1.7 C
Selfoss

Hugleiðingar um tannlæknahræðslu

Vinsælast

Fólk á misauðvelt/-erfitt með tannlæknaheimsóknir. Mörg börn hlakka mikið til komunnar. Einhverjir eldri ná góðri slökun og jafnvel dotta í stólnum. Aðrir eiga hins vegar erfitt með heimsóknirnar og gera allt hvað þeir geta til að fresta þeim eða jafnvel fara alls ekki. Ef þeir neyðast til af illri nauðsyn þá er nokkuð víst að þeir blunda ekki værum svefni nóttina fyrir heimsóknina.

Tannlækningar áður fyrr
Tannlækningar hafa verið stundaðar í árþúsundir. Nútíma tannlækningar frá síðla 19. aldar. Rauður þráður í gegnum sögu tannlækninga framan af hafa verið verkir. Fólk leitaði til tannlækna vegna verkja og það kostaði sömuleiðis verki að leysa vandamálin. Ekkert sérstaklega spennandi staða. Með notkun deyfilyfja urðu heimsóknirnar þó léttbærari. Um og eftir 1980 hófst síðan mikið forvarnarstarf á Íslandi. Áður sinntu tannlæknar aðallega fjarlægingum/viðgerðum en í dag vilja tannlæknar koma í veg fyrir viðgerðarþörf með öflugu forvarnarstarfi.

Hin gömlu kynni gleymast ei
Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að ímynda sér allar þær sögur sem hafa sprottið um tannlækningar á árum áður. Sumar hverjar sannar, aðrar stórlega ýktar. Barn sem fer í gegnum erfiða reynslu hjá tannlækni getur verið brennimerkt á sálinni fyrir lífstíð. Það er óþægilega stutt síðan slíkt var daglegt brauð, einungis nokkrir áratugir. Ég álasa ekki neinum, þetta voru aðferðir þess tíma. En börnin urðu að fullorðnum einstaklingum. Margir hverjir eiga enn erfitt með tannlæknaheimsóknir í dag.

Umhverfi barna í dag
Í dag er það spennandi fyrir flest börn sem ég þekki að fara til tannlæknis. Barn sem hefur aldrei kynnst öðru en jákvæðum heimsóknum ætti ekki að hræðast tannlækni. En það eimir enn af fortíðinni. T.d. fjalla eldri barnabækur um „tannpínu“, „bor“, „vont“, og „sprautur“. Ekkert sérlega upplífgandi nálgun, enda bækurnar skrifaðar af fólki sem hefur upplifað tímana tvenna. Í nýrri skrifum er ögn mildara orðaval látið nægja, t.d. „hræddur“ og „var ekkert vont“. Þarf þetta? Og foreldrar í dag segja óvart við börnin sín, sem hafa jafnvel aldrei farið til tannlæknis: „Þú þarft ekkert að vera hrædd/-ur“, „Þetta verður ekkert vont“ eða „Ég skal halda í höndina þína“. Vel meint, en hefur yfirleitt þveröfuga verkun. Foreldrum sem hafa sjálfir undirgengist erfiðar heimsóknir hjá tannlæknum hættir jafnvel við að „smita“ börnin sín óvart af sinni eigin hræðslu.

Vítahringurinn
Þeir sem eiga hvað verst með tannlæknaheimsóknir fara hreinlega ekki til tannlæknis, ekki nema sem algjört neyðarúrræði. Athyglin fer þá á verst stöddu tönnina með verknum. Oft flókið/erfitt/kostnaðarsamt verk. Á sama tíma eru aðrar tennur í betra ástandi sem fá enga athygli. Tennur sem er jafnvel einfalt að viðhalda/bjarga. En þar sem viðkomandi er nýbúinn í erfiðri heimsókn hjá tannlækni, jafnvel brenndur af henni, fer hann ekki fljótlega aftur í „auðveldu“ eftirlitsheimsóknina. Viðkomandi fer ekki til tannlæknis því það er svo erfitt. Og af því að hann fer ekki fyrr en er kominn í þrot, þá verða allar komandi heimsóknir líka erfiðar. Sumir skammast sín jafnvel fyrir þetta, sem bætir ekki vanlíðanina.

Óvissa
Óvissa veldur angist. Fólk getur t.d. hræðst að hjá þeim sé „allt í rugli“ í munninum, jafnvel fólk með fína tannstöðu. Og í stað þess að eyða óvissunni með eftirlitsheimsókn, þá er ekkert aðhafst á meðan viðkomandi er ekki með verki. Óvissa um kostnað getur líka valdið áhyggjum. Að óttast að það þurfi að kosta miklu til að koma hlutunum í lag, nú eða að hafa hreinlega ekki efni á þjónustunni. Eftirlitsheimsókn/skoðun eyðir óvissunni.

Nokkur heilræði
Líkt og með viðhald bifreiðar/húsnæðis þá er bæði MUN einfaldara og ódýrara að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi í munni heldur en flóknum viðgerðum. Aðgerðaleysi hjálpar ekki. Það getur verið erfitt að taka fyrsta skrefið og koma sér af stað. Ég veit; einfalt að segja, erfitt að framkvæma. Segðu frá líðan þinni strax við bókun heimsóknarinnar svo starfsfólkið sé undirbúið. Tannlæknirinn þinn getur jafnvel veitt þér sérstaka þjónustu gagnvart tannlæknahræðslu (sbr. flughræðslunámskeið).
Hlífum börnunum: Fullorðnir ættu að temja sér jákvæða umfjöllun, viðmót og orðaforða gagnvart tannlækaferðum barna sinna.

Sverrir Örn Hlöðversson,
tannlæknir

Nýjar fréttir