8.4 C
Selfoss

Gríðarleg eftirspurn eftir lóðum í Árborg

Vinsælast

Það er óhætt að segja að enginn hefði getað ímyndað sér þann fjölda lóðaumsókna sem kom í lóðir hjá sveitarfélaginu Árborg fyrir skömmu. Alls sóttu um 8895 aðilar um lóð hjá sveitarfélaginu þegar þær voru auglýstar. Fjöldi lóða var þó einungis brotabrot af þeim fjölda eða 52. Samtals er áætlað að á þeim lóðum verði 120 íbúðir í blandaðri byggð ein-, rað-, par- og fjölbýlishúsa. Við heyrðum í Gísla Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra í Árborg og inntum eftir viðbrögðum. „Í samtölum mínum að undanförnu við byggingarverktaka í Árborg hefur komið fram að þeir hafa miklar fyrirætlanir um byggingu íbúða á næstu árum. Þeir lýsa því allir að eftirspurn eftir íbúðum sé mikil. Það sama heyrist frá fasteignasölum, það er mikil eftirspurn, eignir seljast hratt og verðið hefur verið að hækka,“ segir Gísli.

Höfuðborgin ekkert endilega fyrir alla

Hvernig lítur þetta út í náinni framtíð? „Það er fátt sem bendir til þess að þeirri miklu eftirspurn sem er á fasteignamarkaði verði fyllilega svarað á höfuðborgarsvæðinu með byggingu íbúða þar. Auk þess er alveg ljóst að fjöldi fólks er að sækjast eftir öðrum þáttum en staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu. Allt frá miðri síðustu öld hefur íbúafjölgun á Selfossi verið um 3% á ári, sem segir okkur að svæðið laðar að fólk í meira mæli en sem nemur fólksfjölgun. Í dag bætist við sú staðreynd að sá erill, umferðarþungi og lífstíll sem höfuðborgin býður upp er ekkert endilega fyrir alla og það fólk horfir þá annað. Bylting á sviði stafrænna samskipta, sér í lagi eftir Covid-19 gerir því fólki mögulegt að skoða miklu víðtækari búsetumöguleika en verið hefur. Öll þau atvinnutækifæri sem höfuðborgarbúar hafa hingað til setið einir að eru nú skyndilega opið fjölda fólks með búsetu annarsstaðar,“ segir Gísli.

Stórhuga um uppbyggingu

Við spyrjum Gísla út í það hvernig hann meti framhaldið. „Það hefur komið fram í samtölum mínu við þá einkaaðila sem standa að uppbyggingu íbúðahverfa á Selfossi að fyrirætlanir um byggingu íbúða á Selfossi eru stórhuga. Þá er einnig að byggjast upp á Stokkseyri og Eyrarbakka. Í Tjarnarbyggð geta því til viðbótar byggst upp um 300 heimili til viðbótar við það sem nú er. Áform sem nú eru á borðinu benda til þess að á þessu ári muni verða afhentar um 300 íbúðir og 500 íbúðir hvort áranna 2022 og 2023. Þetta þýðir íbúafjölgun upp á ríflega 7% á þessu ári og um 11% á ári 2022 og 2023,“ segir Gísli.

Stíga varlega til jarðar þó eftispurn sé mikil

„Gatnagerðarframkvæmdir í Björkurstykki þarf að stilla af þannig að ekki sé framkvæmt langt umfram það sem úthlutað er til íbúðabygginga. Þó svo að ekki sé útlit fyrir annað en mikla áframhaldandi eftirspurn þá borgar sig að taka þessi skref varlega. Það má reikna með að sveitarfélagið muni úthluta árlega lóðum undir um 50-100 íbúðir, allt eftir hver þróunin verður, en alls er hægt að úthluta lóðum undir nærri 1.000 íbúðir í því landi sem þegar hefur verið samþykkt sem íbúabyggð í aðalskipulagi og keypt var úr jörðinni Björk,“ segir Gísli að lokum um framtíðarmúsík í uppbyggingu í Árborg.

Nýjar fréttir