2.8 C
Selfoss

Myndi skrifa bækur sem sýna ungu fólki hversu megnugt það er

Vinsælast

Jóna Katrín Hilmarsdóttir er móðir, kona, dóttir, enskukennari og stundum skólameistari. Hún hrífst af óspilltri náttúru, góðmennsku og sagnalist. Hún er mikill bókaormur sem hefur náð að troða bókvitinu í askinn sinn.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Bækur eru ómissandi hluti af mínu lífi, ég er sífellt vakandi fyrir góðum ábendingum að bókum til lestrar. Ofarlega á uppáhaldslistanum núna er ævisaga Michelle Obama sem er áhugaverð lesning um merkilega konu sem er öflug fyrirmynd ungra kvenna. Ég hef nýlokið við að lesa The Sanatorium (Heilsuhælið) eftir Sarah Pearse og The Light in Hidden Places (Ljós hulinna staða) eftir Sharon Cameron. Sú fyrri er spennusaga en hin síðarnefnda byggir á sönnum atburðum úr síðari heimsstyrjöld og segir frá sextán ára Stefaniu Podgorska sem faldi þrettán gyðinga í íbúð sinni í borginni Przemsyl í Póllandi. Ég mæli einlæglega með þeirri bók en hún veitir innsýn í daglegt líf þeirra sem lifðu og hrærðust á umrótatímum. Það er okkur öllum hollt að setja okkar (Covid) umrótatíma í samhengi við hörmungar sem dynja á víða um heim.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég les mikið á ensku, enda enskufræðingur, og vildi óska þess að fleiri bækur væru þýddar á íslensku svo að flóra bókmennta yrði ríkari hér á landi. En skáldsögur heilla helst og ég nýt þess að lesa klassískar bókmenntir en hrífst einnig af skáldsögum með sagnfræðilegu ívafi. Þessa dagana rekur helst á fjörur mínar bækur sem fjalla um árabilið 1880 til 1950 og gaman að rýna í hugsun, heimspeki og sögu þess tíma. En William Shakespeare og Charles Dickens eru miklir vinir mínir og eins hef ég hrifist með í andríku og þunglamalegu andrúmsloftinu í rússneskum klassíkerum eins og Önnu Kareninu eftir Tolstoy.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég las mikið sem barn og bækur og lestur voru sjálfsagður hlutur á æskuheimilinu: að borða, sofa og lesa er allt sem skiptir máli í raun. Bókahillur fullar af bókum voru á flestum bæjum sem ég kom á og ég er alin upp af móður sem les nokkrar bækur í viku og ömmur og afar engir eftirbátar. Greiður aðgangur að bókum var sjálfsagður og ég fór snemma að venja komur mínar á bókasafnið á Selfossi. Ekkert var utan seilingar eða bannað. Þegar ég hafði orðið næga meðvitund til að sækjast eftir því að lesa Ég lifi eftir Martin Grey þá fékk ég það, umorðalaust. Allir sem lesa þá átakanlegu bók vita að lífið breytist eftir lesturinn en ég hef ekki verið nema þrettán ára þegar ég las hana. Ég hélt sérstaklega upp á skandinavíska sósíalrealistann Astrid Lindgren í barnæsku og ævintýri og fantasíur áttu hug minn allan um tíma. Þá þvældist ég um sveitir með bækur í tösku og settist út í móa og las um víkingaöld með Vilborgu Davíðsdóttur og lifði mig inn í norsk-íslenskan nornaheim Margit Sandemo um ellefu og tólf ára aldurinn. En sá rithöfundur sem stendur hjarta mínu næst í barnabókmenntum er Frances Hodgson Burnett sem skrifaði sögur þar sem ungir, sterkir kvenkarakterar spiluðu aðalhlutverk.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Lestrarvenjur mínar eru ekki reglubundnar. Þegar hugurinn er þreyttur þá les ég lítið. Stundum les ég ekkert. Stundum les ég svo mikið að ég tæti í mig margar bækur hratt og enginn fær mig stöðvaða. Hins vegar hlusta ég mikið á hljóðbækur á leið úr og í vinnu og þar á ég heila klukkustund á dag þar sem ég hlusta á stórbókmenntir og spennusögur. Ef þú mætir mér hlæjandi á bíl í Grímsnesinu þá skaltu ekki hafa áhyggjur af því að ég sé að tapa glórunni heldur er ég örugglega að skella upp úr yfir einhverri skrítlunni í góðri bók.

Áttu þér uppáhaldshöfunda?

Uppáhaldshöfunda er erfitt að nefna en minn allra uppáhalds er William Shakespeare. Ef ég ætti að nefna nútímahöfund þá vil ég minnast á Kristin Hannah en ég les allar bækur sem hún sendir frá sér. Á íslensku hefur komið út eftir hana góð saga sem heitir Næturgalinn.

Hefur bóklestur áhrif á viðhorf manna og gildismat?

Tilgangur með bókum og lestri kristallast í leið mannsins til að skilja sjálfan sig og aðra betur. Bækur og sögur eru lykillinn að því að skilja betur umheiminn og til að öðlast samkennd og innsýn inn í ókunna menningarheima. Íslendingar eiga margar kynslóðir sjálfmenntaðs fólks sem er víðlesið umfram margan háskólamanninn. Bækur og lestur eru lykillinn að sjálfstæði bæði einstaklingsins og samfélagsins.

En að lokum Jóna, hvernig bækur myndir þú skrifa ef þú værir rithöfundur?

Ef ég væri rithöfundur myndi ég skrifa bækur sem opna augu unga fólksins fyrir því hversu megnug þau eru: hversu sterk og dugleg þau geta verið; hversu mikil áhrif þau geta haft og hversu mikilfenglegur hversdagsleikinn er. Og svo myndi ég undirstrika það hversu mikið lán það er að búa á svæði heimsins þar sem hversdagsleiki er sjálfgefinn. Víðsýni, umburðarlyndi, góðmennska og samúð með þeim sem minna mega sín yrðu undirtónninn og rauði þráðurinn. Hvernig ég færi svo að því að orða þetta meistaraverk er svo allt annað mál.

_____________________________________________________

Lestrarhestur númer 110. Umsjón Jón Özur Snorrason.

 

 

Nýjar fréttir