2.8 C
Selfoss

Heimilisofbeldismál í forgangi hjá Lögreglunni á Suðurlandi

Vinsælast

Lögreglan á Suðurlandi vinnur eftir sérstöku verk­lagi þegar kemur að heimilis­ofbeldis­málum. Verklagið hefur verið tekið upp á landsvísu. Samkvæmt Elís Kjart­ans­syni, lögreglu­fulltrúa hjá Lögreglunni á Suðurlandi breytir nýtt verklag málunum umtalsvert. „Það sem maður tekur fyrst eftir er að endurkoma okkar hjá lögreglunni, á heimili þar sem er ofbeldi, hefur minnkað mikið. Það segir okkur að fólkið sem lendir í þessari aðstöðu fá hjálp og úrræði.“ Það er á Elís að heyra að það sé einmitt leiðarstefið í aðkomu lögreglunnar að þessum málum.

Úrræðin til staðar sem ekki voru áður

„Það var stundum þannig hér áður fyrr að við komum á staðinn tókum einhvern aðila af heimilinu og hann var svo kominn stuttu seinna til baka og ástandið jafnvel verra á eftir. Þetta er ekki svona í dag. Við stígum þarna inn með félags­þjónustunni á hverju svæði fyrir sig. Öll mál fara í sama farveg og fá sömu meðferð. Það er rétt að taka fram að við setjum svona mál alltaf í hæsta forgang hjá okkur, rétt eins og bílslys.“ Hver er þá munurinn á nálgun ykkar nú og áður? „Fyrst og síðast er unnið að því að leysa málin og koma fólki áfram í úrræði. Stundum er það nóg. Stundum er ákært og málið fer sína leið í dómskerfinu. Aðal atriðið er að það er unnið með fólkinu sem um ræðir í hvert skipti til að koma í veg fyrir að svona ástand skapist aftur.

Tekið á málum með hagsmuni allra að leiðarljósi

Það er að heyra á Elís að lög­reglan hafi skipt algerlega um gír í málaflokknum á undan­förnum árum. „Já, það má segja það. Maður fer allavega rólegri að sofa eftir erfiða vakt þegar maður veit að málin eru komin í farveg. Það sé verið að hjálpa fólki að koma lífinu sínu í réttan farveg.“ Svona mál hljóta að vera flókin í eðli sínu er hægt að beita þessari aðferð á öll mál? „Þetta er alveg fast verklag. Það er ákveðin uppskrift sem farið er eftir og kakan kemur nánast eins út í hvert skipti. Þetta verk­lag hefur verið þróað með mjög mörgum aðilum og það er okkar upplifun, ásamt annarra sem koma að málum, að við séum búin að finna mjög góða leið til þess að takast á við þessi mál, með hagsmuni allra sem að borðinu koma að leiðarljósi.“

Þarf enginn að vera hræddur við að tilkynna mál

Nú er málið að fólk veigrar sér oft við að tilkynna um mál þó það verði vart við að ekki sé allt með felldu, eru þetta óþarfa áhyggjur? „Já, ég myndi segja það. Það er svo sem engin þægileg leið í þessum málaflokki, en ef við höfum í huga að með því að tilkynna erum við að beina fólki í réttan farveg. Þetta getur verið tækifæri þessarar fjölskyldu að koma sínum málum á hreint. Hver svo sem þau eru. Þarf einhver að fara í meðferð? Eru samskiptin ekki í lagi og þarf að vinna með það? Eru börn sem þurfa aðstoð, þá sér félagsþjónustan um allskyns úrræði þar. Það þarf að breyta því hvernig fólk hugsar um þessi mál. Við erum ekki mættir á svæðið til að tortíma einu né neinu heldur styðja við það þannig að aðstæður fólks verði betri. Það tekur auðvitað tíma að breyta þessari ímynd en á meðan getum við vandað okkur og sýnt að þetta sé betra en að tilkynna ekki,“ segir Elís og leggur áherslu á orð sín.

Nýjar fréttir