1.7 C
Selfoss

Áfangastaðastofa Suðurlands eflir stoðkerfi ferðaþjónustunnar

Vinsælast

Í fyrra tölublaði Dagskrárinnar var sagt frá því að samningur milli SASS og Ferða­málaráðherra, Þórdísar Kol­brúnar Reykfjörð Gylfa­dóttur, hefði verið undir­ritaður. Efni sam­ningsins er stofnun Áfanga­staðastofu á Suður­landi. Verkefnið er í hönd­um Mark­aðs­stofu Suður­lands, sem hefur verið með það í undir­búningi síðastliðin ár í tengsl­um við áfanga­staða­áætlun lands­hlutans, sem nú er í upp­færslu og verður kynnt á vor­mán­uðum. Við kíktum til Dag­nýjar Huldar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suður­lands og fengum að heyra hvaða þýðingu þetta hefur fyrir ferðaþjónustuna á Suðurlandi.

Markmiðið að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar

Hvað er Áfangastaðastofa? „Mark­mið með Áfangastaða­stofu er að efla stoðkerfi ferða­þjón­ustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi hennar á starfssvæði Markaðsstofu Suðurlands. Megin­verkefnið er að leggja fram áfangastaðaáætlun fyrir við­komandi landsvæði og tryggja að hún tali við aðra lögbundna áætlunargerð, bæði á landsvísu sem og innan landshlutans. Einnig að tryggja gott samtal milli hagsmunaaðila í greininni innan landshlutans til að tryggja að t.d. markaðssetning, fræðsla og rannsóknir séu byggðar á þörfum fyrirtækja og lands­hlutans í heild. Að flestu leyti eru þetta verkefni sem Markaðsstofa Suðurlands hefur sinnt til þessa, en með stofnun Áfangastaðastofu á grunni Mark­aðsstofunnar er verið að form­festa betur hlutverkin innan stoðkerfis ferðaþjónustunnar og vista þau úti í landshlutunum, segir Dagný.

Ávinningurinn ótvíræður í að skapa góða heildarmynd

Hvaða árangurs má vænta af svona verkefnum? „Það er alltaf verið að vinna að því að skapa heildarmynd fyrir svæðið. Sýna ferðamönnum fram á að hér sé skynsamlegt að ferðast og miða að því að lengja dvöl þeirra innan svæðisins og fá þá til að ferðast víðar. Til þess nýtum við ýmis verkfæri til markaðs­setningar og upplýsinga­miðlunar, s.s. vefsíðuna south.is, fjölmiðla og samfélagsmiðla. Nýjasta markaðstækið er t.d. vefurinn www.upplifdu.is sem er þróunar­verkefni sem allar Markaðsstofur lands­hlutana stóðu að með stuðn­ingi sveitarfélaga og lands­hlutasamtaka. Á vefnum getur gesturinn farið inn, skipulagt ferðina sína með tilliti til þess sem hann hefur áhuga á og langar að gera og upplifa á Suðurlandi. Með nokkrum smellum fær gesturinn hugmynd af ferðaplani sínu sem hann getur svo bæði prentað út og fengið myndband af í rauntíma og auðvitað deilt því með fjölskyldunni eða vinum sínum á samfélagsmiðlum,“ segir Dagný. Blaðamaður er agndofa þegar Dagný fer yfir vefinn og útbýr þriggja daga ferð um Suðurland. Í lokin er heildstætt myndband af ferðinni þar sem sýnir hvers vænta má. Það er hreinlega ekki annað hægt en að mæla með að fólk kynni sér þetta.

Víðtækt samráð við hagsmunaaðila skilar góðri vöru

Ef ég skil þig rétt er verið að auka samráð milli allra aðila í ferðaþjónustunni, frá grasrótinni til hins opinbera og þeirra sem sjá um markaðssetningu á erlendri grundu?“ Það er rétt. Fjöldi fólks, fyrirtækja og stofnana hefur komið að vinnunni og mun gera það áfram. Innan landshlutans hefur ferlið verið til umræðu á sveitarstjórnarstiginu og framundan eru fundir með ferðaþjónustunni. Allt til þess að gera ferðaþjónustuna á Íslandi meira aðlaðandi fyrir ferðamenn, innlenda og erlenda. Ísland mun tala einum rómi út á við þar sem sérstaða hvers svæðis er nýtt til að laða fólk til landsins. Með samræmdri ímynd af svæðinu stöndum við sterkar og eigum möguleika á því að fá ferðamenn inn til lengri dvalar og þar með vonandi betri upplifunar,“ segir Dagný.

Bjartir tímar framundan

Dagný er sannfærð um að bjartari tímar séu framundan fyrir ferðaþjónustuna. Fólk og fyrirtæki hafi nýtt tímann og andrýmið sem skapaðist í faraldrinum til þess að efla sína starfsemi og styrkja innviðina. „Ég held að við komum með öflugri atvinnugrein út úr þessu en þegar við fórum inn í faraldurinn. Fólk hefur verið duglegt að þróa vörur og aðlaga þjónustuna. Sérstaklega tóku margir það skref að þróa ferðavörur fyrir innlendan markað. Ég hugsa að það verði eitthvað sem við munum sjá áfram,“ segir Dagný að lokum.

Nýjar fréttir