2.8 C
Selfoss
Home Fréttir Höfum við verið að standa okkur?

Höfum við verið að standa okkur?

0
Höfum við verið að standa okkur?
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.

Kynbundið ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum spyr ekki um stað né stund og Suðurland er þar engin undantekning. Heimilisofbeldi er meðal annars skilgreint í almennum hegningarlögum með eftirfarandi hætti: „Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, […].“

Mikil vitundarvakning hefur orðið undanfarin ár á þeirri ógn sem heimilisofbeldi er fyrir þá sem því sæta. Árið 2016 má segja að hafi markað ákveðna stefnubreytingu í málaflokknum með breytingu íslenskum hegningarlögum og fyrrgreint ákvæði varð hluti af 23. kafla laganna. Gripið hefur verið til verulegra verklagsbreytinga hjá lögregluyfirvöldum og tekið er vel á því þegar grunur er um heimilisofbeldi og ákveðið ferli fer í gang hjá lögreglu sem hefur mikla þýðingu þegar þolendum er komið strax úr aðstæðum og í viðeigandi aðstoð. Hvað svo? Hvað tekur svo við þegar konur eru tilbúnar að fara út úr aðstæðum og jafnvel með ung börn? Í þeirri viðleitni að einfalda leið þolenda var sett á fót úrræði árið 2016 sem heitir Bjarkarhlíð. Hlutverk hennar er að virka sem lágþröskuldaúrræði fyrir þolendur ofbeldis og veitir ráðgjöf til þolenda um næstu skref, réttarstöðu og félagsaðstoð. Árið 2019 var sambærilegt úrræði stofnað á Akureyri undir nafninu Bjarmahlíð.

Suðurland er sá hluti landsins nær yfir hvað stærsta landsvæðið og teygir anga sína víða. Umdæmi Lögreglustjórans á Suðurlandi er þar af leiðandi mjög víðfermt en það nær frá Ölfusi allt austur á Höfn. Það gefur að skilja að Suðurland er mjög dreifbýlt og því getur verið erfitt að sækja sér aðstoð og koma sér út úr aðstæðum ef ekkert úrræði er í boði á Suðurlandi. Frá 2015 fram til ágúst 2019 voru skráð 4341 heimilisofbeldismál hjá lögreglu en þar af voru 265 eða 6,1% þeirra á Suðurlandi. Er það þriðji hæsti fjöldi skráninga á landinu á eftir höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Umtalsverð aukning hefur verið í skráningum heimilisofbeldis frá árinu 2019 en miðað við bráðabirgðatölur frá embætti ríkislögreglustjóra er sú fjölgun mest á Suðurlandi. Þar tvöfaldaðist fjöldi mála frá árinu á undan og fór úr alls 43 árið 2018 í 85 árið 2019. Þarna eru aðeins um skráð brot og undanskilin eru þau brot sem ekki er vitað af ásamt öðrum kynferðisbrotum sem skráð voru hjá lögreglu en alls 7004 kynferðisbrot skráð hjá lögreglu frá árinu 2001 til 2018 en 651 þeirra var skráð á Suðurlandi eða um 9,3% kynferðisbrota á fyrrgreindu tímabili.

Af framangreindu leiðir að þörfin fyrir úrræði á borð við Bjarkahlíð og Bjarmahlíð hafi verið til staðar á Suðurlandi um eitthvert skeið. Í samræmi við þörfina stofnaði öflugur félagskapur sunnlenskra kvenna, Sóroptimistaklúbbur Suðurlands, úrræði fyrir þolendur ofbeldis á Suðurlandi sem ber nafnið Sigurhæðir. Sigurhæðir er fyrsti formlegi samhæfingar- og samstarfsvettvangur aðila sem koma að málum er tengjast kynbundnu ofbeldi á Suðurlandi. Víðtæk þjónusta og meðferð verður veitt þolendum og er markmiðið að veita konum 18 ára og eldri þjónustu en hjá Sigurhæðum verður boðið uppá sérhæfða áfallameðferð sem er ekki í boði innan að öðru leyti sambærilegra úrræða. Innan Sigurhæða verður boðið uppá lögfræðiráðgjöf sem Kvennaráðgjöfin sér um að þjónusta Kvennaráðgjöfin sinnir einnig lögfræðiráðgjöf hjá Bjarkahlíð og Bjarmahlíð. Lögreglan á Suðurlandi þjónustar þolendur og veitir ráðgjöf og upplýsingar inni í Sigurhæðum.

Gríðarlega mikilvægt er að tryggja aðgang þolenda að viðeigandi úrræðum og einfalda skrefin í átt að öruggu lífi jafnframt að þolendur viti réttarstöðu sína og boðleiðir séu stuttar. Það er því afskaplega ánægjulegt að geta sagt frá því að Sigurhæðir opna þann 22. mars nk. og tekur úrræðið hlýlega á móti þeim sem á því þurfa að halda. Það á enginn að þurfa að búa við ofbeldi og á heimilið að vera griðarstaður fjölskyldunnar þar sem öryggið er í fyrirrúmi.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir.

Höfundur situr í verkefnastjórn Sigurhæða og er lögfræðingur hjá Kvennaráðgjöfinni.