1.1 C
Selfoss

Hef mikinn áhuga á bókum sem eru ljóðrænar og sjónrænar

Vinsælast

Kristín Scheving er safnstjóri Listasafns Árnesinga í Hveragerði og býr á Eyrarbakka með manni sínum og fjórum strákum. Hún menntaði sig í myndlist í Frakklandi og Bretlandi og bjó einnig um tíma í Berlín og á Suður-Ítalíu. Hún vann áður sem deildarstjóri hjá Listasafni Íslands og hefur bæði unnið sem sýningarstjóri og verkefnastjóri fyrir ýmis verkefni innanlands og utanlands.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Núna er ég að lesa bókina Handiwork sem Sara Baume skrifaði. Það var Helen vinkona mín í London sem gaf mér hana í jólagjöf. Bókin fjallar um nálgun listamannsins á daglegu lífi og er virkilega áhugaverð. Hún skannar bæði fortíð og samtíð, tengir á milli þess sem forfeður og mæður gerðu og hvernig þau lifðu og hvað listamaðurinn gerir í sínu daglegu lífi og hvernig hann lifir. Einnig bíður mín önnur bók sem ég fékk frá samstarfskonu minni henni Zsóku sem heitir Dyrnar eftir Mögdu Szabó sem ég hlakka mikið til að lesa. Síðasta íslenska bókin sem ég las var skáldsagan Dýralíf eftir Auði Övu Ólafsdóttur en það gerði ég um jólin og naut þess mikið.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Ég les allskyns bækur en hef mikinn áhuga á bókum sem eru ljóðrænar og sjónrænar. Held að mín uppáhaldsbók sé Vasabók eftir Pétur Gunnarsson. Blanda af daglegu lífi og ljóðrænum hugsunum og pælingum um lífið. Hún er sögð vera lofsöngur til augnabliksins. Það er svona svipaðar pælingar sem höfða mest til mín í myndlist.

Ertu alin upp við lestur bóka?

Ég las mjög mikið sem barn, var eiginlega alltaf að lesa. Las allt sem ég fann í sveitinni hjá ömmu og heima líka. Ég var mjög hrifin af Dísu ljósálfi, var eiginlega lengi að ná mér eftir að hafa lesið hana sem barn. Einnig las ég öll Grimmsævintýrin og Fimm bækurnar eftir Enyd Blyton og svo framvegis. Jú og svo man ég þegar að ég fékk Dagbók Önnu Frank en sú bók hafði mikil áhrif á mig. Sem unglingur lásum við vinkonurnar að sjálfsögðu allar Ísfólks bækurnar.

Hvernig myndir þú lýsa lestravenjum þinum?

Ég er sílesandi. Kannski ekki alltaf bækur heldur einnig sýningarskrár og allskyns rit sem tengjast myndlist. Ég tek einnig svona tímabil þar sem ég les mikið og svo les ég kannski ekki eins mikið í einhvern tíma.

Áttu þér uppáhalds höfund?

Þegar kemur að uppáhaldshöfundi koma margir í hugann. En ég held að ég verði að nefna nokkra íslenska eins og Guðrúnu Evu Mínervudóttur, Oddnýju Eir Ævarsdóttur og Þórberg Þórðarson. Þau snerta öll einhverja djúpa taug inn í mér.

Hefur bók rænt þig svefni?

Núna nýlega já. Ég fékk fyrir ári síðan bók Sally Magnússon um Tyrkjaránið í Vestmannaeyjum sem heitir The Sealswoman´s gift. Ég gat eiginlega ekki hætt að lesa hana.  Núna kaupi ég hana alls staðar þar sem ég sé hana og sendi vinkonum búsettum út um allan heim.

 

En að lokum Kristín, hvernig bækur myndir þú skrifa sem skáld eða rithöfundur?

Ég hef verið að skrifa mínar eigin bækur síðastliðinn áratug sem eru einskonar blanda af teikningum og ljóðrænum stuttum sögum um lífið og tilveruna og hver veit nema að ég gefi einhverja þeirra út einn daginn.

 

Lestrarhestur númer 109. Umsjón Jón Özur Snorrason.

Nýjar fréttir