8.4 C
Selfoss

Vegferðin og fjölskyldan

Vinsælast

Sem tveggja barna móðir með tvö ung börn þá skiptir mig máli hvað hvernig staðið er að þeim málefnum sem stuðla að auknum lífsgæðum fjölskyldunnar. Nú þegar aðeins sex mánuðir eru til kosninga er vert að líta yfir kjörtímabilið og hugleiða um hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert fyrir fjölskyldurnar í landinu. En hvað er það sem skiptir fjölskylduna máli? Það er jú m.a. öruggt þak yfir höfuðið, trygg framfærsla, aukin samvera, minni áhyggjur og von um betri framtíð.

Ef við horfum á hvaða breytingar hafa verið gerðar í þágu fjölskyldna þá er ýmislegt sem kemur upp úr krafsinu. Helst vil ég nefna stórt baráttumál foreldra síðustu ára um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. Lenging fæðingarorlofs tryggir aukna samveru foreldra með börnum sínum,  að auki voru orlofsgreiðslur hækkaðar sem minnka fjárhagsáhyggjur og kvíða nýbakaðra foreldra.

Lagt hefur verið fram frumvarp sem gengur út á að samþætta opinbera þjónustu í þágu barna en frumvarpið er til meðferðar hjá velferðarnefnd. Mikilvægt er að öll börn og foreldrar þeirra sem þurfa á þjónustu að halda njóti réttar síns með öruggum og skilvirkum hætti.  Þá er hefur verið lagt til að lagðar verði niður pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir og með því tel ég að fagleg aðkoma sérfræðinga á sviði barnaverndar í hverju sveitarfélagi fyrir sig tryggi vandaðri úrlausn barnaverndarmála.  Að mínu mati á hvergi að vera gefinn afsláttur þegar kemur að velferð barnanna okkar og fjölskyldum þeirra.

Fjölskyldan þarf að hafa öruggt þak yfir höfuðið og á síðustu árum hefur verið lyft grettistaki í húsnæðismálum, m.a. með tilkomu hlutdeildarlána sem einfaldar ungu fólki og tekjulægri einstaklingum að stíga sín fyrstu skref inn á fasteignamarkaðinn. Þá var Leigufélagið Bríet stofnað árið 2019 en stefna þess og markmið er að stuðla að heilbrigðum og hagkvæmum leigumarkaði á landsbyggðinni með öruggu og fjölbreyttu húsnæðiskosti í langtímaleigu. Að auki hefur vefurinn (tryggdbyggd.is) verið opnaður sem styður við sama markmið.

Til þess að hafa öruggt þak yfir höfuðið þarf trygga framfærslu sem hefur mikil áhrif á velferð fjölskyldunnar. Það er ótækt að hér búi fólk við fátækt og að börnin okkar þurfi að búa við slíkar aðstæður. Fátækt er samfélagsmein sem þarf að uppræta en trygg framfærsla telst til mikilvægra grundvallarréttinda. Í því samhengi þá reikar hugurinn að því til hvaða aðgerða hefur verið gripið í þeim efnum. Þar má nefna m.a. breytingar á almannatryggingarkerfinu sem hafa dregið úr áhrifum tekna á útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, breytingar á krónu á móti krónu skerðingunni sem hefur löngum verið talin akkílesarhæll almannatryggingarkerfisins. Öldruðum sem eiga takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum var einnig tryggður réttur til félagslegs viðbótarstuðnings sem nemur allt að 90% af fjárhæð fulls lífeyri almannatrygginga. Ekki er um tæmandi talningu að ræða og ekki eru hér til umfjöllunar þær aðgerðir sem gripið hefur verið til vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa vegna COVID-19 heimsfaraldursins.

Þær umbætur sem nefndar eru hér að framan eru aðeins lítill hluti þeirra breytinga sem núverandi ríkisstjórn hefur ráðist í en framangreindar umbætur eru þó stór skref í átt að auknu öryggi og velferð fjölskyldna. Lengi má gott bæta en það er augljóst að Framsókn er fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, lögfræðingur

Höfundur er í stjórn Framsóknarfélagsins í Árborg og í miðstjórn Framsóknar.

 

Nýjar fréttir