11.7 C
Selfoss

„Mikil samvinna, samheldni, vinátta og fórnfýsi“

Vinsælast

Fölskvalaus gleði braust út á meðal stuðningsmanna, leikmanna og baklands Þórs í Þorlákshöfn þegar úrslit urðu ljós eftir hörkuleik við lið Keflavíkur. Fagnað var í Ölfusinu öllu svo undir tók í fjöllunum. Víðar var fagnað á Suðurlandi og sjá mátti á samfélagsmiðlum að sunnlendingar fögnuðu og samglöddust með Þór, enda í fyrsta skipti sem Íslandsmeistaratitill í körfuknattleik kemur á Suðurlandi í meistaraflokki karla. Eftir að leikurinn var flautaður af, fólk náði að lenda hafði Dagskráin samband við Lárus Jónsson, þjálfara liðsins og Jóhönnu Margréti Hjartardóttur, formann körfuknattleiksdeildar Þórs. Það má segja að Þór sé að uppskera eins og til hefur verið sáð en deildin stendur sterk að vígi með öflugu yngriflokkastarfi og valinn mann í hverju horni.

Mikilvægt sjálfboðaliðastarf og öflugt yngriflokkastarf er það sem stendur upp úr

Hvernig var tilfinningin að leik loknum? „Gríðarleg gleði sem var rosalega gaman að deila með fólkinu í Þorlákshöfn. Gleðin færðist í lystigarðinn þar til laganna verðir komu og skökkuðu leikinn, en þá var ákveðið að færa hamingjuna í Ráðhúsið,“ sagði Lárus í samtali við blaðið, en fagnað var fram á rauða nótt í Þorlákshöfn. Nú var liðinu spáð níunda sæti í deildinni og þið endið sem Íslandsmeistarar, hvernig gerðist það? „Við vorum ekkert að spá í hvar okkur var spáð í deildinni. Við notuðum spána sem hvatningu í úrslitakeppninni, en það er erfitt að segja hvort það hafi haft áhrif á okkar gengi.“ Þeir sem fylgst hafa með körfunni í vetur hafa eftir því tekið að liðsheild liðsins hafi verið áberandi, aðspurður um þetta segir Lárus: „Liðsheildin okkar byggir á einföldum gildum og mikilli vinnu í kringum þau. Strákarnir fóru yfir styrkleika og veikleika hvers annars eftir undirbúningstímabilið og það opnaði á umræður sem þeir gátu nýtt til þess að bæta sig sem leikmenn. Lykilinn að góðri liðsheild er að liðið tileinki sér gildin og vinni með þau á æfingum og fyrir og eftir leiki. Tími sem fer í að byggja upp liðsheild er mjög vanmetinn og líklega mikilvægari heldur en taktíski hlutinn af leiknum.“ Þegar talið berst að því hvað Lárusi finnst standa upp úr í starfinu hjá Þór í Þorlákshöfn stendur ekki á svari: „Sama fólkið hefur staðið í brúnni meira og minna í 20 ár og unnið gríðarlega mikilvægt sjálfboðaliða starf. Svo skiptir gríðarlega miklu máli að það eru mjög færir þjálfarar að kenna yngstu iðkendunum okkar því þeir leggja grunninn fyrir það sem koma skal.   Þeir ásamt okkar stuðnings fólki eiga gríðarlega stóran hlut í þessum árangri. Mikill stöðugleiki í stjórn félagsins og þjálfun yngstu iðkenda stendur upp úr.“

Lárus Jónsson, þjálfari Þórsara, með bikarinn góða. Mynd: Bára Dröfn Kristinsdóttir.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórsara, með bikarinn góða. Mynd: Bára Dröfn Kristinsdóttir.

Allir bæjarbúar með bros á vör og sumir með tár á hvarmi

Eins og Lárus kom inn á hefur sama fólkið staðið í brúnni í 20 ár og unnið mikið hugsjónastarf. Við ræðum við formanninn Jóhönnu, sem staðið hefur í brúnni um árabil, um að titillinn sé loks kominn í hús. Hvernig er tilfinningin? „Tilfinningin er frábær og eiginlega ólýsanleg en það má með sanni segja að „hamingjan er hér“ um helgina eins og Jónas okkar Sig. syngur svo vel. Allir bæjarbúar eru með bros á vör og sumir með tár á hvarmi. Góðar kveðjur og hamingjuóskir berast til okkar frá stuðningsmönnum um allt land. Það er mín tilfinning að öll þjóðin hafi haldið með okkur Þórsurum,“ segir Jóhanna brosandi. Nú er þetta mikil rós í hnappagatið að vinna svona titil. Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir félagið? „Það má segja að titillinn sé viðurkenning til okkar allra í Ölfusinu og það góða starf sem hefur verið í körfuknattleiksdeild Þórs alveg frá upphafi. Ávallt hefur stór hópur sjálfboðaliða starfað með deildinni og hefur sá hópur stækkað núna síðustu ár. Á stórum stundum þegar þarf margar hendur þá finnum við sem erum í forsvari fyrir deildina hvað stuðningurinn er mikill og margir tilbúnir að leggja sitt að mörkum. Bæjarbúar eiga liðið og gleðjast saman sem skapar frábæran bæjarbrag.“ Nú er þetta ekki í fyrsta skipti sem þið hafið bitist um bikarinn. Fannstu mun á þessari úrslitaviðureign og miðað við úrslitaviðureignina 2012 við Grindavík? „Já við vorum engan vegin tilbúin hugarfarslega að höndla velgengnina árið 2012 en það má segja að allir hafi verið mjög sáttir við silfur á þeim tíma.  En við lærðum mikið þann vetur og í raun höfum við lært mikið undanfarin ár bæði af reynslumiklum þjálfurum og við stjórnarfólkið af öðrum félögum. Reynslan hefur kennt okkur að lykillinn að velgengninni er ekki bara frábært lið og topp þjálfari heldur þarf liðið góða umgjörð sem er samsett af sjálfboðaliðum og stuðningsmönnum í kringum sig sem eru tilbúnir að ganga í verkin með bros á vör. Góð samvinna er málið.“ Nú spyrjum við Jóhönnu, eins og Lárus, um hver sé lykillinn að velgengninni í góðu íþróttastarfi. „Hann er margþættur. Í grunninn þurfum við góða vel menntaða þjálfara sem vinna við að móta krakkana þannig að þeim líði vel á æfingum og í starfinu. Einnig þarf að vera góð samvinna við foreldra þannig að þeir læri hvað skipti mestu máli í íþróttastarfinu. Þeir foreldrar sem eru tilbúnir að taka þátt, sýna fórnfýsi og hafa áhrif á starfið eru þeir sem verða virkustu sjálfboðaliðarnir. Þessi samvinna skapar áhugasama iðkendur og foreldra sem vilja vinna og gefa af sér í starfinu, segir Jóhann með áherslu. Aðspurð um einkenni starfsins í Þorlákshöfn segir Jóhanna: „Mikil samvinna, samheldni, vinátta og fórnfýsi er það sem einkennir starfið.“

Áframhaldandi uppbygging fram undan

Aðspurð um framhaldið segir Lárus: „Loka tímabilinu, klára að semja við leikmenn fyrir næsta tímabil og njóta sumarsins.“ Jóhanna tekur undir og segir: „Ég sé fyrir mér áframhaldandi uppbyggingu á góðu starfi með góðu fólki þar sem margir eru tilbúnir að gera gott starf enn betra.“

 

Nýjar fréttir