-5.9 C
Selfoss
Home Fréttir Margrét ráðinn ráðhústjóri Stafræns Suðurlands

Margrét ráðinn ráðhústjóri Stafræns Suðurlands

Margrét ráðinn ráðhústjóri Stafræns Suðurlands
Margrét Valgerður Helgadóttir.

Margrét Valgerður Helgadóttir, sérfræðingur í upplýsingatækni, hefur verið ráðin verkefnastjóri Stafræns Suðurlands sem ætlað er að móta stafrænt ráðhús og þjónustuver fyrir Sveitarfélagið Suðurland og ná þannig fram hagræðingu í rekstri, auknu öryggi í vinnslu gagna og meiri sérhæfingu í störfum.

Bætir þjónustu í víðfemu samfélagi

Sveitarfélögin fimm sem saman starfa að Sveitarfélaginu Suðurlandi, sem þrátt fyrir nafnið eru ekki eitt sveitarfélag en í sameiningarviðræðum, eru Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Saman mynda þau rúmlega 5200 manna samfélag og ná yfir 16% af flatarmáli Íslands og því til mikils að vinna fyrir íbúa og stjórnsýslu að auðvelda samskipti og sjálfsafgreiðslu á svæðinu.

Covid opnaði augu fólks fyrir nýjum lausum

Margrét hefur starfað við upplýsingatækni í um 20 ár eða frá því hún hóf framhaldsnám í upplýsinga samskiptum frá Háskólanum í Hróarskeldu. Á þessum tíma hefur hún unnið að greiningu, hönnun og uppsetningu vefsvæða, að upplýsingaöryggi og verkefnastjórnun upplýsingatækniverkefna. Margrét er einnig með IPMA vottun á C stigi í verkefnastjórnun og hefur auk þess lokið námi í markþjálfun.

Margrét segir að það ástand sem Covid skapaði hafi opnað augu margra fyrir nýjum leiðum í vinnu og skilað samfélaginu nýjum lausnum. Það sé ekki síst mikilvægt fyrir fólk á strjálbýlli svæðum og geti bætt þjónustu og atvinnutækifæri til muna.

Snýst um að einfalda og stytta boðleiðir

Margrét segir verkefnið Stafrænt Suðurland sérlega spennandi verkefni. Það gefi mikla möguleika að bæta samvinnu og samræmingu á þjónustu fyrir íbúa og fyrirtæki á jafn stóru svæði. Hún segir heldur ekki mega gleyma því að koma þurfi til móts við þarfir yngri sem geri allt aðrar kröfur en þær sem eldri eru en um leið kynna þær eldri fyrir þeim tækifærum sem felast í nýrri tækni.

„Þegar öllu er á botninn hvolft, snýst þessi stafræna vegferð alltaf um að einfalda hlutina, stytta boðleiðir og bæta þjónustu, “ segir Margrét.

Frekari upplýsingar veitir Margrét Valgerður Helgadóttir í síma 825 5919 eða Anton Kári Halldórsson, formaður Sveitarfélagsins Suðurland, í síma 8680542.