritón. Einar Bjartur Egilsson leikur með þeim á píanó og harmóníum.

María Sól Ingólfsdóttir er fædd og uppalin á Engi í Laugarási í Biskupstungum. Hún hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum, óperum og hátíðum á sviði klassískrar- og samtímatónlistar seinustu ár. Hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands árið 2019, hóf nám í Konunglega tónlistarháskólans í Den Haag í Hollandi en seinasta árið hefur hún sótt einkatíma hjá Janet Haney í London. María Sól trúir því að tónlist sé galdur.

Gunnlaugur Bjarnason baritónsöngvari er uppalinn á Selfossi þar sem hann tók sín fyrstu skref í tónlist við Tónlistarskóla Árnesinga. Hann lauk framhaldsprófi í söng frá Menntaskóla í tónlist árið 2020. Nú leggur hann stund á meistaranám í sama fagi við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Í janúar 2022 mun Gunnlaugur leika sitt fyrsta óperuhlutverk í uppsetningu á óperunni Mærþöllu eftir Þórunni Guðmundsdóttur.

Einar Bjartur lærði á píanó í Tónlistarskóla Mývatnssveitar, Tónskóla Sigursveins og síðar í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté. Árið 2013 lék hann einleik í píanókonsert eftir F. Poulenc með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Eftir Listaháskólann lagði hann stund á framhaldsnám í píanóleik í Hollandi. Samhliða náminu samdi hann tónlist og gaf út hljómplötu með eigin verkum að nafni Heimkoma árið 2016. Einar hefur spilað með ýmsum tónlistarmönnum bæði hérlendis og í Hollandi. Hann starfar nú sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Árnesinga ásamt því að leika reglulega með kórum og listafólki á tónleikum og sýningum. Hann gaf nýlega út tvær hljómplötur með svissneskum píanóverkum og er um þessar mundir m.a. að vinna við undirbúning óperu, píanóeinleiks auk útgáfu á nýrri plötu með eigin tónlist. Aðrir tónleikar hátíðarinnar verða 25. júlí og 8. og 15. ágúst.

Aðgangseyrir á tónleikana er kr. 3.000 en tónlistarhátíðin er styrkt af Tónlistarsjóði Rannís og Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga.

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Björg Þórhallsdóttir.

Skilja eftir athugarsemd

Vinsamlegast sláðu inn athugasemdina þína!
Vinsamlegast sláðu inn nafnið þitt hér