4.5 C
Selfoss

Sumarsýningar LÁ opna 5. júní 2021

Vinsælast

Leyfðu mér að ganga um

móana,

berfætt í kjól

og sautján syngjandi lóur elta mig.  (Elísabet Jökulsdóttir)

Sumarsýningar Listasafns Árnesinga; Róska, Iðustreymi og Yfirtaka hafa marga snertifleti. Það streymir úr iðunni á milli sýningarsala; frá einum tíma til annars, frá einu verki til annars, frá listum til gesta.

RÓSKA – Áhrif og andagift

Það er mikill heiður að fá að setja saman sýningu á verkum Rósku og fá tækifæri til að miðla baráttuanda hennar og myndheimi sem var allt í senn fagur, marglaga og ögrandi. Róska var listamaður sem hafði mikil áhrif á samtíma sinn og komandi kynslóðir listamanna, og enn á eftir að uppgötva og rannsaka margar víddir verka hennar. Hún var óhrædd við að vinna þvert á miðla og það á einnig við samtímalistakonurnar í Iðustreymi og Yfirtöku. Viðfangsefni þeirra tengjast hvort tveggja á augljósan og dulan hátt því sem stóð hjarta Rósku næst í list hennar; hinu mannlega, náttúrunni, femínismanum, dulúðinni, endurtekningunni, ljóðræna einfaldleikanum, réttlætinu og húmornum.

Iðustreymi

Kristín Gunnlaugsdóttir hefur leikið sér með fjölþætta tækni, meðal annars í ögrandi málverkum sem unnin eru með aldagamalli aðferð með eggtemperu á tré og blaðgulli. Á sýningunni Iðustreymi sýnir hún saumaðar myndir í striga, í senn kraftmikil og viðkvæm verk.

Gjörningaklúbburinn

Gjörningaklúbburinn sem hefur starfað frá 1996 er nú skipaður þeim Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur hefur frá upphafi vakið mikla athygli fyrir verk sem unnin eru í alla mögulega miðla sem þjóna hugmyndunum hverju sinni. Á sýningunni Iðustreymi sýnir Gjörningaklúbburinn vídeóverk sitt Aqua Maria, magnþrungið verk sem vísar í baráttuanda kvenna og byltinga undanfarinna ára.

Yfirtaka

Í þátttökugjörningnum Yfirtaka, gerir listakonan Anna Kolfinna Kuran tilraunir til að taka yfir rými með hjálp kvenna úr ólíkum áttum samfélagsins, bæði á opnun sýninganna sem og í vídeóverki.

Hvítur – 40 ára afmælissýning Leirlistafélags Íslands

Pop-up sýning, sem ferðast um landið í sumar, en hefst hér í Listasafni Árnesinga.

Á 40 ára afmælisári Leirlistafélags Íslands verður lögð áhersla á sýnileika félagsins í sem víðasta samhengi og boðið til ýmissa viðburða. Einn þeirra verður farandsýningin Hvítur, sem hefur ferðalagið sitt í Listasafni Árnesinga. Þaðan fer hún í Mjólkurbúðina á Akureyri og lýkur ferð sinni um landið í Vitanum á Akranesi. Þema sýningarinnar er Hvítur. Öll umgjörð og verk sýningarinnar verður Hvít, á vegg eða gólfi.

Nýjar fréttir