1.1 C
Selfoss

Guð gefðu mér þolinmæði – Strax

Vinsælast

Guð, gefðu mér þolinmæði, STRAX hef ég oft heyrt fólk segja í gríni þegar því finnst eitthvað ekki gerast eins hratt og það vill. Já, ég skrifa í gríni en á bak við allt grín er nú smá alvara er það ekki.

Það er svo oft sem við erum óþolinmóð og viljum að hlutirnir gerist hratt. Við pöntum okkur mat á veitingahúsi og kvörtum yfir því að hann sé lengi að koma. Við þurfum að bíða í biðröð og kvörtum yfir því. Við þurfum að fara eftir sóttvarnarreglum og kvörtum yfir því. Já það er alveg mannlegt að kvarta og það er mannlegt að verða óþolinmóður en mitt í því erum við kannski að missa af lærdómi. Til þess að þolinmæði okkar vaxi þurfum við að lenda í aðstæðum sem reyna á þolinmæði okkar. Til þessa að hugrekki okkar vaxi þurfum við að lenda í aðstæðum sem krefjast þess að við þurfum að stíga inn í aðstæður sem jafnvel valda okkur ótta. Til þess að þakklæti okkar vaxi þurfum við að horfa í kringum okkur og sjá hvað það er sem við jafnvel tökum sem sjálfsagðan hlut.

Lífið er gjöf, hver dagur er gjöf og því ættum við ekki að taka sem sjálfsagðan hlut. Því finnst mér mun mikilvægara að við áttum okkur á því að við þurfum ekki að lifa alla daga þannig að við séum að bíða eftir helginni. Við megum njóta hvers dags. Ef við lítum á vinnuna okkar sem afplánun og bíðum eftir að vinnan klárist þá er stór hluti dagsins okkar farin í það að “þjást”. Ef við komum síðan heim úr vinnunni og finnst erfitt að takast á við heimilisaðstæðurnar og bíðum eftir að börnin okkar fari að sofa þá erum við ekki að njóta þess tíma dagsins heldur. Ef við eyðum síðan restinni af deginum í skroll og hámhorf, förum síðan að sofa og endurtökum dag eftir dag þá er ekkert skrítið að við upplifum að dagarnir séu meira að taka af okkur hleðslu en að auka viðhana.

Ég hvet þig til að taka stjórn yfir degi þínum. Taka hann jafnvel í pörtum ef það hjálpar. Skipuleggðu eitthvað með reglulegu millibili yfir daginn sem hleður þig. Það er hægt að nýta kaffipásur, matarhlé og slík tækifæri til þess. Byrjaðu á því að telja blessanir þínar. Skrifa niður hvað er jákvætt. Passaðu upp á að fá nægan svefn. Nærðu þig vel og mundu að það þurfa ekki allir dagar að vera fullkomnir. Á hverjum degi er eitthvað sem þú getur lært og jafnvel notað sem vaxtartækifæri.

Til að gera daginn enn betri hvet ég þig til að stinga þér í samband reglulega með því að gera eitthvað sem hleður þig andlega, líkamlega,félagslega og vittu til. Kannski ferðu í gegnum daginn með aðeins meiri orku en þú ert vön/vanur.

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella

Panta tíma í ráðgjöf og/eða heilsumarkþjálfun – www.gunnastella.is

Hlaðvarp: Einfaldara líf

 

 

Nýjar fréttir