6 C
Selfoss

Er þörf á nýjum Stekkjaskóla?

Vinsælast

Þar sem nokkur umræða hefur verið um nýjan Stekkjaskóla hefur skólaskrifstofa Sveitarfélagsins Árborgar tekið saman upplýsingar frá skólastjórum Sunnulækjarskóla og Vallaskóla sem sýna að aðkallandi er að hefja starf í nýjum Stekkjaskóla haustið 2021.

Nú þegar eru fleiri nemendur í Sunnulækjarskóla heldur en húsnæðið ber með góðu móti og þar þyrfti jafnvel að fækka um 140 nemendur ef vel ætti að vera. Í Vallaskóla væri mögulegt að fjölga nemendum um 30-40 með því að bæta við tveimur lausum kennslustofum, til viðbótar við þær sem fyrir eru. Mannfjöldaþróun og uppbygging á Selfossi leiðir hinsvegar til þess að á yfirstandandi ári mun nemendum á grunnskólaaldri í sveitarfélaginu fjölga um 60-100. Það blasir því við að ekki er hægt að tryggja að öll börn fái skólavist næsta vetur öðruvísi en að kennsla hefjist í Stekkjaskóla.

Um áramótin 2016/2017 var gerð spá um nemendafjölda á Selfossi til nokkurra ára út frá íbúafjölda á þeim tíma. Það er krefjandi verkefni að gera slíka spá í ört vaxandi sveitarfélagi en spáin gerði ráð fyrir að skólaárið 2020-2021 væru 659 nemendur í Sunnulækjarskóla en raunin varð 740 nemendur. Þá gerði spáin ráð fyrir að 505 nemendur yrðu í Vallaskóla en raunin varð 635.

Stærstu árgangar í Sunnulækjarskóla eru nú um 88 nemendur en svo stórir árgangar reyna mjög á skólamódelið sem Sunnulækjarskóli starfar eftir og erfitt að halda uppi þjónustu af þeim gæðum sem skólinn telur nauðsynlegt út frá hugmyndafræðinni um skóla fyrir alla. Þar sem umfang Sérdeildar Suðurlands, sem er deild í Sunnulækjarskóla, hefur aukist verulega undanfarin ár hefur hluti af bráðabirgðakennslurými skólans ásamt mataraðstöðu starfsmanna verið tekið undir starfsemi deildarinnar. Þrátt fyrir að byggt hafi verið við skólann 2015 og 2018 hefur engu verið bætt við það sem tilheyrir miðlægri þjónustu og miðar hún við 500 nemendur. Þar er um að ræða kennsluaðstöðu í list- og verkgreinum, íþróttakennslu, skólabókasafn sem og starfsaðstöðu fyrir stoðþjónustu, kennara, stjórnendur og aðra starfsmenn. Þá var í upphaflegri hönnun ekki gert ráð fyrir frístundaheimili við skólann en frá árinu 2007 hefur því verið fundinn staður innan skólans frá kl. 13:00.  Skólastjóri Sunnulækjarskóla benti á það fyrir nokkrum árum að þessi nemendafjöldi gengi ekki til lengdar og að það væri aðkallandi verkefni að bæta við þriðja grunnskólanum á Selfossi. Samkvæmt minnisblaði frá skólastjóra er gert ráð fyrir að skólastarfið geti verið í jafnvægi með um 600-620 nemendur. Þá verður að taka tillit til þess að nýtt hverfi hefur verið að byggjast upp austan við Sunnulækjarskóla sem er hluti af því skólahverfi.

Eins og þegar hefur komið fram hefur nemendafjölgun í Vallaskóla verið töluvert umfram það sem spár gerðu ráð fyrir í upphafi árs 2017. Brugðist hefur verið við því með því að koma upp lausum kennslustofu­einingum við skólann sem hafa leyst þann bráðavanda sem við höfum staðið frammi fyrir.  Starfsfólk hefur á undanförnum árum réttilega bent á mikla viðhaldsþörf í skólanum, m.a. þörf á betri starfsmannaaðstöðu. Töluvert hefur verið unnið að viðhaldi í Vallaskóla en enn er þó verk að vinna og því er ekki æskilegt að fjölga nemendum umfram það sem þegar er orðið. Það er mat skólastjóra Vallaskóla að þanþol skólans við núverandi húsakost sé 630-640 nemendur.

Miðað við þá íbúafjölgun sem hefur verið í Sveitarfélaginu Árborg á undanförnum árum og þann mikla vöxt sem framundan er má alls ekki bíða með að opna nýjan Stekkjaskóla.  Í fyrstu er gert ráð fyrir um 150 nemendum í Stekkjaskóla en það léttir verulega á hinum grunnskólunum á Selfossi og þá einkum Sunnulækjarskóla.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja þá fjölgar börnum á grunnskólaaldri um 60-100 árlega næstu árin. Þetta gæti þýtt að við værum aftur komin að þolmörkum árið 2025.

Þessi spá hér að neðan byggir á líkani sem Talnakönnun vann fyrir Sveitarfélagið Árborg árið 2020 (lágspá). Hún sýnir að börnum á grunnskólaaldri fjölgar um 60 á yfirstandandi ári:

Skipting eftir aldri
Aldurshópar Spá 1.1. hvers árs
Frá Til 2020 2021 2022 2023 2024 2025
0 1 252 267 264 282 305 329
2 5 518 560 597 639 657 698
6 15 1.507 1.538 1.603 1.634 1.713 1.761
16 17 278 305 310 345 358 372
18 69 6.441 6.699 7.112 7.527 7.971 8.447
70 84 883 960 1.020 1.098 1.178 1.270
85 109 176 176 187 189 188 186
Alls 10.055 10.506 11.094 11.715 12.371 13.063
Fjölgun   451 588 621 656 692

 

Miðað við fyrirhugað byggingarmagn íbúða í Sveitarfélaginu Árborg á næstu árum og að næg eftirspurn verði til staðar má gera ráð fyrir að íbúafjölgun verði um 1300 manns á ári. Því má alls ekki slaka á í uppbyggingu skólamannvirkja og það sama á að sjálfsögðu við um aðstöðu fyrir alla frístunda- og velferðarþjónustu.

 

Aðsent frá skólaskrifstofu Árborgar

Nýjar fréttir