11.1 C
Selfoss
Home Fréttir Um skólahald á Eyrarbakka

Um skólahald á Eyrarbakka

0
Um skólahald á Eyrarbakka
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar.

Eins og lesa mátti í nýlegu viðtali við undirritaðan, í Dagskránni þann 5. maí, þá fyrirfinnst vissulega sú hugmynd að hætt verði kennslu í stofunum á Eyrarbakka og henni þess í stað sinnt á Stokkseyri, þar sem er til húsa stjórnun og uppistaða starfsemi BES, Barnaskólans á Eyrarbakka og Stokkseyri. Þessi hugmynd hefur hinsvegar ekki verið tekin til skoðunar eða efnislegrar umræðu meðal bæjarfulltrúa, enda vilji þeirra ekki staðið til þess.

Afstaða íbúa

Talsverð óánægja hefur komið fram að undanförnu hjá mörgum íbúum Eyrarbakka vegna slíkra hugmynda sem bæjarstjóri viðraði í umræddu viðtali. Það þarf alls ekki að koma á óvart að fólk hafi ólíkar skoðanir á hugmyndum að breyttu fyrirkomulagi. Linda Ásdísardóttir lýsti ágætlega ýmsum sjónarmiðum íbúa í grein sinni í Dagskránni þann 12. maí. Slík umræða er til gagns og ber að fagna. Ég vil svo sem ekki kannast alveg við framsetninguna á öllu sem eftir mér er haft, en þeim sem vilja kynna sér mín orð er bent á viðtalið, sem birtist þann 5. maí undir titlinum Tækifærin í Árborg felast í friðsæld og mannvænu umhverfi.

Margt kom fram í viðtalinu um þau tækifæri sem blasa við í byggðum Árborgar en það sem sérstaklega vakti óánægju margra íbúa á Eyrarbakka voru þessi orð mín: „Að mínu mati er einnig mjög mikilvægt að styrkja skólastarfið enn frekar með því að sameina alla árgangana á Stokkseyri. Góður skóli er það sem fólk horfir til þegar það velur sér búsetu og núverandi fyrirkomulag með starfið á tveimur stöðum er satt best að segja ekki sannfærandi fyrir aðkomumann. […] Það verða áreiðanlega ekki mörg ár þangað til fjölgun á svæðinu leiðir til þess að nýr fullbúinn skóli þarf að rísa á Eyrarbakka. Sá skóli mun þá þjóna Eyrbekkingum fyrir alla aldurshópa í grunnskóla og skólinn á Stokkseyri þjóna íbúum þar.

Skoðanir og samræður

Skoðun bæjarstjóra á hvað heppilegt sé að gera í skólamálum BES er ekki endilega sannleikur eða besta niðurstaðan, frekar en almennt gildir um skoðanir fólks. Skoðun mín gæti því breyst með umræðum og samtali sem leiddu í ljós aðrar betri leiðir. Mitt mat í þessu máli byggir á nærri tveggja áratuga aðkomu að skólamálum á öllum skólastigum, skólum stórum sem smáum og m.a. í byggðum sem búa við talsvert krappari kjör en Eyrarbakki. Einnig hef ég rætt þessi mál við sviðsstjóra fjölskyldusviðs Árborgar og fleiri stjórnendur í fræðslumálum, þar sem fram hefur komið mat á ávinningi af því að kennslan verði á einum stað. Engu að síður geta verið til betri leiðir, sem henta betur íbúum, foreldrum og börnum á Eyrarbakka og Stokkseyri.

Það sem ég tek mjög sterkt út úr grein Lindu er að það sé óþolandi að ekki sé hægt að ræða þessi mál opinskátt milli íbúa og bæjaryfirvalda. Eins og hún segir: „Það er hins vegar óþolandi og virkilega niðurdrepandi að umræðan fylgi samfélaginu eins og draugur ár eftir ár. Staðan var svipuð fyrir 10 árum.“ Ég er algerlega sammála Lindu um að það þurfi að vera hægt að ræða þessi mál, að íbúar þurfi ekki að þola það að þessi umræða sé einhverstaðar í bakgrunninum án þess að hægt sé að takast á við hana og rökræða. Jafnvel þegar mál eru tilfinningamál þá liggja ástæður að baki og þær er alltaf hægt að rökræða. Tilfinningar eru sjónarmið sem skipta máli og taka verður mark á.

Íbúaþing á Eyrarbakka og Stokkseyri

Það er alrangt að umræðan um fyrrnefndar breytingar á skólastarfi í BES sé sprottin úr bæjarstjórn. Bæjarstjóri og sviðsstjóri fjölskyldusviðs hafa reifað þessar hugmyndir við bæjarfulltrúa í nokkur skipti en þar hefur ekki verið vilji til að skoða málið frekar.

Hverjum íbúa má vera ljóst að slíkar breytingar verða ekki skoðaðar í neinni alvöru án aðkomu foreldra, starfsfólks, skólabarna og annarra íbúa. Skólamál á borð við þetta er alltof stórt og mikilvægt til þess að ákvörðun megi taka án ítarlegrar umræðu og á þann veg að öll sjónarmið verði rædd, vegin og metin.

Í raun og veru gæti það verið mjög þarft verk að stofna til íbúaþings Eyrbekkinga og Stokkseyringa um skólamálin. Sveitarfélagið gæti kostað til vegna umbúnaðar, ráðgjafar, framsögumanna og annars sem þyrfti til að halda slíkt þing. Þar gætu allir íbúar sem áhuga hafa tekið þátt í að móta sameiginlega afstöðu til þess hvernig þau vilja sjá skólamál á Eyrarbakka og Stokkseyri þróast í framtíðinni.

Hugmyndin að sameinuðu skólastarfi á Stokkseyri er ekki sú eina sem bæjarstjóri hefur sett fram við bæjarfulltrúa. Ég hef einnig viðrað þá hugmynd að BES sé skipt upp og sjálfstæður skóli verði í báðum þorpum. Sú hugmynd hefur auðvitað líka sína ókosti, alveg eins og hin hugmyndin og alveg eins núverandi fyrirkomulag. Minn vilji stendur fyrst og fremst til þess að við náum framförum í því að gera betra samfélag, í sátt við íbúana.