10.6 C
Selfoss
Home Fréttir Er sjálfbærni nýja stóriðjan?

Er sjálfbærni nýja stóriðjan?

0
Er sjálfbærni nýja stóriðjan?
Jón Gautason.

Eitt af stóru verkefnum stjórnvalda í kjölfar COVID-19 faraldursins verður atvinnusköpun í kreppuástandi. Í gegnum tíðina hefur atvinnuátak af þessu tagi verið framkvæmt með stóriðju og/eða stórframkvæmdum, svo sem álverum, virkjunum og svo framvegis. Vandamál samtímans kalla á nýjar og umhverfisvænni nálganir. Ísland hefur í gegnum tíðina skuldbundið sig til að takast á við ýmsar áskoranir í loftlagsmálum, en skuldbindingum verða að fylgja efndir. Mistakist okkur að standa við þessar skuldbindingar mun það hafa áhrif á ungt fólk í dag og komandi kynslóðir. En getur verið að hægt sé að taka á hluta þessara vandamála með sömu lausnunum? Búa til nýja og umhverfisvæna atvinnuvegi?

Tökum sorpmálin sem dæmi. Upp hefur sprottið nýsköpunarfyrirtæki  hér á landi sem sérhæfir sig í endurvinnslu á plasti með umhverfisvænni orkugjöfum en tíðkast úti í heimi. Samt er það svo að regluverkið í kringum skil og endurvinnslu á plasti er beinlínis hamlandi vexti og starfsemi slíkra fyrirtækja. Þá er einnig vert að benda á það að lítið af endurunnum plastefnum er nýtt aftur hér á landi. Ísland er sem sagt orðinn hráefnaframleiðandi á enn einu sviðinu, líkt og með raforku til stóriðju og óunnin fisk. Þess í stað ættum við að leita leiða til að loka hringrásinni hér á landi, það er framleiðslu með umhverfisvænstu orku í heimi á fullunnum plastvörum úr umhverfisvænsta plasti í heimi. Getur verið að endurvinnsla á plasti og framleiðsla á fullunnum plastvörum úr endurunnu hráefni geti orðið nýr, blómlegur og umhverfisvænn atvinnuvegur hér á landi? Gleymum því ekki að slík nýsköpun myndi hafa í för með sér atvinnusköpun, auk þess að hjálpa til dæmis landbúnaðinum að ná kolefnishlutleysi (líkt og nýendurskoðaður búvörusamningur gerir ráð fyrir) sem aftur hjálpar stjórnvöldum að standa við skuldbindingar sínar. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld að tryggja að réttu hvatarnir séu til staðar í regluverkinu sem styður endurvinnslu og endurnýtingu.

Nauðsyn flokkunar á sorpi er mikil og umræða og aðgerðir til samræmingar flokkunarkerfa eru af hinu góða. En gleymum ekki lokahnykknum í hringrásinni. Endurunnið hráefni verður að verða að vöru aftur til þess að snákurinn bíti í halann á sér. Mikilvægt er að búa til sjálfbært hringrásarhagkerfi til að þurfa ekki að flytja út hráefni sem enginn veit hvað verður um. Stór þáttur í því að ná loftlagsmarkmiðum Parísarsamkomulagsins er að styðja við umhverfisvænar lausnir til að endurnýta og endurvinna sorp.

Getum við skapað fleiri umhverfisvæna atvinnuvegi? Mögulega getum við aukið hlutdeild skógræktar hér landi og í framtíðinni hvatt sérstaklega til þess að byggt verði úr íslensku timbri, en timbur er mun umhverfisvænna byggingarefni en til dæmis steinsteypa. Aukin eftirspurn eftir íslensku timbri myndi sannarlega hvetja til aukinnar gróðursetningar nytjategunda og fjölgunar starfa við ræktun, grisjun og svo að lokum skógarhögg og vinnslu.

Nýir tímar kalla á nýjar nálganir við atvinnusköpun. Sækjum fram með sjálfbærni að leiðarljósi og látum ekki tækifærið til að búa til nýja atvinnuvegi úr hendi sleppa.

Jón Gautason,

formaður Guðna – Félags ungra

Framsóknarmanna í Árnessýslu og Rangárvallasýslu.