11.1 C
Selfoss

Fyrstu vottuðu alíslensku límtrésbitarnir

Vinsælast

Tuttugasta apríl sl. voru fyrstu límtrésbitarnir sem framleiddir eru úr íslensku timbri með alþjóðlegri vottun fluttir úr verksmiðju Límtrés Vírnets á Flúðum og að brúarstæði nýrrar brúar yfir Þjórsá við Búrfell.

Þetta eru nokkur tímamót því Límtré Vírnet hefur nú fengið alþjóðlega vottun á framleiðslu límtrés úr íslensku sitkagreni í verksmiðju sinni á Flúðum í Hrunamannahreppi.

Mynd: Einar Bjarnason.

Brúin verður fyrst og fremst fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi umferð en hægt verður að aka um hana á bílum í neyðartilvikum. Brúin opnar ný svæði fyrir ferðafólk til að skoða náttúruna í kringum Búrfell og býr til skemmtilegar tengingar. Hún styttir líka verulega vegalengdir sem fara þarf í neyð, ef slys verða, skyndileg veikindi, náttúruhamfarir eða aðrir óvæntir atburðir.

Landsvirkjun stendur fyrir brúarsmíðinni og fulltrúar hennar lögðu áherslu á það frá upphafi að það timbur sem yrði notað í brúna yrði eingöngu íslenskt. Límtrésbitarnir sem fluttir voru frá Flúðum í gær verða lagðir þversum á stálbita sem liggja langsum og efst verður tvöfalt dekk, einnig úr íslensku sitkagreni. Allt er timbrið fengið í Haukadalsskógi.

Meðfylgjandi myndir tók Einar Bjarnason, gæðastjóri Límtrés Vírnets, þegar fyrstu límtrésbitunum var staflað á flutningabíl á Flúðum.

Nýjar fréttir