9.5 C
Selfoss

Öldungaráð Árborgar

Vinsælast

Á aðalfundi Félags eldri borgara á Selfossi þann 3. júní síðastliðinn var samþykkt ályktun um öldungaráð sem boðsent var til bæjarstjóra næsta dag.  Ályktunin var tekin fyrir í bæjarráði Árborgar 10. júní síðastliðinn og hlaut jákvæðar undirtektir.  Fulltrúi FEB á Selfosi í Öldungaráði Árborgar er Guðrún Þóranna Jónsdóttir sem hefur lagt sig mjög fram um að ráðið komi reglulega saman sem er mjög brýnt vegna mikilvægi ráðsins í málefnum aldraðra.  Árið 2018 var lögum um málefni aldraðra breytt þannig að hugtakinu „þjónustuhópur aldraðra“ var breytt í „öldungaráð“.  Sveitarfélög landsins eru misjafnlega stödd í virkni öldungaráðs.  Með stofnun öldungaráðs er eldra fólk komið með rödd til að koma málefnum sínum á framfæri við sveitastjórnir eins og lög mæla fyrir um.  Ályktun aðalfundar FEB á Selfossi er hvatning og áminning til sveitarstjórnamanna í Árborg um að koma ráðinu í eðlilega virkni hið fyrsta.

Meðfylgjandi er ályktun aðalfundar FEB á Selfossi og bókun bæjarráðs Árborgar.

Ályktun: „Minnt er á það mikilvæga hlutverk ráðsins sem tilgreint er í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 og í lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999 með áorðnum breytingum með lögum nr. 37/2018.   Öldungaráð skal fylgjast með heilsufari og félagslegri velferð aldraðra og samhæfa þjónustu.  Það á að gera tillögur til sveitastjórna um öldrunarþjónustu.  Það skal leitast við að tryggja að aldraðir fái þjónustu sem þeir þarfnast og kynna öldruðum þá kosti sem í boði eru.

Af þessum skyldum er ljóst að virkja þarf öldungaráð strax til þeirra verka sem því er ætlað. Setja þarf ráðinu erindisbréf og kalla það saman eins oft og þurfa þykir að lágmarki fjórum sinnum á ári.  Engan veginn má gefa afslátt af því tækifæri sem eldra fólki er gefið til að eiga rödd og hafa áhrif á skipulag og stefnumótun í málefnum aldraðra í Árborg“.

Bókun: „Bæjarráð þakkar góð orð og þá hvatningu sem felst í ályktun Félags
eldri borgara á Selfossi. Bæjarráð tekur undir ályktun Félags eldri
borgara um eflingu starfsemi Öldungaráðs Árborgar“.

Stjórn Eldri borgara á Selfossi,
Þorgrímur Óli Sigurðsson,
formaður.

Nýjar fréttir